Súkkulaðihúðaðar kókoskúlur

Í gær dundaði ég mér við að gera þessar sérlega góðu kókoskúlur. Það sem gerir þær svo dásamlega góðar er að það er bæði brætt súkkulaði í deiginu og utan um kókoskúlurnar. Súkkulaði gerir allt aðeins betra, þannig er það bara! Það er upplagt að gera tvöfaldan skammt og geyma í frysti því það er bara svo gott að geta nælt sér í eina kókoskúlu til að eiga með kaffibollanum. Annars er best að geyma þær í ísskáp en þá er hætta á að þær klárist einn, tveir og tíu!

Súkkulaðihúðaðar kókoskúlur (uppskriftin gefur um 25 kúlur)

 • 4 dl haframjöl (ég var með tröllahafra en hvaða haframjöl sem er dugar)
 • 100 g smjör
 • 1,5 dl flórsykur
 • 2 msk kakó
 • 2 msk sterkt kaffi (kalt)
 • 1/2 msk vanillusykur
 • 50 g rjómasúkkulaði

Utan um kókoskúlurnar:

 • 200 g súkkulaði (ég var með rjómasúkkulaði og suðusúkkulaði til helminga)
 • kókosmjöl

Setjið haframjöl í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til haframjölið er fínmalað. Bætið smjöri, flórsykri, kakó, kaffi og vanillusykri saman við og vinnið saman í sléttan massa. Bræðið súkkulaðið og látið kólna. Bætið því síðan vel saman við massann.

Mótið kúlur, leggið þær á smjörpappír og látið standa í frysti í um 30 mínútur.

Bræðið súkkulaðið og setjið kókosmjöl í skál. Dýfið kókoskúlunum, einni í einu, í brædda súkkulaðið og veltið þeim síðan upp úr kókosmjölinu (mér þótti best að nota teskeið til að setja kúluna í súkkulaðið og var síðan með gaffal í kókosmjölinu, byrjaði á að moka kókosmjöl yfir kúluna og velti henni síðan um í kókosmjölinu). Geymið kókoskúlurnar í ísskáp eða frysti.

 

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

Súkkulaðibitalengjur

Súkkulaðibitalengjur

Gleðilegan Valentínusardag! Ég veit að það eru skiptar skoðanir varðandi Valentínusardaginn en sjálf tek ég öllum dögum til að gera sér dagamun fagnandi. Í kvöld ætlum við út að borða en ég hef ekki hugmynd um hvert við erum að fara. Hlakka til!

Súkkulaðibitalengjur

Ég ætlaði að setja þessar súkkulaðibitalengjur inn um helgina en það gafst ekki færi á því þar sem helgin fór í að mála loftið hér heima og stúss í kringum það. Núna er þó allt komið á sinn stað, loftið nýmálað og allt orðið fínt aftur. Ég get því loksins sett inn þessa uppskrift af einföldustu súkkulaðibitakökum í heimi. Ég elska kökulengjur því það er svo fljótlegt að baka þær og dásamlegt að eiga þær í frystinum. Síðan fara þær svakalega vel með kaffibollanum. Þessar urðu seigar og svo góðar!

Súkkulaðibitalengjur

Súkkulaðibitalengjur

 • 100 g smjör við stofuhita
 • 2 msk sýróp
 • 2,5 dl hveiti
 • 1 dl sykur
 • 1 tsk lyftiduft
 • 2 tsk vanillusykur
 • 100 g gott súkkulaði (ég var með frá Marabou)

Hitið ofn í 200°. Hrærið saman smjör, sykur og sýróp. Blandið þurrefnunum saman og hrærið þeim í smjörblönduna. Hrærið að lokum hökkuðu súkkulaði í deigið.

Skiptið deiginu í tvennt og mótið lengur úr þeim. Setjið lengurnar á bökunarplötu með bökunarpappír, þrýstið aðeins á þær og bakið síðan í 12-14 mínútur við 200° (ekki blástur). Takið úr ofninum og skáskerið á meðan kökurnar eru heitar.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Sultukökur

Sultukökur

Í dag er vika í aðfangadag. Mér þykir aðventan hafa liðið svo brjálæðislega hratt og man varla eftir jafn skemmtilegum desembermánuði. Tveir saumaklúbbar, vinkonuhittingar, matarboð, jólaboð, jólahlaðborð, Baggalútstónleikar og kampavínshittingur er þegar afstaðið og stuðið heldur áfram því í næstu viku bíður annað jólahlaðborð, skötuveisla og síðast en ekki síst – ég verð fertug!

Sultukökur

Ég hef ekki verið nógu dugleg í smákökubakstrinum þessa aðventuna og það litla sem ég hef bakað hefur klárast samstundis. Hér eru því engin smákökubox á borðum en ég á sörur í frystinum og konfekt í skápnum þannig að það væsir ekki um okkur.  Mig grunar að þetta verði síðasta smákökuuppskriftin sem ég set inn fyrir þessi jól en hún er ekki af verri endanum. Klassískar sænskar sultukökur sem eru svo góðar að það hálfa væri nóg. Uppskriftin er ekkert brjálæðislega stór og því snjallt að tvöfalda hana.

Sultukökur

Það er upplagt að setja nokkrar kökur í poka og færa ástvinum fyrir jólin. Gjöf sem gleður!

Sultukökur – uppskrift úr tímaritinu Hembakat

 • 2,5 dl hveiti (150 g)
 • 120 g smjör við stofuhita
 • 3/4 dl flórsykur (45 g)
 • 1 tsk vanillusykur
 • St. Dalfour hindberjasulta

Hitið ofninn í 200°. Hrærið smjör, flórsykur og vanillusykur saman þar til blandan er létt. Bætið hveitinu saman við og vinnið vel saman. Setjið deigið í sprautupoka og sprautið kökurnar á bökunarpappírsklædda bökunarplötu. Gerið smá holu í miðja kökuna og setjið hindberjasultu þar í. Bakið í 12-15 mínútur.

SultukökurSultukökurSultukökurSultukökur

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

 

Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

Í desember er alltaf jafn ánægjulegt að sjá jólakort detta inn um lúguna. Ég opna þau aldrei fyrr en seint á aðfangadagskvöldi. Þá söfnumst við saman þegar allir eru komnir í náttfötin, náum í sörur og jólanammi, og opnum kortin eitt í einu. Sá sem opnar kortið les það upphátt og síðan gengur það manna á milli. Þetta er svo notalegur endir á kvöldinu að það hálfa væri nóg.

Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

Undanfarin ár hef ég ekki sent jólakort og nú hræðist ég það mest að vera dottin út af jólakortalistunum hjá öðrum. Ef svo er þá hef ég fullan skilning á því, þó ég muni sakna kortanna alveg svakalega. Kannski að ég stilli unglingunum mínum upp, smelli mynd af þeim og læt útbúa kort. Ég þarf þá að fara að huga að því, það styttist óðum í jólin. Ég datt niður á fallega kortasíðu, Tinyprints, um daginn sem ég gæti hugsað mér að panta af, ef það gengur að hafa textann með íslenskum stöfum. Kortið hér fyrir neðan þykir mér stílhreint og fallegt, og svo jólalegt með hvíta snjónum og rauðu kápunni.


Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

Síðan þarf ekki alltaf að eltast við hina fullkomnu jólakortamynd þar sem börnin sitja straujuð og fín, allir brosa sínu blíðasta og horfa beint í myndavélina (og oftar en ekki eru allir fyrir löngu búnir að missa gleðina), þegar allra fínast er þegar myndirnar eru líflegar. Þessi fjölskyldumynd þykir mér dásamlega falleg þrátt fyrir að einn sé með lokuð augun og engin horfir í sömu átt. Afslöppuð og hlý mynd sem passar vel í jólakortið.

Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

Fyrr í vikunni bakaði ég lakkrístoppa en skipti lakkrískurlinu út fyrir piparfylltar lakkrísreimar. Útkoman varð bestu smákökur sem við höfum á ævinni smakkað! Ég hef aldrei séð kökur klárast jafn hratt og það leið ekki klukkutími frá því topparnir komu úr ofninum þar til þeir voru allir búnir. Ég, sem er ekki einu sinni neitt sérlega hrifin af piparfylltu reimunum, réði ekki við mig og borðaði meira en ég mun nokkurn tímann gefa upp. Ég segi bara, ef þið ætlið að baka eina smákökusort fyrir jólin þá skuluð þið baka þessa!

Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

 • 3 eggjahvítur
 • 200 g púðursykur
 • 1 poki piparfylltar lakkrísreimar (80 g)
 • 1 poki suðusúkkulaðidropar (150 g)
Stífþeytið eggjahvítur og púðursykur. Skerið lakkrísreimarnar niður í smáa bita.
Blandið lakkrísreimum og súkkulaði varlega saman við stífþeyttu eggjahvíturnar.
Mótið toppa með tveim teskeiðum og bakið við 140° í 20 mínútur.
Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaðiMarengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaðiMarengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaðiMarengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaðiMarengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaðiMarengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Flórentínur

FlórentínurÞessi jól munu eflaust fara í sögubækur fjölskyldunnar sem þau notalegustu allra tíma. Við höfum ekki hreyft okkur! Jólaboðinu sem mamma er vön að vera með á jóladag var frestað sökum veikinda sem varð til þess að við fórum aldrei á fætur í gær. Ég las í gegnum þrjár matreiðslubækur, velti áramótamatseðlinum fyrir mér, horfði á sjónvarpið og borðaði sætindi allan daginn. Hversu notalegt! Ég ætla að halda áfram á sömu nótum í dag. Það þarf að gera pláss í ísskápnum fyrir áramótamatinn og eina leiðin til að gera það er að borða það sem í honum er.

FlórentínurFlórentínur

Ég prófaði tvær nýjar smákökuuppskriftir fyrir þessi jól, flórentínur og súkklaðibitakökur, og báðar reyndust æðislegar. Malín og Gunnar hafa staðið á beit í Flórentínunum og súkkulaðibitakökurnar endaði ég á að fela í frystinum því þær hurfu allt of hratt. Báðar uppskriftirnar fann ég á blogginu Eldað í vesturbænum, æðislegt blogg sem því miður hefur legið í dvala undanfarin ár. Ég held enn í vonina að það lifni aftur við. Hér kemur uppskriftin af Flórentínunum, tekin beint af Eldað í vesturbænum.

Flórentínur

Flórentínur

(Uppskrift frá The Gourmet Cookie Book)

 • 125 ml rjómi
 • 120 g sykur
 • 45 g smjör
 • 150 g möndlur, fínsaxaðar
 • Börkur af hálfri appelsínu, rifinn eða fínsaxaður
 • 50 g hveiti

Aðferð:

Setjið rjóma, sykur og smjör saman í pott og náið upp suðu, passið að hræra reglulega því annars brennur sykurinn við botninn eða blandan sýður upp úr pottinum. Sjóðið þangað til að blandan verður þykk og karamellubrún á litinn. Slökkvið undir pottinum og hrærið möndlum, appelsínuberki og hveiti saman við.

Takið fram ofnplötu og bökunarpappír og setjið eina matskeið í einu af deiginu á plötuna með 6 cm millibili. Fletjið dropana með sleikju (ágætt að bleyta hana aðeins fyrst svo hún límist ekki við dropana).

Bakið kökurnar við 180°C í 8 – 10 mínútur. Leyfið þeim að kólna í ca. 5 mínútur áður en þær eru færðar á grind. Leyfið þeim að kólna alveg og smyrjið þær síðan með bráðnu súkkulaði.

Geymið í ísskáp.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Lakkrístoppar með karamellukurli

Lakkrístoppar með karamellukurli

Það virðist engin smákökusort fá að liggja óhreyfð hér á heimilinu en sú sort sem ég baka hvað oftast eru lakkrístopparnir. Ég hef bakað nokkra umganga fyrir þessi jól og þeir hverfa jafn hratt og þeir koma úr ofninum. Krakkarnir elska þá!

Lakkrístoppar með karamellukurliLakkrístoppar með karamellukurliLakkrístoppar með karamellukurliLakkrístoppar með karamellukurli

Lakkrístoppar með karamellukurli

 • 3 eggjahvítur
 • 200 g púðursykur
 • 1 poki lakkrískurl (150 g)
 • 1 poki karamellukurl (150 g)

Stífþeytið eggjahvítur og púðursykur. Hrærið lakkrís- og karamellukurli varlega saman við. Myndið toppa með tveimur teskeiðum og setjið á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Bakið við 150° í 15-18 mínútur.

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP

Nutellakökur

NutellakökurUm helgina bakaði ég kökur sem vöktu gífurlega lukku hér á heimilinu. Uppskriftina fann ég á sænska kökublogginu Bakverk och fikastunder en þar er hún ein vinsælasta uppskrift bloggsins. Það kemur mér ekki á óvart því kökurnar eru dásamlegar og það tekur nánast enga stund að gera þær.

Nutellakökur

Ef þið hafið meiri sjálfsaga en við þá væri eflaust himneskt að bera þær fram með þeyttum rjóma og berjum, eins og mælt er með, en við vorum of gráðug! Næst ætla ég að prófa það…

Nutellakökur

Nutellakökur (uppskrift frá Bakverk och fikastunder)

 • 2 eggjahvítur
 • 2,5 dl flórsykur
 • 0,5 dl hveiti
 • 0,5 dl kakó
 • 1 tsk vanillusykur
 • 0,75 dl nutella

Hrærið eggjahvítum og flórsykri saman í um 1 mínútu. Hrærið kakó, hveiti, vanillusykri og nutella saman við. Notið tvær skeiðar til að gera 12 deigskammta á smjörpappírsklædda ofnplötu. Bakið við 175° í um 12 mínútur. Látið kökurnar kólna á ofnplötunni.

Nutellakökur

Allt hráefni í þessa uppskrift fæst í

HAGKAUP