Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

Í desember er alltaf jafn ánægjulegt að sjá jólakort detta inn um lúguna. Ég opna þau aldrei fyrr en seint á aðfangadagskvöldi. Þá söfnumst við saman þegar allir eru komnir í náttfötin, náum í sörur og jólanammi, og opnum kortin eitt í einu. Sá sem opnar kortið les það upphátt og síðan gengur það manna á milli. Þetta er svo notalegur endir á kvöldinu að það hálfa væri nóg.

Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

Undanfarin ár hef ég ekki sent jólakort og nú hræðist ég það mest að vera dottin út af jólakortalistunum hjá öðrum. Ef svo er þá hef ég fullan skilning á því, þó ég muni sakna kortanna alveg svakalega. Kannski að ég stilli unglingunum mínum upp, smelli mynd af þeim og læt útbúa kort. Ég þarf þá að fara að huga að því, það styttist óðum í jólin. Ég datt niður á fallega kortasíðu, Tinyprints, um daginn sem ég gæti hugsað mér að panta af, ef það gengur að hafa textann með íslenskum stöfum. Kortið hér fyrir neðan þykir mér stílhreint og fallegt, og svo jólalegt með hvíta snjónum og rauðu kápunni.


Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

Síðan þarf ekki alltaf að eltast við hina fullkomnu jólakortamynd þar sem börnin sitja straujuð og fín, allir brosa sínu blíðasta og horfa beint í myndavélina (og oftar en ekki eru allir fyrir löngu búnir að missa gleðina), þegar allra fínast er þegar myndirnar eru líflegar. Þessi fjölskyldumynd þykir mér dásamlega falleg þrátt fyrir að einn sé með lokuð augun og engin horfir í sömu átt. Afslöppuð og hlý mynd sem passar vel í jólakortið.

Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

Fyrr í vikunni bakaði ég lakkrístoppa en skipti lakkrískurlinu út fyrir piparfylltar lakkrísreimar. Útkoman varð bestu smákökur sem við höfum á ævinni smakkað! Ég hef aldrei séð kökur klárast jafn hratt og það leið ekki klukkutími frá því topparnir komu úr ofninum þar til þeir voru allir búnir. Ég, sem er ekki einu sinni neitt sérlega hrifin af piparfylltu reimunum, réði ekki við mig og borðaði meira en ég mun nokkurn tímann gefa upp. Ég segi bara, ef þið ætlið að baka eina smákökusort fyrir jólin þá skuluð þið baka þessa!

Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

 • 3 eggjahvítur
 • 200 g púðursykur
 • 1 poki piparfylltar lakkrísreimar (80 g)
 • 1 poki suðusúkkulaðidropar (150 g)
Stífþeytið eggjahvítur og púðursykur. Skerið lakkrísreimarnar niður í smáa bita.
Blandið lakkrísreimum og súkkulaði varlega saman við stífþeyttu eggjahvíturnar.
Mótið toppa með tveim teskeiðum og bakið við 140° í 20 mínútur.
Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaðiMarengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaðiMarengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaðiMarengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaðiMarengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaðiMarengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

Flórentínur

FlórentínurÞessi jól munu eflaust fara í sögubækur fjölskyldunnar sem þau notalegustu allra tíma. Við höfum ekki hreyft okkur! Jólaboðinu sem mamma er vön að vera með á jóladag var frestað sökum veikinda sem varð til þess að við fórum aldrei á fætur í gær. Ég las í gegnum þrjár matreiðslubækur, velti áramótamatseðlinum fyrir mér, horfði á sjónvarpið og borðaði sætindi allan daginn. Hversu notalegt! Ég ætla að halda áfram á sömu nótum í dag. Það þarf að gera pláss í ísskápnum fyrir áramótamatinn og eina leiðin til að gera það er að borða það sem í honum er.

FlórentínurFlórentínur

Ég prófaði tvær nýjar smákökuuppskriftir fyrir þessi jól, flórentínur og súkklaðibitakökur, og báðar reyndust æðislegar. Malín og Gunnar hafa staðið á beit í Flórentínunum og súkkulaðibitakökurnar endaði ég á að fela í frystinum því þær hurfu allt of hratt. Báðar uppskriftirnar fann ég á blogginu Eldað í vesturbænum, æðislegt blogg sem því miður hefur legið í dvala undanfarin ár. Ég held enn í vonina að það lifni aftur við. Hér kemur uppskriftin af Flórentínunum, tekin beint af Eldað í vesturbænum.

Flórentínur

Flórentínur

(Uppskrift frá The Gourmet Cookie Book)

 • 125 ml rjómi
 • 120 g sykur
 • 45 g smjör
 • 150 g möndlur, fínsaxaðar
 • Börkur af hálfri appelsínu, rifinn eða fínsaxaður
 • 50 g hveiti

Aðferð:

Setjið rjóma, sykur og smjör saman í pott og náið upp suðu, passið að hræra reglulega því annars brennur sykurinn við botninn eða blandan sýður upp úr pottinum. Sjóðið þangað til að blandan verður þykk og karamellubrún á litinn. Slökkvið undir pottinum og hrærið möndlum, appelsínuberki og hveiti saman við.

Takið fram ofnplötu og bökunarpappír og setjið eina matskeið í einu af deiginu á plötuna með 6 cm millibili. Fletjið dropana með sleikju (ágætt að bleyta hana aðeins fyrst svo hún límist ekki við dropana).

Bakið kökurnar við 180°C í 8 – 10 mínútur. Leyfið þeim að kólna í ca. 5 mínútur áður en þær eru færðar á grind. Leyfið þeim að kólna alveg og smyrjið þær síðan með bráðnu súkkulaði.

Geymið í ísskáp.

Lakkrístoppar með karamellukurli

Lakkrístoppar með karamellukurli

Það virðist engin smákökusort fá að liggja óhreyfð hér á heimilinu en sú sort sem ég baka hvað oftast eru lakkrístopparnir. Ég hef bakað nokkra umganga fyrir þessi jól og þeir hverfa jafn hratt og þeir koma úr ofninum. Krakkarnir elska þá!

Lakkrístoppar með karamellukurliLakkrístoppar með karamellukurliLakkrístoppar með karamellukurliLakkrístoppar með karamellukurli

Lakkrístoppar með karamellukurli

 • 3 eggjahvítur
 • 200 g púðursykur
 • 1 poki lakkrískurl (150 g)
 • 1 poki karamellukurl (150 g)

Stífþeytið eggjahvítur og púðursykur. Hrærið lakkrís- og karamellukurli varlega saman við. Myndið toppa með tveimur teskeiðum og setjið á bökunarplötu klædda bökunarpappír. Bakið við 150° í 15-18 mínútur.

Nutellakökur

NutellakökurUm helgina bakaði ég kökur sem vöktu gífurlega lukku hér á heimilinu. Uppskriftina fann ég á sænska kökublogginu Bakverk och fikastunder en þar er hún ein vinsælasta uppskrift bloggsins. Það kemur mér ekki á óvart því kökurnar eru dásamlegar og það tekur nánast enga stund að gera þær.

Nutellakökur

Ef þið hafið meiri sjálfsaga en við þá væri eflaust himneskt að bera þær fram með þeyttum rjóma og berjum, eins og mælt er með, en við vorum of gráðug! Næst ætla ég að prófa það…

Nutellakökur

Nutellakökur (uppskrift frá Bakverk och fikastunder)

 • 2 eggjahvítur
 • 2,5 dl flórsykur
 • 0,5 dl hveiti
 • 0,5 dl kakó
 • 1 tsk vanillusykur
 • 0,75 dl nutella

Hrærið eggjahvítum og flórsykri saman í um 1 mínútu. Hrærið kakó, hveiti, vanillusykri og nutella saman við. Notið tvær skeiðar til að gera 12 deigskammta á smjörpappírsklædda ofnplötu. Bakið við 175° í um 12 mínútur. Látið kökurnar kólna á ofnplötunni.

Nutellakökur

Heimsins bestu súkkulaðibitakökur

Heimsins bestu súkkulaðibitakökurUndanfarnir dagar hafa verið nokkuð viðburðaríkir því við fengum skiptinema frá Frakklandi til okkar síðasta föstudag sem mun dvelja hjá okkur í viku. Í haust munu hlutskiptin síðan snúast við þegar Malín fer Frakklands sem skiptinemi í viku. Þetta ævintýri er á vegum Versló og er bæði stórsniðugt og skemmtilegt. Við vorum sérlega heppin með skiptinema, fengum yndislega stelpu til okkar sem er jákvæð og þakklát fyrir allt sem er gert fyrir hana og segist vera farin að kvíða því að kveðja og halda heim. Hún fer vonandi með góða upplifun héðan á föstudaginn og Malín hefur eflaust eignast vinkonu fyrir lífstíð.

Heimsins bestu súkkulaðibitakökurHeimsins bestu súkkulaðibitakökur

En úr einu í annað, ég les annað slagið amerískt blogg sem heitir Love Taza. Bloggið er ekki matarblogg en af og til læðast þangað inn mataruppskriftir og þegar þar birtist uppskrift sem hét „The world´s best chocolate chip cookie“ þá gat ég ómöglega staðist að prófa þær. Skiljanlega! Kökurnar eru æðislegar og ekki skemmir fyrir hvað það er einfalt að gera þær. Þessar mun ég baka aftur og aftur…

Heimsins bestu súkkulaðibitakökur

Heimsins bestu súkkulaðibitakökur (uppskrift frá Love Taza)

 • 1 bolli smjör
 • 1 bolli sykur
 • 1 bolli púðursykur
 • 2 egg
 • 1 tsk. vanilludropar
 • 1 tsk. matarsódi
 • 2 tsk lyftiduft
 • ½ tsk salt
 • 3¼  bollar hveiti
 • 1 bolli (eða meira) súkkulaðibitar

Hrærið smjörið mjúkt og kremkennt. Hrærið sykri og púðursykri saman við. Hrærið eggjum og vanilludropum saman við. Blandið þurrefnunum saman og hrærið þeim smátt og smátt saman við smjör/sykur blönduna. Hrærið súkkulaðibitum að lokum í deigið.

Skiptið deiginu í um 30-35 bita og raðið á bökunarpappírsklædda bökunarplötu (það er algjör óþarfi við að dunda sér við að rúlla kúlur úr deiginu). Bakið við 175° í 8-10 mínútur.

M&M kökulengjur

M&M kökulengjurStundum velti ég því fyrir mér hvort það sé nokkuð notalegra en nýbakaðar kökur og köld mjólk á kvöldin. Þegar amstri dagsins er lokið og ró komin yfir, að setjast þá niður með krökkunum og spjalla um daginn og veginn á meðan mumsað er á nýbökuðu góðgæti.

M&M kökulengjur

Ég nýt þess svo að eiga þessar stundir og læt mér fátt um finnast hvaða vikudagur er. Það breytir engu. Þegar kvöldmaturinn hefur verið einfaldur þá er svo lítið mál að baka einn umgang af svona kökum, það tekur enga stund.

M&M kökulengjur

Þessar M&M kökulengjur hurfu á augabragði ofan í krakkana og ég hafði fullan skilning á því. Þær eru gjörsamlega ómótstæðilegar, hvort sem er með kaffinu eða köldu mjólkurglasi. Stökkar að utan, seigar að innan og stökkir M&M bitar þess á milli… dásemdin ein!

M&M kökulengjur

M&M kökulengjur (um 30 stykki)

 • 125 g smjör við stofuhita
 • 1 ½ dl sykur
 • 1 ½ dl púðursykur
 • 1 egg
 • 1 msk vanillusykur
 • ½ tsk matarsódi
 • smá salt
 • 3 dl hveiti
 • um 1 dl M&M smartís

Hitið ofninn í 180°. Blandið saman smjöri, sykri, púðursykri, eggi, vanilusykri, matarsóda og salti. Bætið hveitinu saman við og hrærið snögglega saman í deig. Skiptið deiginu í tvennt (eða fernt fyrir minni lengjur), rúllið því út í lengjur og leggið á bökunarplötu klædda bökunarpappír (passið að hafa gott bil á milli því þær renna út). Þrýstið lengjunum aðeins út og dreifið M&M yfir þær. Bakið í 15-18 mínútur (styttið bökunartíman örlítið ef þið gerið fjórar lengjur). Skáskerið lengjurnar í sneiðar þegar þær koma úr ofninum (á meðan þær eru heitar) og látið síðan kólna.

 

Daimtoppar og vinningshafar í gjafaleik

Daimtoppar og vinningshafar í gjafaleik

Ég eyddi gærkvöldinu í matarboði með vinkonum mínum og kom ekki heim fyrr en um miðnætti. Þá var gjafaleiknum í samvinnu við Heru Björk ný lokið og ég fór að velta því fyrir mér hvernig best væri að draga vinningshafana. Það fór svo að ég prentaði út öll kommentin og sat svo langt fram á nótt við að klippa nöfnin í sundur og brjóta miðana saman. Ég áttaði mig engan vegin á því hversu mikil vinna biði mín, enda rúmlega 400 þátttakendur, og eftir á að hyggja hefði verið skynsamlegra að nýta tæknina og láta tölvuforrit velja vinningshafa. Að lokum voru þó nöfn allra þátttakenda komin í pottinn og þrjú nöfn dregin upp úr.

Daimtoppar og vinningshafar í gjafaleik

Ég óska Kristínu, Helgu og Ingu Lind innilega til hamingju með vinningana og vona að þeir eigi eftir að auka á notalegheit desembermánaðar. Þið hafið fengið tölvupóst frá mér með upplýsingum um hvernig þið nálgist vinningana. Sjálf hlakka ég mikið til tónleikanna á sunnudaginn. Kannski að við sjáumst þar?

Daimtoppar og vinningshafar í gjafaleik

Úr jólatónlist í jólabakstur, nú styttist í aðra aðventu og smákökurnar lokka. Ég gaf uppskrift af súkkulaðimarenstoppum með frönsku núggati hér um daginn en geri enn betur í dag með þessum Daimtoppum. Þeir eru algjört sælgæti og ég átti engan möguleika á að halda þeim frá fjölskyldunni. Topparnir staldra því ekki lengi við en það er í fínu lagi því það er einfalt að útbúa þá. Ég mæli með að þið prófið!

Daimtoppar og vinningshafar í gjafaleik

Daimtoppar

 • 3 eggjahvítur
 • 200 g ljós púðursykur
 • 400 g Daimkúlur (4 pokar)

Stífþeytið eggjahvíturnar og hrærið púðursykrinum smátt og smátt saman við. Hrærið Daimkúlum varlega saman við.

Setjið litla toppa með teskeiðum á bökunarpappírsklædda plötu og bakið við 150°í ca 15 mínútur.

Daimtoppar og vinningshafar í gjafaleik

Súkkulaðimarenstoppar með frönsku núggati

Súkkulaðimarenstoppar með frönsku núggati

Mér þykir ótrúlegt að fyrsta aðventuhelgin sé runnin upp. Þegar hausta tekur byrja ég að hlakka til aðventunnar og það er hálf galið að þessi barnalega tilhlökkun skuli ekki eldast af mér. Desember hefur einfaldlega alltaf verið uppáhalds mánuðurinn minn því hann er svo skemmtilegur. Ég elska jólaundirbúninginn, hátíðleikann og hefðirnar og þar að auki eiga ég, strákarnir og tvær af mínum bestu vinkonum afmæli í desember. Ég hef því fulla ástæðu til að gleðjast yfir því að desembermánuður sé loksins að bresta á.

Súkkulaðimarenstoppar með frönsku núggati

Það kemur eflaust engum á óvart að ég mér þykja smákökur ómissandi á borðum yfir aðventuna. Þegar ég bakaði sörurnar um síðustu helgi átti ég nokkrar eggjahvítur afgangs sem mér þótti kjörið að nýta í marenstoppa. Ég hafði keypt súkkulaði með frönsku núggati, sem ég held að sé nýjung frá Nóa Síríus, og ákvað að prófa að grófhakka það og setja í toppana. Við smökkuðum á kökunum áður en þær voru settar í frystinn sem varð til þess að það hefur fækkað verulega í kökuboxinu í vikunni, þó að enginn vilji kannast við að hafa stolist í þær. Kökurnar eru jú bakaðar til að njóta þeirra og ég sé ekki eftir einni einustu ofan í nautnaseggina.

Súkkulaðimarenstoppar með frönsku núggati

Súkkulaðimarenstoppar með frönsku núggati

 • 3 eggjahvítur
 • 200 g ljós púðursykur
 • 300 g Síríus rjómasúkkulaði með frönsku núggati

Stífþeytið eggjahvíturnar og púðursykurinn. Grófhakkið súkkulaðið og hrærið varlega saman við.

Mótið litla toppa með teskeiðum á bökunarpappírsklædda plötu og bakið við 150°í ca 15 mínútur.

Súkkulaðimarenstoppar með frönsku núggati

Sörubakstur

Sörur

Mig langar til að byrja á að þakka ykkur fyrir allar fallegu kveðjurnar sem ég hef fengið vegna viðtalsins í kökublaði Vikunnar. Þær hlýja mér inn að hjartarótum og gleðja mig meira en orð fá lýst. Þúsund þakkir ♥

Sörur

Núna er síðasta helgi fyrir aðventu gengin í garð sem þýðir söru- og jólasnúðabaksturshelgi hjá mér. Ég vil alltaf vera búin að baka sörur og snúða til að eiga í frystinum þegar desember gengur í garð.  Ég ætlaði að flýta fyrir mér í gærkvöldi og gera sörubotnana en gat svo ekki látið þar við sitja og rétt eftir miðnætti kláraði ég að hjúpa síðustu kökurnar. Það var góð tilfinning að setjast niður með fyrstu söru ársins, vitandi af fullum boxum í frystinum og aðventunni handan við hornið.

Sörur

Ég held mig alltaf við sömu uppskriftina og birti hana hér fyrir jólin í fyrra. Leyfi henni að fylgja aftur núna.

Sörur (uppskriftin gefur 60-70 kökur)

 • 200 g möndlur
 • 180 g flórsykur
 • 3 eggjahvítur
 • salt á hnífsoddi

Sörur

Hitið ofninn í 180°. Malið möndlurnar fínt í matvinnsluvél og blandið flórsykrinum saman við. Stífþeytið eggjahvíturnar með saltinu þar til hægt er að hvolfa skálinni án þess að hvíturnar renni úr. Blandið möndlunum og flórsykrinum varlega saman við með sleikju. Setjið deigið í sprautupoka eða notið teskeiðar og setjið á bökunarpappír. Bakið í ca 12 mínútur.

Krem

 • 5-6 msk sýróp (velgt)
 • 6 eggjarauður
 • 300 g smjör
 • 2 msk kakó
 • 2 tsk kaffiduft (instant kaffi sem ég myl fínt í mortéli)

Velgjið sýrópið. Þeytið eggjarauðurnar þar til þær eru orðnar kremgular og þykkar. Hellið sýrópinu þá í mjórri bunu saman við og þeytið á meðan. Síðan er mjúku smjöri bætt í og þeytt á meðan. Bætið kakó og kaffi út í og hrærið vel saman. Látið kremið kólna í ísskáp í 1-2 klst. áður en það er sett á kökurnar.

Setjið kremið í sprautupoka og sprautið því á sörubotnana. Notið skeið til að slétta úr kreminu þannig að það þynnist við kanntana. Kælið kökurnar vel, helst í frysti, áður en þær eru hjúpaðar.

Sörur

Hjúpur

 • 400 g suðusúkkulaði

Skerið súkkulaðið í bita og bræðið yfir vatnsbaði. Látið kólna aðeins áður en kremhlutanum á sörunum er dýft ofan í.

New York Times súkkulaðibitakökur

New York Times súkkulaðibitakökur

Skrýtið hvernig lífið breytist alltaf á haustin. Það er eins og allt fari í gang með einum hvelli. Skólarnir og tómstundirnar byrja hjá krökkunum, saumaklúbbar vakna til lífs eftir sumarið og áður en maður veit af eru vikurnar uppbókaðar og næstum tvær vikur liðnar á milli bloggfærslna. Líf og fjör sem gerir haustið svo skemmtilegt.

New York Times súkkulaðibitakökur

Við fórum vel inn í haustrútínuna. Helgina áður en skólinn byrjaði gerði ég súkkulaðibitakökudeig sem við nutum góðs af á hverju kvöldi fyrstu skólavikuna. Uppskriftin af kökunum, sem ber það mikla nafn The New York Times Best Chocolate Chip Cookie Recipe, var fyrst birt í blaðinu sumarið 2008 og hefur síðan þá farið sem stormsveipur um internetið. Þessar kökur hafa orðstýr í bloggheimum um að vera ómótstæðilegar og ég get lofað að það er hverju orði sannara.

Bestu súkkulaðibitakökurnar

Uppskriftin er svakalega stór og þeir skynsömu myndu eflaust helminga hana. Ég gerði það þó ekki, enda hefur aldrei vottað fyrir skynsemi hjá mér þegar kemur að sætindum, heldur naut þess að eiga deigið í ískápnum og baka nokkrar kökur á hverju kvöldi í tæpa viku. Það var góð vika. Okkur hlakkaði öllum til að setjast niður á kvöldin með kalda mjólk og nýbakaðar kökurnar og það var ákveðin sorg sem fylgdi því þegar deigið á endanum kláraðist.

New York Times súkkulaðibitakökur

New York Times súkkulaðibitakökur

 • 2 bollar mínus 2 msk hveiti
 • 1 1/3 bolli brauðhveiti (ef þú átt það ekki notar þú venjulegt hveiti)
 • 1 1/4 tsk matarsódi
 • 1 1/2 tsk lyftiduft
 • 1 1/2 tsk gróft salt
 • 1 1/4 bolli ósaltað smjör
 • 1 1/4 bolli ljós púðursykur
 • 1 bolli plús 2 msk sykur
 • 2 egg
 • 2 tsk vanilludropar
 • 560 g dökkir súkkulaðibitar
 • sjávarsalt eða gróft salt til að strá yfir kökurnar

Aðferð:

 • Sigtið hveiti, matarsóda, lyftiduft og salt saman í skál og leggið til hliðar.
 • Setjið smjör og sykur í hrærivélaskál og hrærið saman i um 5 mínútur eða þar til blandan verður mjúk og kremkennd.
 • Hrærið eggjunum saman við, einu í einu, og hrærið vel á milli.
 • Bætið vanilludropum út í deigið.
 • Stillið hrærivélina á hægan hraða, bætið þurrefnunum í deigið og hrærið þar til hráefnin hafa blandast saman. Passið að ofhræra ekki deigið, það ætti að duga að hræra það í 5-10 sekúndur.
 • Bætið súkkulaðibitunum varlega í deigið.
 • Setjið deigið í plastfilmu og geymið í ískáp í 48 klst (eða að minnsta kosti 24 klst. Það má geyma það í allt að 72 klst. en ég geymdi það aðeins lengur).
 • Þegar það á að baka kökurnar er ofninn hitaður í 175°. Setjið bökunarpappír á bökunarplötu og mótið kúlur úr deiginu á stærð við golfkúlu. Setjið deigkúlurnar á bökunarplötuna (passið að hafa gott bil á milli því þær renna út) og stráið salti yfir.
 • Bakið kökurnar í 18-20 mínútur eða þar til þær eru gylltar á lit en mjúkar. Látið kökurnar kólna á grind í 10 mínútur.