Stundum velti ég því fyrir mér hvort það sé nokkuð notalegra en nýbakaðar kökur og köld mjólk á kvöldin. Þegar amstri dagsins er lokið og ró komin yfir, að setjast þá niður með krökkunum og spjalla um daginn og veginn á meðan mumsað er á nýbökuðu góðgæti.
Ég nýt þess svo að eiga þessar stundir og læt mér fátt um finnast hvaða vikudagur er. Það breytir engu. Þegar kvöldmaturinn hefur verið einfaldur þá er svo lítið mál að baka einn umgang af svona kökum, það tekur enga stund.
Þessar M&M kökulengjur hurfu á augabragði ofan í krakkana og ég hafði fullan skilning á því. Þær eru gjörsamlega ómótstæðilegar, hvort sem er með kaffinu eða köldu mjólkurglasi. Stökkar að utan, seigar að innan og stökkir M&M bitar þess á milli… dásemdin ein!
M&M kökulengjur (um 30 stykki)
- 125 g smjör við stofuhita
- 1 ½ dl sykur
- 1 ½ dl púðursykur
- 1 egg
- 1 msk vanillusykur
- ½ tsk matarsódi
- smá salt
- 3 dl hveiti
- um 1 dl M&M smartís
Hitið ofninn í 180°. Blandið saman smjöri, sykri, púðursykri, eggi, vanilusykri, matarsóda og salti. Bætið hveitinu saman við og hrærið snögglega saman í deig. Skiptið deiginu í tvennt (eða fernt fyrir minni lengjur), rúllið því út í lengjur og leggið á bökunarplötu klædda bökunarpappír (passið að hafa gott bil á milli því þær renna út). Þrýstið lengjunum aðeins út og dreifið M&M yfir þær. Bakið í 15-18 mínútur (styttið bökunartíman örlítið ef þið gerið fjórar lengjur). Skáskerið lengjurnar í sneiðar þegar þær koma úr ofninum (á meðan þær eru heitar) og látið síðan kólna.
Hræriru þetta í hrærivél ?
Já, ég hræri deigið í hrærivélinni. Tekur enga stund 🙂
>
Þetta er ekki hægt að nota, allt of mikill sykur í þessu kv. Ragnheiður