Þessi jól munu eflaust fara í sögubækur fjölskyldunnar sem þau notalegustu allra tíma. Við höfum ekki hreyft okkur! Jólaboðinu sem mamma er vön að vera með á jóladag var frestað sökum veikinda sem varð til þess að við fórum aldrei á fætur í gær. Ég las í gegnum þrjár matreiðslubækur, velti áramótamatseðlinum fyrir mér, horfði á sjónvarpið og borðaði sætindi allan daginn. Hversu notalegt! Ég ætla að halda áfram á sömu nótum í dag. Það þarf að gera pláss í ísskápnum fyrir áramótamatinn og eina leiðin til að gera það er að borða það sem í honum er.
Ég prófaði tvær nýjar smákökuuppskriftir fyrir þessi jól, flórentínur og súkklaðibitakökur, og báðar reyndust æðislegar. Malín og Gunnar hafa staðið á beit í Flórentínunum og súkkulaðibitakökurnar endaði ég á að fela í frystinum því þær hurfu allt of hratt. Báðar uppskriftirnar fann ég á blogginu Eldað í vesturbænum, æðislegt blogg sem því miður hefur legið í dvala undanfarin ár. Ég held enn í vonina að það lifni aftur við. Hér kemur uppskriftin af Flórentínunum, tekin beint af Eldað í vesturbænum.
Flórentínur
(Uppskrift frá The Gourmet Cookie Book)
- 125 ml rjómi
- 120 g sykur
- 45 g smjör
- 150 g möndlur, fínsaxaðar
- Börkur af hálfri appelsínu, rifinn eða fínsaxaður
- 50 g hveiti
Aðferð:
Setjið rjóma, sykur og smjör saman í pott og náið upp suðu, passið að hræra reglulega því annars brennur sykurinn við botninn eða blandan sýður upp úr pottinum. Sjóðið þangað til að blandan verður þykk og karamellubrún á litinn. Slökkvið undir pottinum og hrærið möndlum, appelsínuberki og hveiti saman við.
Takið fram ofnplötu og bökunarpappír og setjið eina matskeið í einu af deiginu á plötuna með 6 cm millibili. Fletjið dropana með sleikju (ágætt að bleyta hana aðeins fyrst svo hún límist ekki við dropana).
Bakið kökurnar við 180°C í 8 – 10 mínútur. Leyfið þeim að kólna í ca. 5 mínútur áður en þær eru færðar á grind. Leyfið þeim að kólna alveg og smyrjið þær síðan með bráðnu súkkulaði.
Geymið í ísskáp.
Ein athugasemd á “Flórentínur”