Flórentínur

FlórentínurÞessi jól munu eflaust fara í sögubækur fjölskyldunnar sem þau notalegustu allra tíma. Við höfum ekki hreyft okkur! Jólaboðinu sem mamma er vön að vera með á jóladag var frestað sökum veikinda sem varð til þess að við fórum aldrei á fætur í gær. Ég las í gegnum þrjár matreiðslubækur, velti áramótamatseðlinum fyrir mér, horfði á sjónvarpið og borðaði sætindi allan daginn. Hversu notalegt! Ég ætla að halda áfram á sömu nótum í dag. Það þarf að gera pláss í ísskápnum fyrir áramótamatinn og eina leiðin til að gera það er að borða það sem í honum er.

FlórentínurFlórentínur

Ég prófaði tvær nýjar smákökuuppskriftir fyrir þessi jól, flórentínur og súkklaðibitakökur, og báðar reyndust æðislegar. Malín og Gunnar hafa staðið á beit í Flórentínunum og súkkulaðibitakökurnar endaði ég á að fela í frystinum því þær hurfu allt of hratt. Báðar uppskriftirnar fann ég á blogginu Eldað í vesturbænum, æðislegt blogg sem því miður hefur legið í dvala undanfarin ár. Ég held enn í vonina að það lifni aftur við. Hér kemur uppskriftin af Flórentínunum, tekin beint af Eldað í vesturbænum.

Flórentínur

Flórentínur

(Uppskrift frá The Gourmet Cookie Book)

 • 125 ml rjómi
 • 120 g sykur
 • 45 g smjör
 • 150 g möndlur, fínsaxaðar
 • Börkur af hálfri appelsínu, rifinn eða fínsaxaður
 • 50 g hveiti

Aðferð:

Setjið rjóma, sykur og smjör saman í pott og náið upp suðu, passið að hræra reglulega því annars brennur sykurinn við botninn eða blandan sýður upp úr pottinum. Sjóðið þangað til að blandan verður þykk og karamellubrún á litinn. Slökkvið undir pottinum og hrærið möndlum, appelsínuberki og hveiti saman við.

Takið fram ofnplötu og bökunarpappír og setjið eina matskeið í einu af deiginu á plötuna með 6 cm millibili. Fletjið dropana með sleikju (ágætt að bleyta hana aðeins fyrst svo hún límist ekki við dropana).

Bakið kökurnar við 180°C í 8 – 10 mínútur. Leyfið þeim að kólna í ca. 5 mínútur áður en þær eru færðar á grind. Leyfið þeim að kólna alveg og smyrjið þær síðan með bráðnu súkkulaði.

Geymið í ísskáp.

Hnetusmjörs- og Nutella kökur

Ég sá uppskriftina að þessum hnetusmjörs- og Nutellakökum á The Sisters Cafe um daginn og hef hugsað um þær dag og nótt síðan. Ég vissi að ég yrði ekki róleg fyrr en ég væri búin að prófa uppskriftina og ákvað því að baka þær í gærkvöldi og hafa með kvöldkaffinu.

Ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvað okkur þóttu þessar kökur góðar, nýbakaðar með kaldri mjólk. Þær eru stökkar að utan, seigar að innan og fullkomnar í alla staði. Ég gat ekki hætt að borða þær og var allt kvöldið að ná mér í eina í viðbót.

Hnetusmjörs- og Nutella kökur

 • 225 gr smjör við stofuhita
 • 2/3 bolli hnetusmjör (ég notaði crunchy Peter Pan hnetusmjör)
 • 1 bolli sykur
 • 1 bolli púðursykur
 • 2 egg
 • 2 tsk vanillusykur
 • 2 og 2/3 bolli hveiti
 • 2 tsk matarsódi
 • 1 tsk salt
 • rúmlega 1/3 bolli Nutella

Hrærið saman smjör, hnetusmjör, sykur, púðursykur, egg og vanillusykur þar til blandan verður mjúk og kekkjalaus. Bætið hveiti, matarsóda og salti saman við og blandið vel. Setjið Nutella í klessum yfir deigið og dreifið því um með smjörhníf. Passið að Nutellað á ekki að blandast saman við deigið heldur að vera víðs vegar í deiginu. Kælið deigið í ískáp í 15 mínútur til að herða Nutellað.

Hitið ofninn í 180° og leggið smjörpappír á ofnplötu. Gerið kúlur úr deiginu og leggið á ofnplötuna. Þrýstið létt ofan á kúlurnar þannig að þær fletjist aðeins út. Bakið í miðjum ofni í 8-10 mínútur eða þar til þær fá fallegan lit og byrja að brúnast á könntunum.