Á föstudagskvöldinu vorum við með eitt af því besta sem ég veit og minn uppáhalds föstudagsmat, osta og skinkur. Fyrir utan hvað mér þykir það gott þá er ekki hægt að vera með einfaldari mat en að raða góðgæti á bakka og taka tappa úr góðri rauðvínsflösku. Engin eldamennska og nánast ekkert uppvask. Síðan veit ég fátt skemmtilegra en að sitja lengi yfir matnum og það gerist alltaf þegar það er plokkmatur. Þá sitjum við yfir matnum þar til við förum að sofa. Malín gerir oft grín af því að við sitjum hátt í heilan vinnudag yfir ostum og rauðvíni en það er bara svo notalegt og gaman.
Við héldum að við yrðum bara tvö í mat en eftir því sem leið á daginn fjölgaði við matarborðið og á endanum voru allir í mat. Svo gaman! Krakkarnir borða öll osta en kannski ekki sem kvöldmat eins og ég geri. Ég keypti því kokteilpulsur sem ég bætti á borðið, setti jólaplaylista á spotify og gerði pestójólatré upp á stemninguna. Það reyndist vinsælast af öllu!
Pestójólatréið er bæði fallegt á borði og gaman að bera fram. Gestirnir brjóta greinar af tréinu sem verða þá nokkurs konar brauðstangir. Sniðugt að bera fram með ostum eða með fordrykk, þá þarf bara að hafa servéttur með. Einfalt, jólalegt og æðislegt!
Pestójólatré
2 rúllur ferskt smjördeig
1 lítil krukka pestó
1 upphrært egg
maldonsalt
Rúllið annari smjördeigsrúllunni út á ofnplötu. Smyrjið pestó yfir og leggið hina smjördeigsrúlluna yfir. Þrýstið saman þannig að ekkert loft sé á milli. Skerið út jólatré og skerið síðan lengjur upp jólatréið sem er síðan snúið til að mynda greinar. Penslið jólatréið með upphrærðu eggi og stráið maldonsalti yfir. Bakið við 200° á blæstri í um 10-12 mínútur eða þar til jólatréið er orðið loftkennt og hefur fengið fallegan lit. Berið strax fram. Gestirnir brjóta greinar af tréinu og borða eins og stangir.
Sæl
Girnilegt 🤩
Þar sem ég bý út á landi er stundum erfitt að fá sumt hráefni 😟
Hvar færðu ferst smjördeigsrúllu ?
Með kveðju
Ég fékk hana í Hagkaup í Garðabæ en hef séð þær í fleiri verslunum. Þetta er frá sama merki og pizzabotnarnir sem eru seldir upprúllaðir (man ómöglega hvaða merki þetta er).
>
Sæl Svava!
Ert þú að nota grænt pestó?
Já, ég var með grænt pestó 🙂
>
Þú ert nú meiri snillingurinn. Mikið er þetta smart á borði 🙂
Ég er búin að bera þetta fram fyrir gesti tvisvar núna í desember og vekur þvílíka lukku 🙂 bæði svakalega gott og ferlega smart og jólalegt á borði.
Hæ hæ
Væri til í mynd af pestóinu 👏