Í lok október las ég um verkefni sem foreldri í Green School á Balí setti í gang fyrir nokkrum árum, The SHIFT. Verkefnið snýst um að gera eitthvað ákveðið á hverjum degi í heilan mánuð. Þetta á hvorki að vera risavaxin né stór áskorun, heldur litlir hlutir sem auðvelt er að framkvæma. Með þessu er til dæmis auðvelt að komast yfir leiðinleg verkefni sem hafa setið á hakanum, eins og að fara yfir myndirnar í tölvunni (sem er stöðugt á verkefnalistanum mínum). Það er þá hægt að ákveða að eyða 10 mínútum á dag í heilan mánuð í að fara yfir myndirnar og klára verkið þannig. Það er líka hægt að láta verkefnið snúast um að gera eitthvað skemmtilegt á hverjum degi í einn mánuð, eins og að horfa á þátt á Netflix á hverju kvöldi eða að láta eftir sér góðan súkkulaðimola með kaffinu á hverjum degi.
Mér fannst þetta sniðug hugmynd og ákvað að prófa The SHIFT í nóvember. Ég valdi að hætta að skoða Instagram og Snapchat upp í rúmi á kvöldin og gefa mér í staðin meiri tíma til að lesa. Í kvöld er síðasta kvöldið en ég ætla þó að halda þessari rútínu, því mér hefur þótt æðislegt að slökkva á símanum áður en ég skríð upp í rúm með bókina mína á kvöldin. Ég er vön að lesa fyrir svefninn en síminn var farinn að taka tíma frá bókunum. Þetta var því góð leið til að venja mig af því að láta Instagram svæfa mig. Ég byrja ennþá dagana á að renna yfir flæðin í símanum áður en ég fer á fætur og hef engin plön um að hætta því. Mér þykir notalegt að vakna rólega að ég gef mér alltaf korter á morgnana í rúminu til að vakna á meðan ég renni yfir miðlana og helstu fréttir.
Á morgun hefst nýr mánuður og því er upplagt að finna sér verkefni sem gerir hvern einasta dag í desembermánuði örlítið betri. Ég mæli með að prófa þetta, það er engu að tapa!
Það styttist enn og aftur í helgina og því ekki seinna vænna en að fara að huga að föstudagsmatnum. Við höfum verið að prófa mismunandi álegg á pizzur upp á síðkastið sem hefur verið skemmtileg tilbreyting frá hefðbundu pizzunum (það er svo létt að festast í því sama). Ég hef sett inn tvær útfærslur af pizzum sem við höfum gert, eðlupizzuna og döðlupizzuna, og ætla núna að bæta þeirri þriðju í safnið. Þessi þótti okkur alveg æðisleg! Matarmikil og súpergóð!!
Chilihakkpizza
- 500 g nautahakk
- 1 laukur, skorinn í þunna hálfmána
- 1 dós Hunt´s for chili (eða annað sambærilegt)
- 1 rúlla tilbúið pizzadeig (eða annað pizzadeig)
- pizzasósa
- rifinn ostur
Hitið olíu á pönnu og steikið nautahakk vel. Bætið lauk á pönnuna og látið mýkjast. Hellið Hunt´s for chili yfir og látið sjóða saman í nokkrar mínútur.
Rúllið pizzabotninum út (eða fletjið út annað pizzadeig) og fletjið hann út svo hann fylli út í ofnskúffu. Setjið pizzasósu yfir, síðan hakkblönduna og að lokum ost yfir. Bakið í funheitum ofni þar til botninn er stökkur og osturinn bráðnaður. Stráið fínhökkuðum rauðlauki og fersku kóriander eða steinselju yfir áður en pizzan er borin fram.
Ein athugasemd á “Chilihakkpizza”