Á morgun er loksins föstudagur og það passar alltaf jafn vel að fagna helgunum með pizzu. Eðlupizzan sem ég setti hingað inn um daginn var mjög vinsæl en núna ætla ég að stinga upp á föstudagspizzu sem er ekki síðri. Það var vinnufélagi minn sem benti mér á að setja döðlur á pizzuna og eftir að ég prófaði það er varla aftur snúið. Svo klikkaðslega gott!!
Ef maður er þreyttur eftir vikuna eða í tímaþröng þá er upplagt að kaupa tilbúið pizzadeig, þó að heimagert pizzzadeig er alltaf best. Stundum gefst bara ekki tími og stundum nennir maður einfaldlega ekki að standa í stússi og vill bara fá pizzuna sem fyrst á borðið!
Döðlupizza
- tilbúinn pizzabotn eða heimagerður (hér er mín uppáhalds uppskrift) eða tortillapizzabotn
- pizzasósa
- rifinn ostur
- pepperóní
- sveppir
- rauðlaukur
- rjómaostur
- döðlur
Fletjið pizzabotninn út, setjið pizzasósu yfir hann og rifinn ost. Raðið pepperóní, sneiddum sveppum, rauðlauki og niðurskornum döðlum yfir. Setjið klípur af rjómaosti yfir pizzuna og smá rifinn ost yfir allt. Setjið inn í funheitan ofn þar til osturinn er bráðnaður.
Ein athugasemd á “Föstudagspizza með döðlum”