Ég held að ég hafi aldrei verið eins sein í jólabakstrinum og þetta árið. Ég bakaði piparlakkrístoppana í nóvember sem kláruðust samstundis og síðan hefur tíminn bara flogið. Ég sem vil alltaf eiga sörur og saffransnúða í frystinum áður en aðventan byrjar klikkaði algjörlega þetta árið.
Þó ég hafi ekki staðið mig í smákökubakstrinum hef ég þó bakað ýmislegt annað. Þessar nutellafylltu blondies bauð ég upp á hér heima eitt kvöldið og daginn eftir kláruðum við þær. Okkur þóttu þær dásamlega góðar og ekki síðri daginn eftir.
Nutellafylltar blondies (uppskrift frá Ambitious Kitchen)
- 1 bolli smjör
- 2 bollar púðursykur
- 2 egg
- 1 msk vanilludropar
- 2 bollar hveiti
- 1 ½ tsk lyftiduft
- ¼ tsk salt
- 2 bollar dökkt súkkulaði, grófhakkað (ég notaði suðusúkkulaðidropana frá Síríus)
- 1 bolli Nutella (16 msk)
- sjávarsalt til að strá yfir
Hitið ofn í 175° og klæðið skúffukökuform (í sirka stærðinni 23 x 33 cm, má líka vera aðeins minna) með smjörpappir.
Bræðið smjör í potti yfir miðlungsháum hita. Þegar smjörið byrjar að freyða er byrjað að hræra í pottinum. Eftir nokkrar mínútur byrjar smjörið að brúnast í botninum á pottinum, haldið þá áfram að hræra og takið af hitanum um leið og smjörið er komið með gylltan lit og farið að gefa frá sér hnetulykt. Takið smjörið strax úr pottinum og setjið í skál til að koma í veg fyrir að það haldi áfram að brúnast. Látið smjörið kólna áður en lengra er haldið.
Hrærið saman smjör og sykur þar til hefur blandast vel. Bætið eggjum og vanilludropum saman við og hrærið þar til blandan er mjúk og létt. Bætið þurrefnunum varlega saman við og endið á að hræra varlega súkkulaðinu saman við deigið.
Skiptið deiginu í tvennt. Setjið helminginn í botninn á kökuforminu (deigið kann að virðast of lítið til að fylla út í formið en hafið ekki áhyggjur af því þótt það verði bara þunnt lag, það á eftir að hækka!). Setjið Nutella jafnt yfir (það getur verið gott að setja matskeiðar af Nutella með jöfnu millibili yfir deigið og dreifa svo úr því með sleif eða hníf). Endið á að setja seinni helminginn af deiginu yfir og passið að það hylji alveg Nutellafyllinguna. Bakið í 23-27 mínútur eða þar til kanntarnir á kökunni eru orðnir gylltir á lit. Það er betra að baka hana aðeins styttra en lengur, svo hún verði frekar blaut í sér en ekki þurr. Stráið sjávarsalti yfir kökuna þegar hún kemur úr ofninum og látið hana síðan standa í 20 mínútur áður en hún er skorin í bita.