Í vikunni birtist viðtal við mig í fylgiriti Viðskitpablaðsins, Eftir vinnu. Þegar ljósmyndin fyrir viðtalið var tekin lá ég í flensu og hálftíma áður en ljósmyndarinn kom lá ég í náttfötunum í sófanum og dauðsá eftir að hafa ekki afbókað hann. Sem svo oft áður kom Malín mér til bjargar, hún er SNILLINGUR í að farða og það er mikill lúxus að hafa eina slíka á heimilinu. Ég sat í náttfötunum, hálf sofandi, á meðan hún græjaði mig. Fimm mínútum áður en ljósmyndarinn kom hoppaði ég í föt (hélt reyndar að um andlitsmynd væri að ræða og var því lítið að velta því fyrir mér í hvað ég færi) og málið var leyst.
Ástæðan fyrir því að ég segi frá þessu er að ég hef fengið svo mörg hrós fyrir hvað ég er fínt máluð á myndinni og ég verð að segja að Malínu tókst vel að fela hvað ég var slöpp og kvefuð í augunum. Malín er á fullu fyrir öll skólaböll að farða vinkonur og kunningja og þegar eitthvað stendur til hjá þeim hafa þær iðulega samband og biðja hana að farða sig. Einnig farðar hún mig og ömmur sínar þegar okkur dettur í hug að lyfta okkur upp. Hún á hrós skilið fyrir dugnaðinn!
Annars að aðalatriðinu, matseði fyrir komandi viku. Ég vona að ykkur líki hann!
Vikumatseðill
Mánudagur: Ítalskur lax með fetaostasósu
Þriðjudagur: Ljúffengur kjöthleifur á pönnu
Miðvikudagur: Rjómalöguð kjúklingasúpa
Fimmtudagur: Pylsugratín með kartöflumús
Föstudagur: Grískur ofnréttur
Með helgarkaffinu: Kókoskúlur