Mér þykir eitthvað notalegt við kjöthleif með kartöflum og sósu en á erfitt með að setja fingurinn á hvað það er. Krakkarnir fagna alltaf þegar þau sjá að það er kjöthleifur í matinn og við Öggi erum ekki minna hrifin.
Þessi kjöthleifur er einfaldur heimilismatur sem er svo góður að það ætti að bjóða upp á hann í matarboðum. Þá væri hægt að breyta til og bera hann fram með kartöflumús. Eða jafnvel ofnbökuðum kartöflubátum og góðu fersku salati. Við gerðum okkur þó soðnar kartöflur og hrásalat að góðu og áttum ekki í neinum vandræðum með það. Stórgott.
Kjöthleifur á pönnu
- 700 g blandað hakk (nautahakk og svínahakk)
- 1 fínhakkaður laukur
- 1 pressað hvítlauksrif
- 1 msk kalvfond
- 1 egg
- 1 tsk salt
- pipar
Sósan:
- 1-2 msk balsamik sýróp
- 3 dl vatn
- 3 dl rjómi
- 1 msk sojasósa
- 2 msk kalvfond
- ca 100-200 g rjómaostur
- salt og pipar
- 1 dós sveppir
Hrærið öllum hráefnunum í kjöthleifinn saman. Hitið pönnu í miðlungshita og bræðið smjör á henni. Setjið kjötblönduna á pönnuna og fletjið hana út í flata köku. Steikið við miðlunghita, notið disk til að snúa kjöthleifnum og steikið á hinni hliðinni. Skerið hann í sneiðar (eins og köku) til að sjá hvort kjöthleifurinn er steiktur í gegn.
Blandið saman vatni, rjóma, kalvfond og balsamiksýrópi og hellið yfir kjöthleifinn. Látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Takið nokkrar sneiðar af kjöthleifnum frá og hrærið rjómaostinum saman við sósuna. Bætið sveppunum út í og látið sjóða í nokkrar mínútur til viðbótar. Setjið kjöthleifssneiðarnar aftur á pönnuna og berið fram beint af pönnunni með kartöflum og salati.
Hvað er kalvfond ? 😉
Kálfakraftur.
nei nú fórstu alveg með það, sveppir í dós, er það ekki voða mikið 1985 eithvað?? hahhaha 🙂 , er ekki best að nota ferskt grænmeti en ekki uppúr dós?
Hahaha… jú, það er eflaust rétt hjá þér 🙂 Ég á bara alltaf svo erfitt með að henda mat og þessi sveppadós var byrjuð að fara í taugarnar á mér í skápnum. Það var því einfaldast að nota hana og mér fannst það bara koma vel út 🙂
Ég bauð uppá þennan rétt á föstudegi, öllum til mikillar undrunar, en hann sló heldur betur í gegn 🙂 Enda með eindæmum ljúffengur! 🙂