Mér skilst að nýjasta trendið sé hið svokallaða LKL-mataræði, eða lág kolvetna lífsstíllinn, og full af vilja til að hanga með ákvað ég að prófa. Ég keypti mér sænska bók (íslenska bókin var ekki komin út) sem ég las spjaldanna á milli og þóttist heldur betur til í slaginn. Þeir sem þekkja mig fengu stjórnlaust hláturskast þegar ég sagði þeim frá þessum plönum mínum og þau máttu líka hlægja. Ég entist í tvo og hálfan dag, sem mörgum þótti bara nokkuð gott. Ég fékk staðfest það sem mig hefur lengi grunað, að ég er kolvetna- og sykuróð. Mér þykja bara vera svo mikil lífsgæði að borða góðan mat. Í þessa rúmu tvo daga var ég í alvöru sorgmædd yfir því að geta ekki fengið mér kökusneið með kvöldkaffinu og ég gat ekki hugsað þá hugsun til enda að sleppa því að fá mér nýbakað brauð um helgar. Mér fannst ég þurfa að kveðja svo margar gæðastundir með því að segja skilið við þessi góðgæti. Svo ég gafst upp, á mettíma.
Ég fylgdi matarræðinu sem sagt í tvo daga og annað þessara kvölda útbjó ég blómkálshrísgrjón sem meðlæti með kvöldmatnum. Þau voru glettilega góð og þó ég fylgi ekki mataræðinu þá mun ég eflaust bjóða aftur upp á þau því krökkunum þóttu þau æðisleg. Og holl eru þau, því verður ekki neitað.
Blómkálshrísgrjón
- 1 blómkálshaus
- smá salt
Rífið blómkálið niður á grófasta hluta rifjárnsins. Sjóðið vatn og saltið. Setjið blómkálið í sjóðandi vatnið og látið sjóða í 5 mínútur.
Hahaha, en hvað ég skil þig vel! Ég gæti aldrei verið á svona mataræði til lengri tíma, kolvetni geta verið svo dásamlega góð 🙂
Haha oh Svava thú ert alveg met💕 thetta ætla ég ad prufa sem fyrst..
skemmtileg „grjón“ hafði þau með bangkok kjúllanum )