Ég þarf ekki að huga að neinum helgarmat þessa helgina þar sem ég fer út að borða og í bíó á föstudagskvöldinu, út að borða og á tónleika á laugardagskvöldinu og í saumaklúbb á sunnudagskvöldinu! Það eru ekki allar helgar svona vel bókaðar hjá mér, eins heimakær og ég nú er. Ég er þó með góða tillögu að helgarmat fyrir þá sem eru farnir að huga að helgarmatnum, hægeldaður svínahnakki í rjómasósu með kartöflum (brúnaðar er enn betra!), salati og rifsberjahlaupi. Ótrúlega einfalt og tekur örskamma stund að útbúa en þarf síðan að vera allan daginn í ofninum, þannig að þegar kjötið er tilbúið dettur það nánast í sundur. Þetta var helgarmaturinn okkar um síðustu helgi og þar sem strákarnir voru í afmæli á laugardagskvöldinu nýtti ég tækifærið og eldaði góðan skammt þá sem við gátum notið bæði laugardags- og sunnudagskvöld. Ég setti kjötið í ofninn strax um morguninn og um kvöldið var ekkert að gera nema að sjóða kartöflur og útbúa sósu úr soðinu. Einfalt og stórgott!
Pulled pork í rjómasósu (uppskrift frá Bakverk och fikastunder)
- 1 kg. svínahnakki í sneiðum
- salt, svartur pipar, hvítur pipar og aromat
- 2 nautakjötsteningar
- 3 dl vatn
Kryddið svínahnakkasniðarnar og steikið síðan upp úr smjöri við háan hita þannig að kjötið fái fallega steikarhúð á öllum hliðum. Leggið í eldfast mót (bætið jafnvel smá meira af kryddi á). Hellið vatninu yfir pönnuna og bætið nautakjötsteningunum í. Látið suðuna koma upp og teningana leysast upp. Hellið vatninu af pönnunni yfir kjötið og setjið álpappír yfir formið (ef þið eigið ofnpott þá er upplagt að nota hann). Setjið í 130° heitan ofn í 8-10 klst.
Rjómasósa
- krafturinn frá kjötinu (sem verður á botninum á mótinu eftir eldunina)
- 2,5 dl rjómi
- ca 1 tsk. rifsberjahlaup
- smá sykur
- maizena til að þykkja sósuna
Setjið kjötkraftinn í pott og hrærið rjóma saman við. Látið sjóða saman í smá stund og smakkið til með rifsberjahlaupi og smá sykri (jafnvel smá hvítur pipar). Þykkið sósuna með Maizena mjöli.