Svínalund í æðislegri rjómasósu

Ég hef lítið dundað mér í eldhúsinu upp á síðkastið enda hafa krakkarnir verið út og suður og fáir heima í mat. Um helgina náðist þó hópurinn saman og á föstudagskvöldinu prófaði ég uppskrift af frábærum föstudagsmat (uppskriftin kemur!) og í gærkvöldi vorum við með svínalundir í svo æðislegri sósu að við gátum ekki hætt að dýfa meðlætinu í hana eftir að við  vorum búin að borða. Svo brjálæðislega gott!

Svínalund í rjómasósu (uppskrift fyrir 5-6)

 • 2 svínalundir (ég gleymdi að athuga þyngdina en þær voru í meðalstærð)
 • salt og pipar

Sósa:

 • 5 dl rjómi
 • 2 msk kálfakraftur
 • 2 msk dijon sinnep
 • 2 tsk salvía (þurrkuð)
 • 1 tsk hunang
 • nokkrir dropar af sítrónusafa
 • salt og pipar

Skerið svínalundirnar í um 2,5 cm þykkar sneiðar og kryddið með salti og pipar. Bræðið smjör og olíu saman á pönnu og steikið kjötið þar til það hefur fengið steikingarhúð á báðum hliðum. Takið kjötið af pönnunni og leggið til hliðar. Setjið öll hráefnin fyrir sósuna á pönnuna (ekki þrífa hana eftir kjötið!) og látið sjóða saman í nokkrar mínútur. Leggið kjötið í sósuna og látið sjóða við vægan hita í 5 mínútur.

Svínalund í rjómalagaðri balsamiksósu

Þá er einn skemmtilegasti mánuður ársins runninn upp. Ég hef alltaf verið svo mikið jólabarn og elska þennan árstíma. Jólahlaðborð, jólatónleikar, jólasaumaklúbbar og hittingar með vinahópum. Síðan eigum við strákarnir öll afmæli í desember. Það er því sjaldan dauð stund.

Í ár er ég óvenju sein í jólabakstrinum. Malín hefur bakað nokkrar sortir en þær hafa allar klárast jafn óðum. Hún fyllti þó frystinn af jólasnúðunum sem okkur þykja ómissandi á aðventunni og bakaði sörur, en þær kláruðust áður en aðventan rann upp og það þarf því að baka annan umgang sem fyrst. Þær verða að vera til með kaffinu yfir aðventuna.

Ég nýtti tækifærið í gær og eldaði góðan mat í tilefni af fyrstu aðventunni, svínalund í sósu sem er svo góð að það er nánast hægt að borða hana sem súpu. Við erum hrifin af kartöflumús með en hrísgrjón og salat passar auðvitað líka vel. Aðalmálið er að ná sem mestri sósu með hverjum bita!

Svínalund í rjómalagaðri balsamiksósu (uppskrift fyrir 4-5)

 • um 900 g svínalund
 • smjör
 • salt og pipar

Sósa

 • 2 dl vatn
 • 5 dl rjómi
 • 1-1½ msk sojasósa
 • 2-3 msk fljótandi nautakraftur frá Oscar
 • 200 g Philadelphia rjómaostur (1 askja)
 • ½-1 msk balsamik gljái
 • salt og pipar

Hreinsið svínalundina og skerið í sneiðar. Bræðið smjör á pönnu og brúnið kjötið. Takið kjötið af pönnunni og leggið á disk á meðan sósan er útbúin (ekki þvo pönnuna!).

Setjið vatn á pönnuna og látið sjóða upp með steikingarsmjörinu. Látið soðið renna í gegnum sigti ef þörf er á en setjið það síðan aftur á pönnuna. Hrærið rjóma, sojasósu og nautakrafti saman við og látið suðuna koma upp. Bætið Philadelphia rjómaosti út í og látið sjóða saman í slétta sósu. Hrærið reglulega í pönnunni. Smakkið til með balsamik gljáa, salti og pipar. Bætið  kjötinu í sósuna og látið sjóða saman þar til kjötið er fulleldað.

*Færslan er unnin í samstarfi við Innnes

Carnitas

Þegar við flugum til Balí millilentum við í Stokkhólmi þar sem ég byrgði mig upp af tímaritum og sælgæti fyrir 13 tíma flugið sem beið okkar yfir til Singapore. Í einu tímaritanna, Family Living, leyndust nokkrar mexíkóskar uppskriftir sem mér leist vel á og reif úr blaðinu.

Í gærkvöldi prófaði ég fyrstu uppskriftina og þeir sem fylgja mér á Instagram gátu séð myndir af herlegheitunum í Instastory. Eldamennskan var svo einföld að ég nýtti tækifærið og eldaði kjúklingasúpu í leiðinni til að eiga í kvöld. Gunnar var að keppa yfir kvöldmatartímann, í grenjandi rigningu, og það var dásamlegt að koma heim eftir leikinn og þurfa bara að hita súpuna upp.

Ég held að það sé sama hvaða mexíkóska rétt ég býð upp á hér heima, þeir slá alltaf í gegn. Þessi réttur var engin undantekning. Ég bar kjötið bæði fram með litlum tortillakökum og stökkum skeljum og í meðlæti var ég með kál, papriku, rauðlauk, gúrku, avokadó, salsa, sýrðan rjóma og svart Doritos. Súpergott!

Carnitas (uppskrift fyrir 5)

 • 1 kg beinlaus grísahnakki
 • 1 ½ gulur laukur
 • 4 hvítlauksrif
 • 1 rautt chillí
 • 2 tsk salt
 • smá pipar úr kvörn
 • safi úr einni appelsínu
 • 175 ml bbq-sósa
 • 3/4 líter Coca-Cola
 • 1/2 líter vatn (ég setti bara 1/4 líter)

Skerið kjötið í 2 cm bita. Afhýðið lauk og hvítlauk og skerið gróft niður. Fjarlægið fræin (ef þið viljið ekki hafa réttinn sterkann, látið þau annars vera með) og fínhakkið chillíið. Setjið öll hráefnin í pott (þykkbotna ef hann er til) og látið sjóða við vægan hita í 3-4 klst. Hrærið annað slagið í pottinum. Undir lokin ætti allur vökvi að vera orðinn þykkur á kjötinu. Rífið kjötið niður með tveim göfflum og berið fram.

 

SaveSave

SaveSave

Snitsel

 

Snitsel

Það hefur verið flensa á heimilinu í viku og það virðist ekker fararsnið á henni. Jakob kom veikur heim úr skólanum síðastliðinn fimmtudag og steinlá fram á sunnudag en þá tók Gunnar við og hefur legið síðan þá. Við erum alveg búin að fá nóg af þessu ófremdarástandi og óskum þess heitt að flensan fari að láta sig hverfa.

Snitsel

Ég fékk óstjórnlega löngun í snitsel um daginn sem endaði auðvitað með að það var snitsel í kvöldmatinn skömmu síðar. Mér þykir allur matur í raspi góður en elda þannig mat þó furðu sjaldan. Ég bar snitselinn fram með kartöflumús, piparsósu og rifsberjahlaupi. Súpergott!!

Snitsel

Snitsel

 • 8 úrbeinaðar grísakótilettur
 • 2 dl hveiti
 • 2 egg
 • 2 dl brauðrasp eða Panko
 • salt og pipar
 • olía (ekki ólífuolía)

Byrjið á að berja kótiletturnar með flötu hliðinni á buffhamri til að ná þeim þunnum. Kryddið báðar hliðar síðan með pipar og salti.

Setjið hveiti í eina skál, hrærð egg í aðra skál og brauðrasp í þriðju skálina. Veltið kótilettunum fyrst upp úr hveitinu, síðan egginu og að lokum brauðraspinum.

Hitið vel af olíu á pönnu, þannig að það sé um 1 cm lag yfir pönnunni. Steikið snitselinn í um 2-3 mínútur á hvorri hlið. Takið snitselinn af pönnunni og yfir á disk klæddan eldhúspappír. Berið strax fram með kartöflumús og sósu.

Ofnbökuð svínalund með rótargrænmeti – allt í einni skúffu!

Ofnbökuð svínalund með rótargrænmeti - allt í einni skúffu!

Ég hef undanfarna daga verið löt í eldhúsinu. Hef lítið nennt að hafa fyrir kvöldmatnum og viljað hafa hann eins einfaldan og hægt er. Það geta komið svona dagar, en núna finn ég hins vegar að þetta tímabil er yfirstaðið og núna vantar mig fleiri máltíðir í daginn til að komast yfir að elda allt sem mig langar að prófa.

Ofnbökuð svínalund með rótargrænmeti - allt í einni skúffu!

Í letikastinu eldaði ég þennan ofureinfalda rétt þar sem allt fór í einni ofnskúffu inn í ofn. Það er eitthvað við svona rétti þar sem allt fer í eina skúffu og verður tilbúið á sama tíma. Kjötið verður svo mjúkt og rótargrænmetið fær gott bragð af kjötmarineringunni. Meðlætið þarf ekki að vera flókið. Ég var meira að segja svo löt að ég opnaði bara kalda hvítlaukssósu og hrópaði gjörið svo vel! Ekkert frekara meðlæti þurfti en vissulega væri smart að bera salat fram með réttinum og góða heita sósu. Eða tzatziki og grískt salat. En á letidögum þarf ekkert slíkt og hér voru allir kampakátir með einfaldleikann.

Ofnbökuð svínalund með rótargrænmeti – allt í einni skúffu!

 • 1 svínalund
 • 1/2 dl ólivuolía
 • 2 msk sítrónusafi
 • 1 hvítlauksrif
 • 1 tsk timjan
 • maldonsalt
 • svartur pipar úr kvörn
 • rótargrænmeti (ég var með kartöflur og sætar kartöflur)

Marinerið svínalundina í ólivuolíu, sítrónusafa, pressuðum hvítlauk, timjan, salti og pipar. Látið liggja í 20 mínútur eða á meðan rótargrænmetið er undirbúið og ofninn hitaður. Hitið ofninn í 200°. Skerið rótargrænmetið í báta/bita og setjið í ofnskúfu, veltið því upp úr ólívuolíu og kryddið eftir smekk (ég notaði maldon salt, pipar og timjan). Setjið inn í ofn í 15 mínútur. Á meðan er svínalundin brúnuð á pönnu við háan hita, á öllum hliðum. Bætið svínalundinni í ofnskúffuna og hellið því sem eftir var af marineringunni yfir og bakið áfram í 20 mínútur. Leyfið kjötinu að standa aðeins áður en það er skorið í sneiðar.

Ofnbökuð svínalund með rótargrænmeti - allt í einni skúffu!

 

Pulled pork í rjómasósu

pulled pork í rjómasósuÉg þarf ekki að huga að neinum helgarmat þessa helgina þar sem ég fer út að borða og í bíó á föstudagskvöldinu, út að borða og á tónleika á laugardagskvöldinu og í saumaklúbb á sunnudagskvöldinu! Það eru ekki allar helgar svona vel bókaðar hjá mér, eins heimakær og ég nú er. Ég er þó með góða tillögu að helgarmat fyrir þá sem eru farnir að huga að helgarmatnum, hægeldaður svínahnakki í rjómasósu með kartöflum (brúnaðar er enn betra!), salati og rifsberjahlaupi. Ótrúlega einfalt og tekur örskamma stund að útbúa en þarf síðan að vera allan daginn í ofninum, þannig að þegar kjötið er tilbúið dettur það nánast í sundur. Þetta var helgarmaturinn okkar um síðustu helgi og þar sem strákarnir voru í afmæli á laugardagskvöldinu nýtti ég tækifærið og eldaði góðan skammt þá sem við gátum notið bæði laugardags- og sunnudagskvöld. Ég setti kjötið í ofninn strax um morguninn og um kvöldið var ekkert að gera nema að sjóða kartöflur og útbúa sósu úr soðinu. Einfalt og stórgott!

pulled pork í rjómasósu

Pulled pork í rjómasósu (uppskrift frá Bakverk och fikastunder)

 • 1 kg. svínahnakki í sneiðum
 • salt, svartur pipar, hvítur pipar og aromat
 • 2 nautakjötsteningar
 • 3 dl vatn

Kryddið svínahnakkasniðarnar og steikið síðan upp úr smjöri við háan hita þannig að kjötið fái fallega steikarhúð á öllum hliðum. Leggið í eldfast mót (bætið jafnvel smá meira af kryddi á). Hellið vatninu yfir pönnuna og bætið nautakjötsteningunum í. Látið suðuna koma upp og teningana leysast upp. Hellið vatninu af pönnunni yfir kjötið og setjið álpappír yfir formið (ef þið eigið ofnpott þá er upplagt að nota hann). Setjið í 130° heitan ofn í 8-10 klst.

pulled pork í rjómasósu

Rjómasósa

 • krafturinn frá kjötinu (sem verður á botninum á mótinu eftir eldunina)
 • 2,5 dl rjómi
 • ca 1 tsk. rifsberjahlaup
 • smá sykur
 • maizena til að þykkja sósuna

Setjið kjötkraftinn í pott og hrærið rjóma saman við. Látið sjóða saman í smá stund og smakkið til með rifsberjahlaupi og smá sykri (jafnvel smá hvítur pipar). Þykkið sósuna með Maizena mjöli.

Ofnbökuð svínalund með sinnepssveppasósu

Ofnbökuð svínalund með sinnepssveppasósuVið ákváðum að draga aftur í gang það stórskemmtilega verkefni að láta krakkana skiptast á að sjá um þriðjudagsmatinn. Mér þykir svo gaman að sjá hvað þau velja að hafa í matinn en því verður ekki neitað að metnaðurinn er mismikill hjá þeim. Á meðan sumir eru að gæla við að elda jólaskinku eru aðrir að velta því fyrir sér að sjóða fisk. Eitt er þó víst að þau hafa mjög gott og gaman af þessu. Jakob reið fyrstur á vaðið og bauð upp á kjöt í káli, með soðnum nýjum kartöflum, gulrótum og bræddu smjöri. Þvílík veisla! Við borðuðum á okkur gat.
Ofnbökuð svínalund með sinnepssveppasósu

Það kemur þó engin uppskrift frá veislumatnum hans Jakobs hingað á bloggið (enda svo sem enga uppskrift sem þarf við að sjóða kjöt í káli, það er bara öllu húrrað í pott og soðið!) heldur langaði mig að setja inn uppskrift af sunnudagsmatnum okkar, heilsteiktri svínalund með sinnepssveppasósu sem okkur þótt svo æðislega gott. Kannski hugmynd fyrir helgina?

Ofnbökuð svínalund með sinnepssveppasósu

Ofnbökuð svínalund með sinnepssvepasósu

 • 600 g svínalund
 • salt og pipar
 • smjör
 • 150 g sveppir
 • 1 skarlottulaukur
 • 1 msk hveiti
 • 1 dl kjötkraftur af steikarpönnunni
 • 1 dl rjómi
 • 1 dl mjólk
 • 1 msk kálfakraftur (fæst fljótandi í glerflöskum, stendur kalvfond á)
 • 1 msk dijon sinnep
 • skvetta af sojasósu
 • smá sykur

Hreinsið kjötið og kryddið með salti og pipar. Bræðið smjör á pönnu og brúnið hliðarnar á kjötinu. Takið kjötið af pönnunni og setjið í eldfast mót. Hellið 1 dl af vatni á pönnuna og sjóðið kraftinn upp (hann verður notaður í sósuna). Setjið kjötið í 175° heitan ofn í um 20 mínútur, eða þar til kjötmælir sýnir 67°. Látið kjötið standa í 10 mínútur áður en það er skorið.

Skerið sveppina í fernt og hakkið laukinn. Bræðið smjör í potti við miðlungsháan hita og steikið laukinn og sveppina þar til laukurinn er mjúkur. Stráið hveiti yfir og hrærið vel. Hrærið steikarkraftinum saman við og síðan rjóma, mjólk og kálfakrafti. Látið sjóða saman í 5 mínútur. Smakkið til með sykri, dijon sinnepi, salti, pipar og smá sojasósu.

 

Carnita taco

Carnita tacoGleðilegt ár kæru lesendur. Það varð óvænt smá pása hér á blogginu en nú dettur allt í rútínu aftur. Ég vona að þið hafið haft það gott yfir hátíðirnar og að nýja árið leggist vel í ykkur. Við áttum yndisleg jól og borðuðum yfir okkur oft á dag, alveg eins og það á að vera. Þess á milli var spilað, lesið, farið á skíði, í jólaboð, vakað fram eftir nóttu og sofið fram eftir degi. Dásamlegt í alla staði.Carnita taco

Ég ætla að taka saman vinsælustu uppskriftirnar á árinu sem leið en núna ætla ég að gefa uppskrift af frábærum helgarmat. Mér þykir kjörið að gera þennan rétt um helgar því kjötið þarf dágóðan eldunartíma og mér þykir alltaf dálítið notalegt að dunda mér heima um helgar á meðan kvöldmaturinn sér um sig sjálfur á eldavélinni. Carnita taco

Kryddblandan sem notuð er í marineringuna dugar margfallt þannig að það er um að gera að geyma hana í lokuðum umbúðum og nota síðan aftur og aftur. Hún er glettilega góð og það verður enginn svikinn af því að eiga hana í búrskápnum. Passið bara að skella henni ekki allri út á kjötið, það gæti orðið full mikið af því góða.

Carnita taco

Carnita taco (uppskrift úr Texmex från grunden)
 • 1 kg beinlaus svínabógur (eða annað svínakjöt, t.d. kótilettur)
 • 2 msk kryddblanda (uppskrift fyrir neðan)
 • 1 lime
 • 1 appelsína
 • 1 msk sojasósa
 • 1 tsk cumin
 • 5 hvítlauksrif
 • 1/2 – 1 líter Coca cola

Kryddblanda

 • 3 msk paprikukrydd
 • 1 tsk cayennepipar
 • 1 tsk hvítur pipar
 • 1 msk hvítlaukskrydd
 • 1 msk chilikrydd
 • 1 msk þurrkað oregano
 • 1 msk salt

Blandið öllu saman.

Skerið kjötið í litla bita og nuddið kryddblöndunni (ath. að nota bara 2 msk af henni) og cumin. Pressið lime- og appelsínusafa yfir og hellið sojasósu yfir. Bætið fínhökkuðum hvítlauk saman við og blandið öllu vel saman. Látið standa að minnsta kosti 1 klst. en gjarnan lengur (það er t.d. upplagt að gera þetta kvöldið áður til að flýta fyrir).

Steikið kjötið við háan hita og hellið afgangs marineringu yfir. Hellið Coca Cola yfir þannig að það næstum fýtur yfir kjötið og látið sjóða undir loki í amk 2 klst. Fylgist með og bætið Coca Cola á eftir þörfum. Undir lokin á suðutímanum á vökvinn að vera farinn. Tætið kjötið í sundur áður en þið berið það fram.

 Mangósalsa
 • 2 mangó, skorin í teninga (má nota frosið mangó)
 • 1/2 pakkning kóriander
 • safi úr 1-2 lime
 • biti af fínhökkuðu chili (fjarlægið fræin ef þið viljið ekki hafa salsað sterkt)
 • 1/2 tsk salt
Blandið öllum hráefnunum saman og geymið í ísskáp þar til borið fram.
Carnita tacoCarnita tacoCarnita taco
Berið fram í tortillakökum með guacamole og sýrðum rjóma, eða því sem hugurinn girnist.

Hægeldaðar kótilettur í rjómasósu

Hægeldaðar kótilettur í rjómasósuUm helgar þykir mér notalegt að hægelda mat. Að kveikja á útvarpinu og dunda mér hér heima á meðan kvöldmaturinn sér um sig sjálfur á eldavélinni eða í ofninum. Kjötið verður svoooo meyrt að það nánast dettur í sundur. Brjálæðislega gott!

Hægeldaðar kótilettur í rjómasósu

Það rifjaðist upp fyrir mér í gærkvöldi að ég á eftir að setja inn uppskrift af dásamlegum hægelduðum kótilettum sem ég eldaði tvær helgar í röð um daginn. Þegar ég var með þær í fyrsta sinn hugsaði ég með mér að þetta væri nú eitthvað fyrir mömmu. Helgina eftir eldaði ég því kótiletturnar aftur og bauð henni til okkar. Hún dásamaði þær við hvern bita og við vorum sammála um að þetta er frábær helgarmatur.

Hægeldaðar kótilettur í rjómasósu

Hægeldaðar kótilettur í rjómasósu (uppskrift fyrir 4)

 • 6 svínakótilettur
 • 1 gulrót
 • 1 gulur laukur
 • 1 lárviðarlauf
 • salt og pipar
 • vatn
 • 1 msk kálfakraftur (kalvfond)
 • 2 dl rjómi
 • 1 dl sýrður rjómi
 • 1 msk sojasósa
 • salt og pipar
 • sykur

Saltið og piprið kótiletturnar og brúnið þær á báðum hliðum á rúmgóðri pönnu. Skerið lauk í báta og gulræturnar í sneiðar og bætið á pönnuna, hellið síðan vatni svo rétt fljóti yfir. Setjið kálfakraft og lárviðarblað í og látið sjóða undir loki við vægan hita í 2-3 klukkustundir. Snúið kótilettunum gjarnan annað slagið.

Takið kjötið af pönnunni og sigtið sósusoðið. Setjið soðið aftur á pönnuna (laukurinn og gulrótin eiga ekki að vera með), hrærið rjóma og sýrðum rjóma saman við og smakkið til með sojasósu, salti og pipar. Setjið smá sykur í sósuna og leggið kótiletturnar í og látið sjóða saman í nokkrar mínútur. Berið fram með kartöflum og rifsberjahlaupi

Grískur ofnréttur

Ég hef séð uppskrift að þessum gríska ofnrétti víðsvegar á sænskum matarbloggum og óhætt að segja að hann hafi verið að slá í gegn. Eins og svo oft áður þegar ég sé uppskriftir ganga um netið varð ég spennt að prófa og fannst því upplagt að elda þennan gríska ofnrétt núna um helgina.

Ég skil vinsældir réttsins vel og það er óhætt að segja að hann hafi skotið sér beint á lista yfir uppáhaldsrétti hjá okkur. Marineringin á kjötinu gefur honum æðislega gott bragð og kalda sósan passar mjög vel með. Ég átti þetta hvítlauksbrauð niðurskorið í frystinum sem ég setti frosið í ofninn í stutta stund og bar fram með ofnréttinum ásamt köldu sósunni og ólívum. Þvílík veisla, við vorum öll stórhrifin og gefum máltíðinni hæstu einkunn.

Grískur ofnréttur

 • Kartöflubátar
 • 500 gr svínalund
 • 1 rauð paprika
 • 1 rauðlaukur
 • 1 askja kokteiltómatar
 • 1 fetakubbur

Marinering fyrir kjötið

 • 1 ½ dl olía (ekki ólívuolía)
 • 2 msk sojasósa
 • 3 hvítlauksrif
 • 1 tsk engifer (krydd, ekki ferskt)
 • 1 ½ tsk sambal oelek (chilimauk sem fæst t.d. í Bónus)
 • salt og pipar

Köld sósa

 •  2 dl sýrður rjómi (1 box)
 • 3 msk majónes
 • 1 tsk ítalskt salatkrydd eða jurtakrydd
 • 1 pressað hvítlauksrif

Deginum áður:

Blandið hráefnunum í marineringuna saman. Skerið kjötið í ca 1 cm þykkar sneiðar og leggið í marineringuna. Látið standa í lokuðu boxi eða skál í ískáp í sólarhring.

Blandið hráefnunum í sósuna saman og geymið í ískáp.

Sama dag:

Hitið ofnin í 220°. Skerið kartöflur í báta og leggið í stórt eldfast mót eða ofnskúffu. Saltið og kryddið með smá chili explosion kryddi og setjið í ofninn í 20-25 mínútur.

Skerið rauðlaukin og paprikuna í báta og kirsuberjatómatana í fernt. Takið kartöflurnar úr ofninum og leggið niðurskorið grænmetið yfir þær. Leggið kjötið ásamt marineringunni yfir grænmetið og endið á að mylja fetakubbinn yfir kjötið. Setjið í ofninn í 20-25 mínútur.

Berið fram með köldu sósunni og jafvel ólívum og góðu brauði.