Þegar við flugum til Balí millilentum við í Stokkhólmi þar sem ég byrgði mig upp af tímaritum og sælgæti fyrir 13 tíma flugið sem beið okkar yfir til Singapore. Í einu tímaritanna, Family Living, leyndust nokkrar mexíkóskar uppskriftir sem mér leist vel á og reif úr blaðinu.
Í gærkvöldi prófaði ég fyrstu uppskriftina og þeir sem fylgja mér á Instagram gátu séð myndir af herlegheitunum í Instastory. Eldamennskan var svo einföld að ég nýtti tækifærið og eldaði kjúklingasúpu í leiðinni til að eiga í kvöld. Gunnar var að keppa yfir kvöldmatartímann, í grenjandi rigningu, og það var dásamlegt að koma heim eftir leikinn og þurfa bara að hita súpuna upp.
Ég held að það sé sama hvaða mexíkóska rétt ég býð upp á hér heima, þeir slá alltaf í gegn. Þessi réttur var engin undantekning. Ég bar kjötið bæði fram með litlum tortillakökum og stökkum skeljum og í meðlæti var ég með kál, papriku, rauðlauk, gúrku, avokadó, salsa, sýrðan rjóma og svart Doritos. Súpergott!
Carnitas (uppskrift fyrir 5)
- 1 kg beinlaus grísahnakki
- 1 ½ gulur laukur
- 4 hvítlauksrif
- 1 rautt chillí
- 2 tsk salt
- smá pipar úr kvörn
- safi úr einni appelsínu
- 175 ml bbq-sósa
- 3/4 líter Coca-Cola
- 1/2 líter vatn (ég setti bara 1/4 líter)
Skerið kjötið í 2 cm bita. Afhýðið lauk og hvítlauk og skerið gróft niður. Fjarlægið fræin (ef þið viljið ekki hafa réttinn sterkann, látið þau annars vera með) og fínhakkið chillíið. Setjið öll hráefnin í pott (þykkbotna ef hann er til) og látið sjóða við vægan hita í 3-4 klst. Hrærið annað slagið í pottinum. Undir lokin ætti allur vökvi að vera orðinn þykkur á kjötinu. Rífið kjötið niður með tveim göfflum og berið fram.
Ein athugasemd á “Carnitas”