Stórgott hvítlauksbrauð sem dugar fyrir marga

Þegar Malín kom heim frá Svíþjóð færði hún mér meðal annars eitt af uppáhalds matreiðslublöðunum mínum, ELLE mat & vin. Blaðið er stútfullt af spennandi uppskriftum og í gærkvöldi prófaði ég þá fyrstu, hvítlauksbrauð. Ég ákvað síðan að gera spaghetti með kjúklingi, mascarpone, sítrónu, spínati og sólþurrkuðum tómötum sem ég bar brauðið fram með.

Það er helst frá því að segja að bræðurnir enduðu á að borða brauð og skyr í kvöldmat. Þeim þótti pastarétturinn svo vondur að Jakob reyndi að gera sér upp ofnæmi fyrir sítrónum til að þurfa ekki að borða hann. Malín borðaði vel en líkt og bræðrum sínum þótti henni pastarétturinn ekki upp á marga fiska. Ég skil ekkert í þeim því okkur Ögga þótti þetta hinn fínasti matur og tæmdum alla diska.

Þó að bræðurnir hefðu glaðir borðað brauðið eitt í kvöldmat þá vorum við foreldrarnir ekki tilbúin að láta það eftir þeim. Ég átti jarðaberjaskyr í ískápnum sem var búið að taka af og það sem eftir var dugði varla fyrir þá báða. Ég brá þá á það ráð að þeyta rjóma og hræra saman við skyrið. Ég kallaði það spariskyr og þeim þótti það alveg meiriháttar.

Það voru þó allir á einu máli um að brauðið væri æðislega gott og það var vel borðað af því. Uppskriftin er heldur stór, heil ofnskúffa, og hentar því vel fyrir matarboð eða að skera niður afganginn og frysta.

Hvítlauksbrauð

  • 50 gr ger (1 pakki)
  • 5 dl 37° heitt vatn
  • 1 dl ólívuolía
  • 1 msk sykur
  • 2 tsk salt
  • 12-14 dl hveiti

Fylling

  • 1 dl ólívuolía
  • 1/2 bakki af ferskri basiliku (bara blöðin)
  • 2 hvítlauksrif
  • 1/2 sítróna, (bara hýðið)
  • Maldonsalt
  • pipar úr kvörn

Hrærið gerinu saman við fingurheitt vatnið og hellið ólívuolíu, sykri og salti saman við. Bætið nánast öllu hveitinu saman við og hnoðið vel saman. Passið að nota ekki of mikið af hveiti svo að brauðið verði ekki þurrt. Látið deigið hefast á hlýjum stað í 45-60 mínútur.

Klæðið ofnskúffu með bökunarpappír og stráið smá hveiti yfir. Setjið deigið á plötuna, dreifið úr því og látið það vera jafn þykkt. Látið deigið hefast aftur í 40 mínútur. Á meðan er fyllingin útbúin og ofninn hitaður í 250°.

Mixið ólívuolíuna og basilikublöðin með töfrasprota þar til úr verður slétt olía. Pressið hvítlaukinn eða hakkið smátt. Skolið sítrónuna vel og fínrífið hýðið. Hrærið öllu saman og smakkið til með maldonsalti og pipar.

Þegar brauðið er búið að hefast eru gerðar litlar holur um allt brauðið með fingrinum. Penslið fyllingunni yfir brauðið og bakið í miðjum ofni þar til það fær fallegan lit, ca 15-20 mínútur. Látið brauðið kólna undir viskastykki.

Ein athugasemd á “Stórgott hvítlauksbrauð sem dugar fyrir marga

  1. Tetta braud er otrulega gott – dugar samt ekki svo mikid tvi tad klarast svo fljott tvi tad er svooooo gott!!

  2. þetta er geggjað gott brauð. Gott að setja sólþurrkaða tómata í götin. Ég geri alltaf tvöfalda uppskrift og frysti restina. 🙂

  3. Ég gerði eina uppskrift og það hefði dugað tvisvar í mat fyrir okkur fjölskylduna. það varð mjög þykkt og ég hefði viljað hafa aðeins meiri olíu á þvi 🙂 Passið að gera götin með puttunum almennilega því þá nær olían nánast í gegn 🙂
    Rosalega gott brauð, fannst persónulega að það mætti sleppa basilikunni og nota meiri hvítlauk, jafnvel hvítlaukssalt í staðinn fyrir saltið 🙂

  4. frábært brauð 😉 bjó til fyrir 140 manns. Frábært blogg hjá þér, gaman að fylgjast með þér . kveðja Hjördís

  5. Rosalega gott brauð. Ég breytti samt frekar miklu. Í grunninn gerði ég brauðið eins en breytti fyllingunni talsvert. Setti olíu eins og á að vera en bætti smá smjöri við og bræddi. Sleppti basilikunni og sítrónuberkinum. Setti sítrónupipar í staðin, oregano, og pizzakryddi og setti þrefalt meiri hvítlauk en á að vera 🙂 Svaaakalega gott!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s