Mascarpone kjúklingapasta með sólþurrkuðum tómötum og spínati

Ég elska sítrónur, hvort sem þær eru í drykkjum, mat eða bakstri. Fjölskyldan deilir ekki þessari sítrónuást með mér og í sumar þegar við hjónin gengum um Hyde Park í London og ég fékk mér sítrónuköku og Sprite þá bretti Öggi bara upp á nefið. Mér fannst það æðisleg samsetning en honum fannst það full mikið af því góða.

Þrátt fyrir þessa ást mína á sítrónum hef ég aldrei átt sítrónupressu. Ég hef alltaf kreist sítrónurnar í skál og síðan veitt steinana upp úr. Ég var búin að heyra að sítrónupressan frá Chef´n væri æðisleg og eftir að hafa skoðað hana á netinu virtist hún vera Rollsinn í sítrónupressunum. Ég var staðráðin í að panta mér hana en þegar það kom í ljós að hún kostaði 9.000 krónur með sendingarkostnaði, og þá var tollurinn eftir, ákvað ég að slaka aðeins á.

Um daginn átti ég leið í Pipar og salt á Klapparstíg og mikið varð ég glöð þegar ég sá að sama sítrónupressan fékkst þar á 4.500 krónur. Þvílík kjarakaup. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um og keypti hana samstundis.

Þessi sítrónupressa er í einu orði sagt frábær. Hún er einföld í notkun, nær öllum safanum úr sítrónunni og er strax orðin eitt af mínum uppáhalds eldhúsáhöldum.

 

Ef ég á að vera hreinskilin þá hafa ekki margir beðið mig um uppskriftina að pastaréttinum sem ég eldaði á föstudaginn við lítið fögnuð barnanna. Mamma er sú eina sem var spennt að sjá uppskriftina en okkur Ögga þótti hún svo góð að ég ætla að deila uppskriftinni með ykkur. Sítrónupressan fékk að njóta sín við eldamennskuna og mér fannst sítrónukeimurinn gefa réttinum mjög gott bragð. Ég mun örugglega elda þennan rétt aftur en þá ætla ég að bæta matreiðslurjóma í uppskriftina til að fá meiri sósu. Hvítlauksbrauðið fór mjög vel með pastaréttnum og ég fer ekki af því að þetta er dásamlegur kvöldverður.

Mascarpone kjúklingapasta með sólþurrkuðum tómötum og spínati

 • 250 gr mascarpone rjómaostur við stofuhita
 • Hýði og safi úr einni sítrónu
 • 1 tsk nýmalaður pipar
 • 3-4 kjúklingabringur
 • 1 ½  msk ólívuolía
 • 2 hvítlauksrif
 • salt og pipar
 • 1/3 bolli sólþurrkaðir tómatar, hakkaðir
 • 1 poki spínat (250 gr)
 • 500 gr pasta
 • Ferskrifinn parmesan

Hrærið saman fínrifið sítrónuhýði, sítrónusafa, mascarpone og pipar í skál.

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið í ólívuolíu við miðlungsháan hita þar til þær eru eldaðar í gegn. Bætið pressuðum hvítlauksrifjum á pönnuna og steikið áfram í 1-2 mínútur. Saltið og piprið.

Sjóðið pastað í söltu vatni eftir leiðbeiningum á pakkningu en takið það af hitanum 1-2 mínútum áður en það er tilbúið. Takið hálfan bolla af pastavatninu frá og sigtið restina af vatninu frá pastanu.

Setjið pastað aftur í pottinn og setjið pottinn á miðlungsháan hita. Hrærið mascarpone og sítrónublöndunni saman við ásamt kjúklingnum, sólþurrkuðu tómötunum og spínatinu. Þynnið sósuna með 1/4 af pastavatninu og hrærið vel saman þar til allt er orðið vel heitt. Bætið við meira af pastavatni ef þörf er á.

Rífið ferskan parmesan yfir áður en rétturinn er borinn fram.

 

7 athugasemdir á “Mascarpone kjúklingapasta með sólþurrkuðum tómötum og spínati

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s