Pasta með salami og blaðlauki

Pasta með salami og blaðlauki

Fyrsti í aðventu er um helgina og því langþráð helgi að renna upp. Hér er búið að bíða með eftirvæntingu eftir aðventukaffinu síðan í lok sumars og núna þegar loksins er komið að þessu þá verður Malín að vinna og Gunnar á æfingu um miðjan sunnudaginn. Við þurfum því að finna góða lausn á málinu. Annað hvort höfum við aðventumorgunkaffi eða kvöldkaffi. Bæði hljómar vel í mínum eyrum.

Pasta með salami og blaðlaukiPasta með salami og blaðlauki

Við ætlum að setja aðventuljósin í gluggana um helgina og jafnvel fær smá jólaskraut að koma úr kössunum. Aldrei þessu vant er ég búin að kaupa allar jólagjafirnar og pakka þeim inn, þannig að desembermánuður mun vera laus við hlaup á milli verslanna og aðallega snúast um að njóta lífsins. Nú þegar eru tvenn jólahlaðborð bókuð ásamt skötuveislu á þorláksmessu og Baggalútstónleikum um miðjan mánuð. Þess á milli ætla ég að dunda mér við smákökubakstur, fara í jólaboð og skemmta mér í jólasaumaklúbbum og vinkonuhittingum. Það sem ég ætla að njóta!

Pasta með salami og blaðlauki

Ég er kannski sein á boltann en ég rakst á ferskt grænmetispasta í búðinni um daginn. Ég vildi að ég hefði uppgötvað það fyrr því pastað er með 40% grænmeti í deiginu og er súpergott! Ég prófaði að nota brokkólípasta í pulsupastaréttinn við miklar vinsældir hjá krökkunum. Í rétti sem inniheldur nánast eingöngu pulsur, rjóma og ost þá var gott að vita af grænmeti þar með.  Síðan prófaði ég gulrótapasta í æðislegan pastarétt og útkoman var svo góð að Jakob spurði hvort við gætum ekki haft þetta á jólunum! Rétturinn passar bæði sem hversdagsréttur eða með góðu hvítlauksbrauði og rauðvíni um helgar. Það tekur svo stuttan tíma að útbúa réttinn og hann er hreint út sagt súpergóður. Vert að prófa!

Pasta með salami og blaðlauki

Pasta með salami og púrrlauk – uppskrift fyrir 4

 • 1 pakki Pastella með gulrótum
 • 100 g Frönsk salami
 • 1/2 blaðlaukur
 • 1,5 dl sýrður rjómi
 • 1,5 dl rjómi
 • 1 msk chilisósa
 • salt og pipar
 • 1 kúla af ferskum mozzarella

Hitið ofninn í 200°.

Sjóðið pastað í söltu vatni í 2-3 mínútur. Leggið til hliðar.

Skerið salami í strimla og hakkið blaðlaukinn. Steikið á pönnu við miðlungsháan hita þar til laukurinn er farinn að mýjkjast. Bætið sýrðum rjóma, rjóma og chilisósu á pönnuna og smakkið til með salti og pipar. Bætið pastanu út í sósuna og blandið vel saman. Setjið yfir í eldfast mót og leggið sneiddan mozzarella yfir. Bakið þar til osturinn hefur bráðnað.

Pasta með salami og blaðlaukiPasta með salami og blaðlaukiPasta með salami og blaðlaukiPasta með salami og blaðlaukiPasta með salami og blaðlaukiPasta með salami og blaðlaukiPasta með salami og blaðlauki

Pastagratín úr því sem til er!

Pastagratín með því sem til er!

Ísskápurinn hjá mér hefur verið stútfullur upp á síðkastið en samt einhvern veginn ekkert til sem mig langar að gæða mér á. Ég tók því ákvörðun um að kaupa sem minnst í matinn og reyna frekar að nýta það sem til er. Það er svo fínt að losa aðeins pláss fyrir jólin, þegar alvöru kræsingar taka yfir. Kræsingar sem mig langar til að borða og mega gjarnan fylla bæði ísskáp og skápa.

Pastagratín með því sem til er!

Það getur oft ýmislegt skemmtilegt og gott komið úr svona skápatiltektum. Eins og þetta pastagratín sem eitthvert barnanna stakk upp á að við myndum hafa aftur á jólunum! Sama og þegið, en gott var það.

Pastagratín með því sem til er!

Ég vissi að það leyndist ýmislegt í grænmetisskúffunni og fór því í búðina og keypti piparost. Restina átti ég til hér heima. Uppskriftin er ekki heilög heldur bara til viðmiðunar og ég veit að það hefði til dæmis verið stórgott að hafa sæta kartöflu þarna með. Úr þessu varð kvöldmatur sem dugði okkur í tvo daga, og það eina sem ég keypti var einn piparostur. Grænmetið var komið á síðasta snúning og hefði annars endað í tunnunni. Hvítlauksbrauð fer vel með og gerir máltíðina enn drýgri.

Pastagratín með því sem til er!

Pastagratín úr því sem til er

 • 1/2 púrrulaukur, skorinn í strimla
 • 1/2 rauðlaukur, hakkaður
 • 1 græn paprika, skorin í bita
 • 150 g sveppir, skornir í fernt
 • 5 kartöflur, skornar í bita
 • 2 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 5 dl rjómi
 • 1 piparostur
 • maldon salt
 • pipar
 • paprikukrydd
 • cayenne pipar
 • 1 grænmetisteningur
 • 500 g pasta (ósoðið)

Bræðið smjör á pönnu og steikið kartöflur og hvítlauks við miðlungsháan hita (stilling 4 af 9) í 5 mínútur. Bætið púrrulauk, rauðlauk, papriku og sveppum á pönnuna og steikið áfram í 5 mínútur til viðbótar. Hellið rjóma yfir og bætið niðurskornum piparosti og grænmetisteningi á pönnuna. Látið suðuna koma upp og sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Smakkið til með salti, pipar, paprikukryddi og smá cayenne pipar.

Sjóðið pasta eftir leiðbeiningum. Takið smá af pastavatninu og hrærið saman við grænmetissósuna á pönnunni. Hellið vatninu frá pastanu og setjið pastað í eldfast mót. Hellið grænmetissósunni yfir og blandið öllu vel saman. Stráið osti yfir og setjið í 180° heitan ofn þar til osturinn hefur bráðnað. Berið fram með parmesan og hvítlauksbrauði.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Í gærkvöldi kom ég í seint heim og þá hentaði ósköp vel að eiga hráefni í einfaldasta og fljótgerðasta pastarétt sem ég veit um. Kvöldmaturinn var kominn á borðið á innan við 15 mínútum eftir að ég kom heim og var svo dásamlega góður.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Ég nota ferskt tortellini í þennan rétt, það þarf að sjóða í 1 mínútu og er mjög gott. Salvíusmjörið tekur nokkrar mínútur að útbúa og þá er rétturinn tilbúinn. Ég bar hann fram með hvítlauksbrauði ásamt vel af parmesan og smá rauðu í glasinu. Dásemdar veislumatur!

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri (uppskrift fyrir 2)

 • 50 g smjör
 • 10 fersk salvíublöð
 • 1½  msk hunang
 • 2 msk balsamik edik
 • maldonsalt
 • svartur pipar úr kvörn
 • parmesan
 • Ferkst tortellini, gjarnan með ostafyllingu eða skinku- og ostafyllingu

Bræðið smjörið í potti (eða á lítilli pönnu) og bætið salvíublöðunum í. Látið malla við miðlungsháan hita þar til smjörið hefur brúnast. Bætið hunangi og balsamik ediki saman við og smakkið til með salti og pipar. Sjóðið tortellini samkvæmt leiðbeiningum á pakkningu. Blandið sósunni saman við nýsoðið tortellini og stráið ríkulega af rifnum parmesan yfir.

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöriHér hefur smjörið verið brætt og salvíu bætt á pönnuna

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöriHér er smjörið tekið að brúnast

Tortellini í brúnuðu salvíusmjöri

Hér hefur hunangi og balsamik edik verið bætt saman við. Tilbúið!

 

Spaghetti í rjómalagaðri tómatsósu

Spaghetti í rjómalagaðri tómatsósu

Ég hef lítið stússast í eldhúsinu þessa vikuna þar sem það hefur verið ótrúlegt útstáelsi á mér á kvöldin. Á meðan ég hef setið með vinkonum mínum yfir dýrindis kræsingum hef ég lítið skipt mér af því sem fjölskyldan hefur borðað hér heima. Í gær tók ég þó aftur yfir eldhúsinu og eldaði mjög einfaldan en góðan pastarétt sem tók ekki nokkra stund að gera.

Þessi réttur uppfyllti allar mínar kröfur í gær, það tók enga stund að útbúa hann og öllum þótti hann góður. Krakkarnir fengu sér aftur á diskinn og sumir meira að segja fjórum sinnum. Þau voru öll á einu máli um að rétturinn yrði að fara á bloggið og ég tók undir með þeim. Svona uppskriftir getur verið svo gott að eiga í handraðanum, sérstaklega þegar jólastressið er handan við hornið og enginn tími til að standa við eldavélina.

Spaghetti í rjómalagaðri tómatsósu

Spaghetti í rjómalagaðri tómatsósu

 • 2 msk ólívuolía
 • 6 stórir plómutómatar
 • 1 laukur
 • 3 hvítlauksrif
 • 1 grænmetisteningur (mér þykja þeir bestir frá Knorr)
 • 2 tsk hunang
 • 1 tsk balsamik edik
 • svartur pipar úr kvörn
 • 1½ dl rjómi
 • 2-3 dl vatn sem spaghettíið var soðið í
 • salt

Sjóðið spaghetti eftir leiðbeiningum á pakkningu.

Skerið tómatana í litla bita og fínhakkið lauk og hvítlauk. Hitið ólívuolíu á pönnu og steikið tómata, lauk og hvítlauk. Bætið grænmetisteningi, hunangi og balsamik ediki á pönnuna og kryddið með pipar. Látið sjóða saman þar til laukurinn er orðinn mjúkur. Lækkið hitann, bætið rjóma saman við og látið sjóða saman um stund. Þegar spaghettíið er tilbúið er 2-3 dl af spaghettivatninu bætt á pönnuna og rétt látið sjóða saman. Að lokum er spaghettíinu bætt á pönnuna og öllu blandað vel saman.

Ragù með pasta

Eftir góðan endasprett í Berlín komum við heim klukkan þrjú í nótt. Við ætluðum ekki að trúa því þegar vekjaraklukkan hringdi í morgun og það var mikið þrekvirki að komast á fætur eftir allt of lítinn svefn. Dagurinn leið þó hratt og áður en ég vissi af var vinnudeginum lokið og ég farin að huga að kvöldmat.

Við Öggi vorum farin að þrá heimaeldaðan mat og ég ákvað að hafa hann einfaldan í kvöld. Það voru skiptar skoðanir um ágæti þessa rétts, við Malín voru ekkert yfir okkur hrifnar á meðan Ögga og strákunum þótti maturinn stórgóður og borðuðu á sig gat.

Kvöldinu ætlum við að eyða fyrir framan sjónvarpið í langþráðri afslöppun. Við keyptum okkur uppáhalds súkkulaðið okkar í Berlín og ætlum að gæða okkur á því. Ég get ekki hugsað mér neitt betra þessa stundina en sjónvarpssófann og súkkulaðið.

Ragù með pasta

 • 500 gr pasta (ég var með lífrænt heilhveiti penne)
 • 400 gr nautahakk
 • 2 msk ólivuolía
 • 1 laukur
 • 4 dl grænmetiskraftur
 • 120 gr Philadelphia vitlök & örter
 • rifinn parmesan
 • salt og pipar

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pakkningu. Fínhakkið lauk og steikið í olíu þar til hann hefur fengið fallegan lit. Bætið nautahakkinu á pönnuna og steikið það vel. Hellið grænmetiskraftinum yfir og látið sjóða í 30 mínútur. Hrærið reglulega í pönnunni.

Blandið Philadelphia ostinum á pönnuna og smakkið til með pipar og salti.  Blandið saman við pastað og hrærið vel saman. Berið fram með ferskrifnum parmesan osti.

Mascarpone kjúklingapasta með sólþurrkuðum tómötum og spínati

Ég elska sítrónur, hvort sem þær eru í drykkjum, mat eða bakstri. Fjölskyldan deilir ekki þessari sítrónuást með mér og í sumar þegar við hjónin gengum um Hyde Park í London og ég fékk mér sítrónuköku og Sprite þá bretti Öggi bara upp á nefið. Mér fannst það æðisleg samsetning en honum fannst það full mikið af því góða.

Þrátt fyrir þessa ást mína á sítrónum hef ég aldrei átt sítrónupressu. Ég hef alltaf kreist sítrónurnar í skál og síðan veitt steinana upp úr. Ég var búin að heyra að sítrónupressan frá Chef´n væri æðisleg og eftir að hafa skoðað hana á netinu virtist hún vera Rollsinn í sítrónupressunum. Ég var staðráðin í að panta mér hana en þegar það kom í ljós að hún kostaði 9.000 krónur með sendingarkostnaði, og þá var tollurinn eftir, ákvað ég að slaka aðeins á.

Um daginn átti ég leið í Pipar og salt á Klapparstíg og mikið varð ég glöð þegar ég sá að sama sítrónupressan fékkst þar á 4.500 krónur. Þvílík kjarakaup. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um og keypti hana samstundis.

Þessi sítrónupressa er í einu orði sagt frábær. Hún er einföld í notkun, nær öllum safanum úr sítrónunni og er strax orðin eitt af mínum uppáhalds eldhúsáhöldum.

 

Ef ég á að vera hreinskilin þá hafa ekki margir beðið mig um uppskriftina að pastaréttinum sem ég eldaði á föstudaginn við lítið fögnuð barnanna. Mamma er sú eina sem var spennt að sjá uppskriftina en okkur Ögga þótti hún svo góð að ég ætla að deila uppskriftinni með ykkur. Sítrónupressan fékk að njóta sín við eldamennskuna og mér fannst sítrónukeimurinn gefa réttinum mjög gott bragð. Ég mun örugglega elda þennan rétt aftur en þá ætla ég að bæta matreiðslurjóma í uppskriftina til að fá meiri sósu. Hvítlauksbrauðið fór mjög vel með pastaréttnum og ég fer ekki af því að þetta er dásamlegur kvöldverður.

Mascarpone kjúklingapasta með sólþurrkuðum tómötum og spínati

 • 250 gr mascarpone rjómaostur við stofuhita
 • Hýði og safi úr einni sítrónu
 • 1 tsk nýmalaður pipar
 • 3-4 kjúklingabringur
 • 1 ½  msk ólívuolía
 • 2 hvítlauksrif
 • salt og pipar
 • 1/3 bolli sólþurrkaðir tómatar, hakkaðir
 • 1 poki spínat (250 gr)
 • 500 gr pasta
 • Ferskrifinn parmesan

Hrærið saman fínrifið sítrónuhýði, sítrónusafa, mascarpone og pipar í skál.

Skerið kjúklingabringurnar í bita og steikið í ólívuolíu við miðlungsháan hita þar til þær eru eldaðar í gegn. Bætið pressuðum hvítlauksrifjum á pönnuna og steikið áfram í 1-2 mínútur. Saltið og piprið.

Sjóðið pastað í söltu vatni eftir leiðbeiningum á pakkningu en takið það af hitanum 1-2 mínútum áður en það er tilbúið. Takið hálfan bolla af pastavatninu frá og sigtið restina af vatninu frá pastanu.

Setjið pastað aftur í pottinn og setjið pottinn á miðlungsháan hita. Hrærið mascarpone og sítrónublöndunni saman við ásamt kjúklingnum, sólþurrkuðu tómötunum og spínatinu. Þynnið sósuna með 1/4 af pastavatninu og hrærið vel saman þar til allt er orðið vel heitt. Bætið við meira af pastavatni ef þörf er á.

Rífið ferskan parmesan yfir áður en rétturinn er borinn fram.