Eftir góðan endasprett í Berlín komum við heim klukkan þrjú í nótt. Við ætluðum ekki að trúa því þegar vekjaraklukkan hringdi í morgun og það var mikið þrekvirki að komast á fætur eftir allt of lítinn svefn. Dagurinn leið þó hratt og áður en ég vissi af var vinnudeginum lokið og ég farin að huga að kvöldmat.
Við Öggi vorum farin að þrá heimaeldaðan mat og ég ákvað að hafa hann einfaldan í kvöld. Það voru skiptar skoðanir um ágæti þessa rétts, við Malín voru ekkert yfir okkur hrifnar á meðan Ögga og strákunum þótti maturinn stórgóður og borðuðu á sig gat.
Kvöldinu ætlum við að eyða fyrir framan sjónvarpið í langþráðri afslöppun. Við keyptum okkur uppáhalds súkkulaðið okkar í Berlín og ætlum að gæða okkur á því. Ég get ekki hugsað mér neitt betra þessa stundina en sjónvarpssófann og súkkulaðið.
Ragù með pasta
- 500 gr pasta (ég var með lífrænt heilhveiti penne)
- 400 gr nautahakk
- 2 msk ólivuolía
- 1 laukur
- 4 dl grænmetiskraftur
- 120 gr Philadelphia vitlök & örter
- rifinn parmesan
- salt og pipar
Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pakkningu. Fínhakkið lauk og steikið í olíu þar til hann hefur fengið fallegan lit. Bætið nautahakkinu á pönnuna og steikið það vel. Hellið grænmetiskraftinum yfir og látið sjóða í 30 mínútur. Hrærið reglulega í pönnunni.
Blandið Philadelphia ostinum á pönnuna og smakkið til með pipar og salti. Blandið saman við pastað og hrærið vel saman. Berið fram með ferskrifnum parmesan osti.
Ein athugasemd á “Ragù með pasta”