Spaghetti Cacio E Pepe með klettasalati og sítrónu

Spaghetti Cacio E Pepe með klettasalati og sítrónu

Í byrjun árs gaf Chrissy Teigen út sína fyrstu matreiðslubók og í hreinskilni sagt hafði ég ekki hugmynd um hver manneskjan var fyrr en ég sá matreiðslubókina hennar dúkka upp sem nýjung á Amazon. Bókina keypti ég þó samstundis, enda var henni lofað víða, og ég verð að segja að það hefur verið gaman að skoða hana og hún hefur verið mjög fínt hilluskraut þetta ár.

Spaghetti Cacio E Pepe með klettasalati og sítrónu

Um daginn rakst ég fyrir tilviljun á instagram færslu hjá Crissy Teigen, sem Malín hefur upplýst mig um að er eiginkona John Legend, þar sem hún skrifaði að Spaghetti Cavio E Pepe væri vinsælasti rétturinn úr bókinni hennar og að hún vissi ekki um neinn sem væri ekki hrifin af honum. Þar með var forvitni mín vakin og ég ákvað að prófa að elda úr þessari æðislegu matreiðslubók sem ég varð svo nauðsynlega að eignast í upphafi árs.

Spaghetti Cacio E Pepe með klettasalati og sítrónu

Rétturinn var góður en svakalega sterkur! Mér leist ekkert á blikuna þegar ég settist niður og tók fyrsta bitann en hann var samt svo bragðgóður að við gátum ekki hætt að borða fyrr en rétturinn var búinn.  Ég mæli því með að fara varlega í piparinn og byrja á 1 teskeið. Ég bar réttinn fram með hvítlauksbrauði og hvítvíni, við vorum 4 í mat og allt kláraðist upp til agna. Stórgott!

Spaghetti Cacio E Pepe með klettasalati og sítrónu – uppskrift fyrir 4

  • Maldon salt
  • 340 g spaghetti (ósoðið)
  • 120 g beikon, skorið smátt
  • ¼ bolli  extra-virgin ólífuolía
  • 3 msk fínhakkaður hvítlaukur (uþb 4 stór hvítlauksrif)
  • 1 tsk rauðar piparflögur
  • 2 tsk nýmalaður svartur pipar (ég mæli með að byrja á 1 tsk!)
  • ¼ bolli ferskur sítrónusafi
  • 1 ½ bolli ný rifinn parmesan ostur
  • 3 bollar klettasalat

Sjóðið spaghetti í stórum potti með vel söltu vatni eftir leiðbeiningum á pakkningu. Takið frá 1 bolla af vatninu sem spaghettíið var soðið í, áður en vatninu er hellt af soðnu spaghettíinu.

Á meðan spaghettíið sýður er beikonið steikt yfir miðlungsháum hita þar til það er orðið stökkt (tekur um 7-9 mínútur). Bætið ólífuolíu á pönnuna ásamt hvítlauk, rauðum piparflögum og svörtum pipar og steikið í um 1 mínútu. Bætið sítrónusafa og spaghetti á pönnuna og hrisstið vel saman þannig að sósan dreifist um spaghettíið. Bætið parmesan ostinum saman við og blandið öllu vel saman, bætið spaghetti vatninu smátt og smátt út í þar til réttri áferð er náð. Bætið að lokum klettasalati saman við og blandið öllu vel saman í um 1 mínútu. Smakkið til með rauðum piparflögum, salti og pipar. Berið fram með ferskum parmesan osti.

 

 

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Við erum ósköp löt eftir þessa stuttu vinnuviku. Það er alltaf jafn erfitt að þurfa að vakna aftur og gera eitthvað af viti eftir svona góð frí. Í kvöld nennti ég ómöglega að standa í eldhúsinu en eins og svo oft áður langaði okkur samt í eitthvað gott.

Ég leitaði í smiðju Nigellu og fann þessa einföldu uppskrift sem reyndist bjargvættur okkar í kvöld. Og þvílík dásemd sem þessi réttur var. Með svona fáum hráefnum og lítilli fyrirhöfn voru væntingarnar ekki miklar og því kom skemmtilega á óvart hvað rétturinn reyndist góður. Strákarnir voru yfir sig hrifnir og eftir matinn báðu þeir mig um að elda réttinn fljótlega aftur. Það þarf ekki að vera flókið til að vera gott.

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

  • 2 msk hvítlauksólívuolía
  • 250 g beikon
  • 250 g spaghetti
  • steinselja (má sleppa)
  • ferskur parmesanostur (má sleppa)

Hitið ofninn í 240°.  Fyllið stóran pott af vatni og látið suðuna koma upp.

Setjið hvítlauksólívuolíu í botn á ofnskúffu eða eldföstu móti. Skerið beikon í bita og blandið saman við olíuna, reynið að láta hana þekja allt beikonið.

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Þegar vatnið byrjar að sjóða er spaghettíið sett í pottinn og beikonið sett í ofninn. Spaghettíið og beikonið þurfa svipaðan eldunartíma, ca 10 mínútur.

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Þegar spaghettíið er fullsoðið er 1 bolli af spaghettívatninu lagður til hliðar og restinni hellt af. Takið beikonið úr ofninum og bætið spaghettíinu í ofnskúffuna. Blandið vel saman og bætið spaghettívatninu sem var lagt til hliðar varlega saman við. Byrjið smeð smá og bætið við eftir þörfum.

Það er gott að bera réttinn fram með ferskri steinselju og ferskrifnum parmesan og mér þykir nauðsynlegt að mylja svartan pipar yfir hann.

Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu

Ragù með pasta

Eftir góðan endasprett í Berlín komum við heim klukkan þrjú í nótt. Við ætluðum ekki að trúa því þegar vekjaraklukkan hringdi í morgun og það var mikið þrekvirki að komast á fætur eftir allt of lítinn svefn. Dagurinn leið þó hratt og áður en ég vissi af var vinnudeginum lokið og ég farin að huga að kvöldmat.

Við Öggi vorum farin að þrá heimaeldaðan mat og ég ákvað að hafa hann einfaldan í kvöld. Það voru skiptar skoðanir um ágæti þessa rétts, við Malín voru ekkert yfir okkur hrifnar á meðan Ögga og strákunum þótti maturinn stórgóður og borðuðu á sig gat.

Kvöldinu ætlum við að eyða fyrir framan sjónvarpið í langþráðri afslöppun. Við keyptum okkur uppáhalds súkkulaðið okkar í Berlín og ætlum að gæða okkur á því. Ég get ekki hugsað mér neitt betra þessa stundina en sjónvarpssófann og súkkulaðið.

Ragù með pasta

  • 500 gr pasta (ég var með lífrænt heilhveiti penne)
  • 400 gr nautahakk
  • 2 msk ólivuolía
  • 1 laukur
  • 4 dl grænmetiskraftur
  • 120 gr Philadelphia vitlök & örter
  • rifinn parmesan
  • salt og pipar

Sjóðið pastað eftir leiðbeiningum á pakkningu. Fínhakkið lauk og steikið í olíu þar til hann hefur fengið fallegan lit. Bætið nautahakkinu á pönnuna og steikið það vel. Hellið grænmetiskraftinum yfir og látið sjóða í 30 mínútur. Hrærið reglulega í pönnunni.

Blandið Philadelphia ostinum á pönnuna og smakkið til með pipar og salti.  Blandið saman við pastað og hrærið vel saman. Berið fram með ferskrifnum parmesan osti.