Í byrjun árs gaf Chrissy Teigen út sína fyrstu matreiðslubók og í hreinskilni sagt hafði ég ekki hugmynd um hver manneskjan var fyrr en ég sá matreiðslubókina hennar dúkka upp sem nýjung á Amazon. Bókina keypti ég þó samstundis, enda var henni lofað víða, og ég verð að segja að það hefur verið gaman að skoða hana og hún hefur verið mjög fínt hilluskraut þetta ár.
Um daginn rakst ég fyrir tilviljun á instagram færslu hjá Crissy Teigen, sem Malín hefur upplýst mig um að er eiginkona John Legend, þar sem hún skrifaði að Spaghetti Cavio E Pepe væri vinsælasti rétturinn úr bókinni hennar og að hún vissi ekki um neinn sem væri ekki hrifin af honum. Þar með var forvitni mín vakin og ég ákvað að prófa að elda úr þessari æðislegu matreiðslubók sem ég varð svo nauðsynlega að eignast í upphafi árs.
Rétturinn var góður en svakalega sterkur! Mér leist ekkert á blikuna þegar ég settist niður og tók fyrsta bitann en hann var samt svo bragðgóður að við gátum ekki hætt að borða fyrr en rétturinn var búinn. Ég mæli því með að fara varlega í piparinn og byrja á 1 teskeið. Ég bar réttinn fram með hvítlauksbrauði og hvítvíni, við vorum 4 í mat og allt kláraðist upp til agna. Stórgott!
Spaghetti Cacio E Pepe með klettasalati og sítrónu – uppskrift fyrir 4
- Maldon salt
- 340 g spaghetti (ósoðið)
- 120 g beikon, skorið smátt
- ¼ bolli extra-virgin ólífuolía
- 3 msk fínhakkaður hvítlaukur (uþb 4 stór hvítlauksrif)
- 1 tsk rauðar piparflögur
- 2 tsk nýmalaður svartur pipar (ég mæli með að byrja á 1 tsk!)
- ¼ bolli ferskur sítrónusafi
- 1 ½ bolli ný rifinn parmesan ostur
- 3 bollar klettasalat
Sjóðið spaghetti í stórum potti með vel söltu vatni eftir leiðbeiningum á pakkningu. Takið frá 1 bolla af vatninu sem spaghettíið var soðið í, áður en vatninu er hellt af soðnu spaghettíinu.
Á meðan spaghettíið sýður er beikonið steikt yfir miðlungsháum hita þar til það er orðið stökkt (tekur um 7-9 mínútur). Bætið ólífuolíu á pönnuna ásamt hvítlauk, rauðum piparflögum og svörtum pipar og steikið í um 1 mínútu. Bætið sítrónusafa og spaghetti á pönnuna og hrisstið vel saman þannig að sósan dreifist um spaghettíið. Bætið parmesan ostinum saman við og blandið öllu vel saman, bætið spaghetti vatninu smátt og smátt út í þar til réttri áferð er náð. Bætið að lokum klettasalati saman við og blandið öllu vel saman í um 1 mínútu. Smakkið til með rauðum piparflögum, salti og pipar. Berið fram með ferskum parmesan osti.