Við erum ósköp löt eftir þessa stuttu vinnuviku. Það er alltaf jafn erfitt að þurfa að vakna aftur og gera eitthvað af viti eftir svona góð frí. Í kvöld nennti ég ómöglega að standa í eldhúsinu en eins og svo oft áður langaði okkur samt í eitthvað gott.
Ég leitaði í smiðju Nigellu og fann þessa einföldu uppskrift sem reyndist bjargvættur okkar í kvöld. Og þvílík dásemd sem þessi réttur var. Með svona fáum hráefnum og lítilli fyrirhöfn voru væntingarnar ekki miklar og því kom skemmtilega á óvart hvað rétturinn reyndist góður. Strákarnir voru yfir sig hrifnir og eftir matinn báðu þeir mig um að elda réttinn fljótlega aftur. Það þarf ekki að vera flókið til að vera gott.
Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu
- 2 msk hvítlauksólívuolía
- 250 g beikon
- 250 g spaghetti
- steinselja (má sleppa)
- ferskur parmesanostur (má sleppa)
Hitið ofninn í 240°. Fyllið stóran pott af vatni og látið suðuna koma upp.
Setjið hvítlauksólívuolíu í botn á ofnskúffu eða eldföstu móti. Skerið beikon í bita og blandið saman við olíuna, reynið að láta hana þekja allt beikonið.
Þegar vatnið byrjar að sjóða er spaghettíið sett í pottinn og beikonið sett í ofninn. Spaghettíið og beikonið þurfa svipaðan eldunartíma, ca 10 mínútur.
Þegar spaghettíið er fullsoðið er 1 bolli af spaghettívatninu lagður til hliðar og restinni hellt af. Takið beikonið úr ofninum og bætið spaghettíinu í ofnskúffuna. Blandið vel saman og bætið spaghettívatninu sem var lagt til hliðar varlega saman við. Byrjið smeð smá og bætið við eftir þörfum.
Það er gott að bera réttinn fram með ferskri steinselju og ferskrifnum parmesan og mér þykir nauðsynlegt að mylja svartan pipar yfir hann.
5 athugasemdir á “Spaghettí með ofnbökuðu beikoni í hvítlauksolíu”