Hindberjabaka með hvítu súkkulaði og möndluflögum

Í tilefni þess að þessi færsla er sú hundraðasta hér á blogginu ákvað ég að líta yfir farinn veg og benda á þrjár uppskriftir sem eru í uppáhaldi hjá mér.

Súkkulaði- og bananabakan kemur fyrst upp í hugann enda er það baka sem mig langar stöðugt í. Hún er með vanillukremi, bönunum, súkkulaðikremi og rjóma og það hljóta allir að átta sig á hversu dásamleg hún er.

Sá réttur sem ég tilnefni næst er kjúklingasúpan með ferskjunum. Ég hreinlega elska þessa súpu og gæti borðað hana í öll mál.

Ég er að átta mig á hversu erfitt mér þykir að velja þrjár uppskriftir. Ég á enn eftir að minnast á mexíkósku kjúklingabökuna, bananabrauðið og Silviukökuna. Ég get þó ekki sleppt því að telja upp brauðið sem ég hef bakað svo oft að það er ótrúlegt að við skulum ekki vera komin með leið á því. Þó að múslíið sem ég gaf uppskrift af í Fréttablaðinu sé komið í harða samkeppni við brauðið á morgnanna þá ætla ég að gefa brauðinu vinninginn, þar sem það hefur fylgt okkur svo lengi.

Ögga fannst við hæfi að fagna hundruðustu bloggfærslunni og mér leist stórvel á hugmyndina. Það fór svo að ég bauð fjölskyldunni upp á heita hindberjaböku með hvítu súkkulaði og möndluflögum og vanilluís með kvöldkaffinu við mikinn fögnuð viðstaddra. Við gætum vel vanist þessu á hverju kvöldi og ég deili uppskriftinni með ykkur af mikilli gleði.

Það vildi svo heppilega til að mamma leit við í miðjum fagnaðarlátum og ég náði að bjóða henni upp á nýbakaða hindberjabökuna og ís. Hún kom færandi hendi sem okkur þótti sérlega skemmtilegt á þessu bloggfærslu-afmæli. Í pakkanum leyndist æðislega fallegur glaðingur frá Le Creuset.

Hindberjabaka með hvítu súkkulaði og möndluflögum

  • 1 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 125 gr smjör
  • 4-5 dl frosin hindber (eða önnur ber)
  • 1 msk kartöflumjör
  • 3 msk sykur
  • 100 gr hvítt súkkulaði
  • 50 gr möndluflögur

Hitið ofninn í 200°. Blandið sykri og hveiti í skál og bætið smjörinu í teningum saman við. Klípið saman í grófan mulning og þrýstið í botninn á bökuformi. Blandið hindberjunum saman við kartöflumjölið og sykurinn og setjið blönduna yfir bökubotninn. Rífið hvítt súkkulaði og stráið yfir berin. Dreifið möndluflögum yfir og bakið í miðjum ofni í 20-25 mínútur, eða þar til bakan hefur fengið fallegan lit.

Berið fram með ís eða rjóma.

 

4 athugasemdir á “Hindberjabaka með hvítu súkkulaði og möndluflögum

  1. settiru alla uppskriftina í mörg svona lítil eða passar þessi uppskrift í 1 svona lítið?:)

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s