Við erum búin að vera í góðu yfirlæti um helgina og ég hef varla stigið fæti inn í eldhúsið. Á föstudagskvöldinu vorum við í mat hjá mömmu og í gærkvöldi hjá tengdó. Algjört lúxuslíf á okkur.
Í kvöld var þó engin sem bauð okkur í mat og ég eldaði cajun-kjúklingapasta að beiðni Jakobs. Hann er mesti matgæðingurinn af börnunum og hefur frábæran matarsmekk. Hann myndi seint sætta sig við ristað brauð með osti eða skinku í morgunmat heldur smyr brauðið sitt með pestó eða dijon sinnepi. Hann elskar mygluosta og mesta dekur sem hann getur hugsað sér er að fara á Noodle station á Skólavörðustígnum þar sem hann pantar sér sterka núðlusúpu. Jakob er alltaf mættur í eldhúsið til mín til að smakka á sósum þegar ég er að elda og það er frábært að fylgjast með honum á meðan hann smakkar þær til.
Og það var engin annar en Jakob sem fann uppskriftina að þessu cajun kjúklingapasta og bað mig um að elda það. Ég hafði verið að skoða skinnytaste síðuna á netinu og þegar ég hætti í tölvunni fór Jakob að skoða síðuna. Hann sá þá uppskriftina sem honum fannst við verða að prófa. Ég breytti uppskriftinni lítillega og notaði það sem ég átti í skápunum.
Cajun kjúklingapasta
- 225 gr tagliatelle
- 700 gr kjúklingabringur
- 1-2 tsk cajun krydd
- 1 msk ólívuolía
- 1 rauð paprika, skorin í þunnar sneiðar
- 1 gul paprika, skorin í þunnar sneiðar
- 1 rauðlaukur
- 3 hvítlauksrif
- 2 tómatar, skornir í bita
- 1 bolli kjúklingasoð (vatn og kjúklingateningur)
- 1/3 bolli mjólk
- 1 msk hveiti
- 3 msk rjómaostur
- nýmalaður pipar
- salt
Blandið saman hveiti, rjómaosti og mjólk í matvinnsluvél eða með töfrasprota og leggið til hliðar.
Skerið grænmetið niður og leggið til hliðar. Skerið kjúklingabringurnar í strimla og kryddið með cajun-kryddi. Hitið ólívuolíu á pönnun og steikið kjúklingabringurnar. Kryddið með hvítlaukskryddi, salti og cajun-kryddi. Leggið til hliðar.
Bætið meiri ólívuolíu á pönnuna og mýkjið paprikurnar og rauðlaukinn við miðlungsháan hita, ca 3-4 mínútur. Bætið tómötunum og hvítlauknum á pönnuna og steikið áfram í 2-3 mínútur. Bætið mjólkurblöndunni, kjúklingasoðinu og kjúklingabringunum á pönnuna og látið allt sjóða saman um stund. Smakkið til með salti og pipar.
Sjóðið tagliatelle samkvæmt leiðbeiningum á pasta. Berið réttinn fram með pasta og hvítlauksbrauði.
girnilegt pasta hjá þér! 🙂 ég var leita að uppskriftum af nautakjöti eða lambakjöti á síðuni þinni en fann enga. ertu með svoleðis uppskriftir eða kannski borðar þú ekki dökt kjöt?
Sæl Anna.
Ég hef ekki mikið spáð í það en það er eflaust rétt hjá þér að ég er lítið með dökkt kjöt. Ég kaupi sjaldan lambakjöt og nautakjöt, fyrir utan nautahakk og hamborgara, en það er engin sérstök ástæða fyrir því.
Bestu kveðjur,
Svava.
Er þetta cajun pipar eða ?