Ég hélt því fram í gær að ég hefði varla stigið fæti inn í eldhúsið um helgina en ég var þá búin að steingleyma að ég bakaði brownies á laugardeginum og tók með í matarboðið um kvöldið. Ég bakaði þær bara af forvitni því ég hafði séð uppskriftina á Smitten Kitchen þar sem Deb, sem heldur úti Smitten Kitchen, sagði að þetta væru hennar uppáhalds brownies.
Ég held að það sé ekki annað hægt en að elska Smitten Kitchen. Það eru svo girnilegar uppskriftir þar og þegar Deb segir að eitthvað sé í uppáhaldi hjá henni þá hreinlega verð ég að prófa það. Það er nákvæmlega það sem gerðist með þessar brownies, ég hef aldrei smakkað vondar brownies en ef þessar voru í uppáhaldi þá hlytu þær að vera guðdómlegar. Ég gat því ekki annað en bakað þær.
Þessar brownies voru auðvitað góðar, það vissi ég áður en ég bakaði þær. Græðgin var svo mikil að ég hugsaði ekki einu sinni út í það að hafa ís, rjóma eða ber með en það hefði verið enn betra. Það er örugglega líka gott að skera þær í litla bita og geyma inni í ískáp og geta fengið sér eins og súkkulaðimola. Ég hefði gert það ef ég hefði átt afgang.
Brownies
- 85 gr dökkt súkkulaði (ég notaði síríus suðusúkkulaði en súkkulaði með meira kakóinnihaldi er jafnvel betra)
- 115 gr ósaltað smjör
- 265 gr sykur
- 2 egg
- 1 tsk vanillusykur
- 1/2 tsk maldon salt (eða 1/4 tsk borðsalt)
- 85 gr hveiti
Hitið ofninn í 175°. Klæðið 20×20 cm form með bökunarpappír og smyrjið bökunarpappírinn.
Bræðið súkkulaði og smjör saman í potti. Takið pottinn af hitanum og hrærið sykri, eggjum (einu í einu), vanillusykri og salti saman við. Blandið hveiti saman við með skeið eða sleikju og skrapið vel niður með hliðunum. Hellið deiginu í bökunarformið og dreifið úr deiginu um formið. Bakið í 25-30 mínútur eða þar til prjóni stungið í kökuna kemur hreinn upp.
Látið kökuna kólna og skerið í bita.
Þú er algjörlega með þetta Svava mín, girnilegt og glæsilegt.
kv. Helga P
Ég er að spá í að gera þessa uppskrift fyrir komandi veislu þar sem fjöldi fólks verður um 40-50 manns. Því var ég að spá í fyrir hversu marga þessi uppskrift er og hversu stóra uppskrift þú mælir með fyrir þennan fjölda?
Takk fyrir frábæra síðu 🙂
Sæl Svala.
Það er svolítið erfitt að segja. Ertu að hugsa hana sem eftirrétt eða á kökuborð? Verða fleiri kökur? Ég skar kökuna í 16 sneiðar og miðað við það ættu 3-4 kökur að passa. Afganginn má síðan frysta og njóta síðar.
Bestu kveðjur,
Svava.
Ég gerði þessar með kaffinu áðan, þær voru mjög sætar og góðar! Takk!
Sæl er að spá í sykurmagninu í þessum kökum – væri í lagi að helminga sykurinn ?
mmmmmm
Bestu kökur sem ég hef smakkað!
Geri þær alltaf þegar ég á að koma með eftirrétt – alltaf jafn vinsælt