Þegar við bjuggum í Svíþjóð var ég áskrifandi af sænska Séð og heyrt. Ég þóttist læra heilmikla sænsku af því að lesa blaðið og taldi áskriftina því nauðsynlega fyrir mig. Ég þakka blaðinu enn þann dag í dag fyrir sænskukunnáttu mína, mikið frekar en háskólanáminu sem ég stundaði, enda las ég blaðið bæði oftar og betur en námsbækurnar.
Á þessum tíma var söngvari og leikari að nafni Markoolio í miklu uppáhaldi hjá Malínu. Við fengum að hlusta á lögin hans daginn út og inn og þegar leikritið Kalli á þakinu var sett upp með Markoolio í aðalhlutverki þá kom ekkert annað til greina en að æða í leikhús til að bera goðið augum. Ég held að ég hafi aldrei séð jafn skemmtilega leiksýningu, enda smituð af gleðinni frá Malínu.
Á þessu Markoolio-tímabili Malínar var þáttur í Séð og heyrt þar sem fræga fólkið gaf uppáhalds uppskriftina sína. Þetta átti nú heldur betur við mig og það fyrsta sem ég gerði þegar blaðið kom í hús var að kíkja á uppskrift vikunnar. Það vildi síðan svo skemmtilega til að eina vikuna gaf Markoolio uppáhalds uppskriftina sína í Séð og heyrt, Makkarónuskúffu Markoolio. Þetta varð strax uppáhalds matur Malínar og ég eldaði hann lengi vel í hverri viku.
Þegar við fluttum aftur heim til Íslands féll þessi réttur í gleymsku og þegar ég ætlaði að fara að gera hann aftur þá var ég búin að gleyma uppskriftinni. Ég hef reglulega leitað að henni á netinu án árangurs en um daginn fann ég hana á gömlu bloggi sem Markoolio hafði haldið úti.
Malín varð svo ánægð þegar ég sagði henni að uppskriftin að makkarónuskúffu Markoolio væri fundin og beið spennt eftir að ég eldaði réttinn. Í kvöld lét ég verða af því og vakti rétturinn ekki minni lukku hjá börnunum í kvöld en á árum áður.
Uppskriftin er ofureinföld og um að gera að bæta t.d. beikoni eða lauk í hana og krydda nautahakkið með spennandi kryddum. Eins þykir okkur gott að hafa kartöflumús með réttinum en í kvöld létum við salat nægja.
Markoolios makkarónuskúffa
- 4 dl makkarónur
- 500 gr nautahakk
- 2 egg
- 5 dl mjólk
- 2 teningar kjötkraftur
- rifinn ostur
Hitið ofninn í 180° og smyrjið eldfast mót með smjöri. Sjóðið makkarónurnar þar til þær eru hálfsoðnar. Steikið nautahakk og kryddið með salti og pipar. Blandið nautahakkinu og makkarónunum saman og leggið í eldfasta mótið. Hrærið saman eggjunum og mjólkinni og hellið yfir eldfasta mótið. Sjóðið 2-3 dl af vatni og setjið teningana í. Látið sjóða þar til teningarnir hafa leysts upp og hellið þá vatninu í eldfasta mótið. Blandið öllu vel saman í eldfasta mótinu og stráið síðan ostinum yfir. Setjið réttinn í ofninn og bakið þar til osturinn er kominn með fallegan lit.
Berið réttinn fram með tómatsósu og salati.
Makkarónuskúffan er ekki síðri daginn eftir, að hita hana upp í ofni eða á pönnu og krydda með smá aromati.
Takk fyrir þessa, ég ætla að prófa hana í vikunni, dóttir mín er sjúk í makkarónur og þetta hljómar einfalt og gott 🙂
Skemmtileg færsla og spennandi réttur. Mun örugglega prófa þetta, sérstaklega ef barnabörnin eru í heimsókn….og þá með kartöflumúsi Það er örugglega toppurinn.
Knús í bæinn,
amma Malín.
Er ekkert nauðsynlegt að eggin bakist, eins og í bökum?
Eggin bakast í ofninum.
Takk takk, frábærlega einfalt og lystugt. Er búin að prófa og eggjamjólkursoðblandan bakaðist ekki en allir voru samt hrifnir…bætti samt við aukaeggi…þarf trúlega að hafa þetta lengur næst.
Gerði þennan girnilega rétt í kvöld, allt mjög einfalt og gott 🙂 En á vera svona mikill vökvi í réttinum ?? Hann var mjög braggóður og ég setti meira að segja beikon …namm !!
Mér fannst þetta rosalega góður réttur en mér fannst þó svo mikill vökvi í réttinum þrátt fyrir að baka hann í 40 min. Á Það að vera þannig?
Þetta bragðast mjög vel og börnin elska þetta. Ég notaði heilhvetipasta í stað makkróna og það drakk í sig allan vökva. Í kvöld mun ég bæta beikoni við réttinn að ósk sonarins sem sagði það alveg vanta þegar hann bragðaði réttinn í fyrsta sinn.
Gerði þennan fyrir strákana mína um daginn og fannst okkur hann mjög góðu.
En áður en setti réttinn í ofninn fannst mér einmitt alltof mikill vökvi. Stilti á blástur og rétturinn var í svona 30-40 mín í ofninum og þá var allt eldað i gegn.