Gleðilegan þriðja í aðventu kæru lesendur. Hjá okkur stendur til að kaupa jólatréð í dag og síðan verðum við með þriðja aðventukaffið okkar. Það er orðið að miklu tilhlökkunarefni að fá heitt súkkulaði með rjóma og dásamlegar eplaskífurnar hér á sunnudögum. Í dag munu saffransnúðarnir einnig standa á borðum og svo auðvitað smákökurnar. Það er því full ástæða að hlakka til.
Matseðill vikunnar er í léttari kantinum, enda kannski full þörf á þegar jólavikan er handan við hornið. Ef þið hafið ekki eldað kjúklingasúpuna með ferskjunum þá hvet ég ykkur til að prófa hana. Hún er ó, svo góð og ekki síðri daginn eftir.
Mánudagur: Lax með mango chutney og pistasíuhnetum er enn eitt góðgætið sem ég fékk hjá mömmu. Æðislegur réttur!
Þriðjudagur: Makkarónuskúffa Markoolio er barnvænn réttur sem tekur stutta stund að gera. Það er um að gera að poppa réttinn upp ef vilji er fyrir hendi, t.d. með beikoni, papriku eða bragðmiklum osti. Krakkarnir mínir eru þó hæstánægð með réttinn eins og hann er.
Miðvikudagur: Mér þykir grænmetislasagna vera sniðugur leikur fyrir jólin og þessi uppskrift er ekki af verri endanum.
Fimmtudagur: Tælenskt kjúklingasalat sem er dásemdin ein.
Föstudagur: Himnesk kjúklingasúpa með ferskjum hefur verið í uppáhaldi hjá mér síðan ég smakkaði hana fyrst.
Með helgarkaffinu: Þar sem það er mikil matarveisla framundan með sætum eftirréttum í löngum röðum þá ætla ég að stinga upp á hollu og góðu brauði til að eiga um helgina. Þetta er það brauð sem ég baka oftast og finnst frábært að byrja dagana á vænni sneið.