Það hefur verið í nógu að snúast hér í kvöld og enginn tími gefist til að blogga fyrr en núna. Ég er búin að vera á leiðinni að gefa uppskrift að grænmetislasagna sem ég eldaði um daginn og krakkarnir eru svo hrifin af. Ég furða mig á því af hverju ég elda það ekki oftar því krakkarnir borða alltaf svo vel af því og það er svo gott að vita af öllu þessu grænmeti fara í þau.
Það sem mér þykir tímafrekast við að elda grænmetislasagna er að skera grænmetið niður en að þeirri vinnu lokinni tekur litla stund að klára eldamennskuna. Uppskriftin er stór og dugar okkur í tvær máltíðir.
Ég baka alltaf sama hvítlauksbrauðið með þessu grænmetislasagna og okkur þykir það alveg ómissandi með. Uppskriftin af því kemur á morgun því nú er Öggi farinn að bíða eftir mér. Við erum að fara að horfa á allra síðasta Fraiser þáttinn og spennan er í hámarki.
Grænmetislasagne
- 1 laukur
- 3 gulrætur
- 1 kúrbítur
- 200 g sveppir
- 200 g spergilkál
- 2-3 hvítlauksrif
- 1 dós niðursoðnir tómatar, saxaðir
- 2 litlar dósir tómatmauk
- 2 tsk oregano
- 2 tsk basil
- 2 grænmetisteningar
- salt og pipar
- 1 stór dós kotasæla
- 2-3 bollar vatn
- lasagneplötur
- rifinn ostur
Saxið laukinn, skerið kúrbítinn í bita og sneiðið gulræturnar og sveppina. Léttsteikið laukinn, kúrbítinn, gulræturnar og sveppina í ólívuolíu á pönnu og kryddið. Bætið niðursoðnum tómötum, tómatmauki, vatni og teningum á pönnuna og látið sjóða í 30 mínútur. Á meðan er spergilkálið skorið í bita og léttsoðið. Bætið því á pönnuna í lokin.
Smyrjið eldfast mót og setjið grænmetissósu í botninn, þá lasagnaplötur, kotasælu, aftur grænmetissósu og svo koll af kolli. Endið á að strá vel af rifnum osti yfir. Bakið við 180° í um 40 mínútur.
Mjög gott.
Hvernig grænmetissósu notar þú?
Ég nota enga grænmetissósu, bara niðursoðna tómata sem ég krydda.
Kveðja, Svava.
Mmmm… Rosalega gott 🙂
Þetta er rosalega girnileg uppskrift en ég er með eina spurningu: hvernig lasagnaplötur notar þú, ferskar eða þurrkaðar?
Ég nota oftast þurrkaðar en það er nú bara af því að ég á þær alltaf til. Ferskar eru eflaust betri 🙂
Hæhæ, er alltaf að gera þetta! Algjört æði! En smá pæling, í hvaða röð gerir þú þetta, eða semsagt ofan á hvað setur þú ostinn?
Ég set ostinn yfir grænmetissósuna en það er eflaust líka gott að setja hann yfir kotasæluna 🙂
Sent from my iPhone
>
Þakka þér fyrir allar þessar dásamlegu uppskriftir, ég elda eingöngu grænmetismat og finn alltaf eitthvað girnilegt hjá þér. Ein spurning, hvað heldur þú að þessi uppskrift af gænmetislasagna-inu sé fyrir marga? Ég þarf að elda fyrir 30 manns og var að hugsa um að 5 falda uppskriftina, er það ekki nokkuð nærri lagi? Ég vil auðvitað frekar hafa aðeins meira en minna.
Kærar kveðjur,
Margrét
Gaman að heyra að uppskriftirnar nýtist þér 🙂 Ég myndi halda að það passi mjög vel að 5 falda uppskriftina. Hún er bæði stór og matarmikil.
Sent from my iPhone
>
Þakka þér fyrir svarið, það er svo lítið mál að sleppa kjöt eða fiski og nota grænmeti í staðinn. Uppáhalds uppskriftin frá þér er tómatsúpan með basiliku, hún er guðdómleg 😊
Ótrúlega gott lasagna. Skar grænmetið agnarsmátt til að lauma þessu ofan í barn sem fúlsar við grænmeti. Barnið borðaði með bestu lyst og fattaði ekki einu sinni að þetta væri grænmetislasagna 🙂 Notaði spínatlasagnaplötur frá Barilla sem eru mjög góðar.