Grænmetislasagna

Ég er að reyna að hætta sem styrktaraðili líkamsrætarstöðvar og er byrjuð að mæta í tíma þar. Það gengur svona og svona. Ég ætlaði að mæta tvisvar í síðustu viku en fékk svo hræðilegar harðsperrur strax eftir mánudagstímann að ég gat varla hreyft mig fyrr en undir lok vikunnar. Ég gat því gleymt því að mæta í annann tíma þá vikuna. Það sama var vikuna á undan, þá mætti ég bara í einn tíma. Í gær mætti ég aftur til leiks og hræddist svo að harðsperrufíaskó síðustu viku myndi endurtaka sig að ég þorði varla að taka á því. Það virðist hafa virkað því dagurinn í dag var alveg bærilegur.

Í þessu líkamsræktarátaki (…ef átak má kalla þegar mætt er einu sinni í viku og svo legið eins og skata það sem eftir er af vikunni) hef ég reynt að skipuleggja kvöldmatinn þannig að ég elda eitthvað fljótlegt þá daga sem ég fer í ræktina og gef mér meiri tíma í eldhúsinu hin kvöldin. Á sunnudaginn útbjó ég því grænmetislasagna sem átti bara eftir að fara í ofninn þegar ég kom heim úr ræktinni í gær. Uppskriftin varð svo stór að ég gat haft það aftur í matinn í kvöld og sett í nestisbox fyrir morgundaginn. Lasagnað var æðislega gott og ég gat ekki betur séð en að allir hafi verið ánægðir með að borða það aftur í kvöld.

Grænmetislasagna – uppskrift fyrir 8-10

Tómatsósan:

 • 2 gulir laukar
 • 1/2 rautt chili
 • 1 dl ólífuolía
 • 4 hvítlauksrif
 • 2 dósir hakkaðir tómatar
 • 2 dl vatn
 • 1,5 grænmetisteningur
 • 20 snúningar á piparkvörn
 • 1-2 msk sykur

Afhýðið og fínhakkið laukinn og fínhakkið chilíið (hafið fræin með). Hitið olíuna í þykkbotna potti og steikið lauk, chilí og hvítlauk í nokkrar mínútur. Laukurinn og hvítlaukurinn eiga að mýkjast án þess að brúnast. Bætið hökkuðum tómötum, vatni og grænmetisteningum út í og látið sjóða saman við lágan eins lengi og tími gefst. Kryddið með pipar og sykri.

Ostasósa

 • 75 g smjör
 • 1 ½ dl hveiti
 • 1 líter mjólk
 • 1 tsk salt
 • ½ – 1 tsk hvítur pipar
 • 1/8 tsk  múskat
 • 1/8 tsk cayenne pipar
 • 180 g krydd havarti

Bræðið smjörið í þykkbotna potti. Hrærið hveitinu saman við smjörið og hrærið síðan mjólkinni smátt og smátt saman við. Passið að hrærið allan tímann í pottinum svo brenni ekki við. Hrærið kryddum út í og látíð sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Takið pottinn af hitanum og hrærið rifnum ostinum út í.

Spínatfylling

 • 2 gulir laukar
 • 500 g spínat
 • 50 g smjör
 • ¼ tsk salt
 • 6 snúningar á piparkvörn
 • ½ tsk múskat

Afhýðið laukinn og skerið í hálfmána. Bræðið smjör á pönnu og steikið laukinn við vægan hita þar til hann er mjúkur. Kryddið. Bætið spínatinu á pönnuna og steikið áfram þar til spínatið er orðið mjúkt.

 • 2 kúrbítar
 • 250 g mozzarella
 • 100 g parmesan
 • 500 g ferskar lasagnaplötur (eða þurrkaðar)

Skerið kúrbítinn á lengdina með ostaskera í örþunnar sneiðar. Rífið mozzarellaostinn og fínrífið parmesanostinn.

Samsetning:

Smyrjið botn á stóru eldföstu móti með smá ólífuolíu. Setjið ¼ af ostasósu í botninn, leggið lasagnaplötur yfir, setjið helminginn af tómatsósunni yfir, síðan allan kúrbítinn (leggið sneiðarnar yfir hvora aðra), helminginn af mozzarellaostinum og helminginn af parmesanostinum, kryddið með svörtum pipar, setjið ¼ af ostasósunni yfir, lasagnaplötur, alla spínatblönduna, seinni helminginn af parmesanostinum, ¼ af ostasósunni, kryddið með svörtum pipar, lasagnaplötur, það sem eftir er af tómatsósunni og það sem eftir er af ostasósunni. Setjið í 175° heitann ofn í 20 mínútur, setjið þá það sem eftir var af mozzarellaostinum yfir og bakið áfram þar til osturinn er bráðnaður.

Grænmetislasagna

Grænmetislasagne

Það hefur verið í nógu að snúast hér í kvöld og enginn tími gefist til að blogga fyrr en núna. Ég er búin að vera á leiðinni að gefa uppskrift að grænmetislasagna sem ég eldaði um daginn og krakkarnir eru svo hrifin af. Ég furða mig á því af hverju ég elda það ekki oftar því krakkarnir borða alltaf svo vel af því og það er svo gott að vita af öllu þessu grænmeti fara í þau.

Það sem mér þykir tímafrekast við að elda grænmetislasagna er að skera grænmetið niður en að þeirri vinnu lokinni tekur litla stund að klára eldamennskuna. Uppskriftin er stór og dugar okkur í tvær máltíðir.

Ég baka alltaf sama hvítlauksbrauðið með þessu grænmetislasagna og okkur þykir það alveg ómissandi með. Uppskriftin af því kemur á morgun því nú er Öggi farinn að bíða eftir mér. Við erum að fara að horfa á allra síðasta Fraiser þáttinn og spennan er í hámarki.

Grænmetislasagne

Grænmetislasagne

 • 1 laukur
 • 3 gulrætur
 • 1 kúrbítur
 • 200 g sveppir
 • 200 g spergilkál
 • 2-3 hvítlauksrif
 • 1 dós niðursoðnir tómatar, saxaðir
 • 2 litlar dósir tómatmauk
 • 2 tsk oregano
 • 2 tsk basil
 • 2 grænmetisteningar
 • salt og pipar
 • 1 stór dós kotasæla
 • 2-3 bollar vatn
 • lasagneplötur
 • rifinn ostur

Saxið laukinn, skerið kúrbítinn í bita og sneiðið gulræturnar og sveppina. Léttsteikið laukinn, kúrbítinn, gulræturnar og sveppina í ólívuolíu á pönnu og kryddið. Bætið niðursoðnum tómötum, tómatmauki, vatni og teningum á pönnuna og látið sjóða í 30 mínútur. Á meðan er spergilkálið skorið í bita og léttsoðið. Bætið því á pönnuna í lokin.

Smyrjið eldfast mót og setjið grænmetissósu í botninn, þá lasagnaplötur, kotasælu, aftur grænmetissósu og svo koll af kolli.  Endið á að strá vel af rifnum osti yfir. Bakið við 180° í um 40 mínútur.