Grænmetislasagna

Ég er að reyna að hætta sem styrktaraðili líkamsrætarstöðvar og er byrjuð að mæta í tíma þar. Það gengur svona og svona. Ég ætlaði að mæta tvisvar í síðustu viku en fékk svo hræðilegar harðsperrur strax eftir mánudagstímann að ég gat varla hreyft mig fyrr en undir lok vikunnar. Ég gat því gleymt því að mæta í annann tíma þá vikuna. Það sama var vikuna á undan, þá mætti ég bara í einn tíma. Í gær mætti ég aftur til leiks og hræddist svo að harðsperrufíaskó síðustu viku myndi endurtaka sig að ég þorði varla að taka á því. Það virðist hafa virkað því dagurinn í dag var alveg bærilegur.

Í þessu líkamsræktarátaki (…ef átak má kalla þegar mætt er einu sinni í viku og svo legið eins og skata það sem eftir er af vikunni) hef ég reynt að skipuleggja kvöldmatinn þannig að ég elda eitthvað fljótlegt þá daga sem ég fer í ræktina og gef mér meiri tíma í eldhúsinu hin kvöldin. Á sunnudaginn útbjó ég því grænmetislasagna sem átti bara eftir að fara í ofninn þegar ég kom heim úr ræktinni í gær. Uppskriftin varð svo stór að ég gat haft það aftur í matinn í kvöld og sett í nestisbox fyrir morgundaginn. Lasagnað var æðislega gott og ég gat ekki betur séð en að allir hafi verið ánægðir með að borða það aftur í kvöld.

Grænmetislasagna – uppskrift fyrir 8-10

Tómatsósan:

  • 2 gulir laukar
  • 1/2 rautt chili
  • 1 dl ólífuolía
  • 4 hvítlauksrif
  • 2 dósir hakkaðir tómatar
  • 2 dl vatn
  • 1,5 grænmetisteningur
  • 20 snúningar á piparkvörn
  • 1-2 msk sykur

Afhýðið og fínhakkið laukinn og fínhakkið chilíið (hafið fræin með). Hitið olíuna í þykkbotna potti og steikið lauk, chilí og hvítlauk í nokkrar mínútur. Laukurinn og hvítlaukurinn eiga að mýkjast án þess að brúnast. Bætið hökkuðum tómötum, vatni og grænmetisteningum út í og látið sjóða saman við lágan eins lengi og tími gefst. Kryddið með pipar og sykri.

Ostasósa

  • 75 g smjör
  • 1 ½ dl hveiti
  • 1 líter mjólk
  • 1 tsk salt
  • ½ – 1 tsk hvítur pipar
  • 1/8 tsk  múskat
  • 1/8 tsk cayenne pipar
  • 180 g krydd havarti

Bræðið smjörið í þykkbotna potti. Hrærið hveitinu saman við smjörið og hrærið síðan mjólkinni smátt og smátt saman við. Passið að hrærið allan tímann í pottinum svo brenni ekki við. Hrærið kryddum út í og látíð sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Takið pottinn af hitanum og hrærið rifnum ostinum út í.

Spínatfylling

  • 2 gulir laukar
  • 500 g spínat
  • 50 g smjör
  • ¼ tsk salt
  • 6 snúningar á piparkvörn
  • ½ tsk múskat

Afhýðið laukinn og skerið í hálfmána. Bræðið smjör á pönnu og steikið laukinn við vægan hita þar til hann er mjúkur. Kryddið. Bætið spínatinu á pönnuna og steikið áfram þar til spínatið er orðið mjúkt.

  • 2 kúrbítar
  • 250 g mozzarella
  • 100 g parmesan
  • 500 g ferskar lasagnaplötur (eða þurrkaðar)

Skerið kúrbítinn á lengdina með ostaskera í örþunnar sneiðar. Rífið mozzarellaostinn og fínrífið parmesanostinn.

Samsetning:

Smyrjið botn á stóru eldföstu móti með smá ólífuolíu. Setjið ¼ af ostasósu í botninn, leggið lasagnaplötur yfir, setjið helminginn af tómatsósunni yfir, síðan allan kúrbítinn (leggið sneiðarnar yfir hvora aðra), helminginn af mozzarellaostinum og helminginn af parmesanostinum, kryddið með svörtum pipar, setjið ¼ af ostasósunni yfir, lasagnaplötur, alla spínatblönduna, seinni helminginn af parmesanostinum, ¼ af ostasósunni, kryddið með svörtum pipar, lasagnaplötur, það sem eftir er af tómatsósunni og það sem eftir er af ostasósunni. Setjið í 175° heitann ofn í 20 mínútur, setjið þá það sem eftir var af mozzarellaostinum yfir og bakið áfram þar til osturinn er bráðnaður.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s