Svepparisotto

Ég er búin að vera í Boston síðan 3. janúar og það styttist í heimför. Eins og það er mikið af góðum mat í Ameríku þá get ég ekki beðið eftir að komast aftur í eldhúsið mitt. Ég er búin að fá mig fullsadda af dísæta hafragrautnum á McDonalds í morgunmat (McDonalds er innangengt af hótelinu) og skyndibita í flest mál. Það verður gott að fá morgunmat og nespresso heima og góðan fisk í kvöldmat.

Ég var að fara í gegnum myndirnar í tölvunni og þegar ég sá þessar þá rifjaðist upp fyrir mér að ég átti alltaf eftir að setja risottouppskriftina inn. Ég birti mynd af því á Instagram fyrir lifandis löngu og lofaði uppskriftinni í nokkrum skilaboðum sem mér bárust í kjölfarið.

Þegar við Gunnar vorum í Stokkhólmi síðasta sumar pantaði hann sér svepparisotto á Vapiano veitingastaðnum. Honum þótti það svo gott að ég mátti til með að prófa að elda það heima. Uppskriftina hafði ég rifið úr Morgunblaðinu fyrir löngu en hún kemur frá Mathúsi Garðabæjar. Þeir segja að uppskriftin sé fyrir 4-6 en við munum gera stærri uppskrift næst því okkur þótti hún í varla duga fyrir okkur fimm.

Risotto – uppskrift frá Mathúsi Garðabæjar

  • 200 g risotto-grjón
  • 25 g skalotlaukur
  • 500 ml kjúklingasoð
  • 100 g flúðasveppir
  • 20 g villisveppir
  • 50 g parmesan
  • 50 ml rjómi
  • salt og pipar

Brúnið laukinn létt í potti eða pönnu og setjið grjónin svo út í ásamt kjúklingasoðinu og sjóðið þar til þau verða léttelduð eða í um 10 mínútur. Brúnið næst sveppina á sér pönnu og setjið svo út í grjónin ásamt rjómanum og rifnum parmesan. Smakkið til með salti og pipar.

Sætkartöflu, kjúklingabauna og spínatkarrý

Á morgun byrja ég aftur að vinna eftir þriggja vikna sumarfrí. Ég á enn smá frí eftir sem ég ætla að eiga í vetur. Það bíður Londonferð í haust og útskrift sem þarf að undirbúa þannig að það verður gott að eiga frí inni. Ég ætlaði ekki að vera svona ódugleg hér á blogginu í fríinu en það gafst satt að segja ekki færi á að blogga þar sem ég fór bæði til Stokkhólms og stóð í framkvæmdum hér heima, sem tóku aðeins meiri tíma en ég gerði ráð fyrir. Núna er þó allt klárt og ég er svo þakklát fyrir það. Vil helst bara vera hér heima að dunda mér og fór varla út úr húsi alla helgina.

Ég borða nánast alltaf það sama í vinnunni, bollasúpu og hrökkbrauð með hummus. Ég fæ ekki leið á því en samt, hversu óspennandi?!? Inn á milli tek ég mig þó til og elda eitthvað hollara og betra, sem ég síðan frysti í nestisboxum þannig að ég geti gripið box með mér á morgnana. Þar sem grænmetisréttir vekja yfirleitt litla lukku hjá unglingunum mínum þá verða þeir oftast fyrir valinu í nestisboxin mín. Þennan rétt fann ég í gömlu Jamie Oliver-blaði og eldaði í gær. Það sem þó gerðist var að báðum stráknum mínum fannst rétturinn svo góður að þeir fengu sér sitthvora fulla skálina í morgunmat (vöknuðu vel eftir hádegi, þegar ég var búin að elda). Það er kannski von með þá og grænmetisrétti eftir allt! Það var nóg til og eftir að þeir voru búnir að borða fyllti ég 8 nestisbox sem bíða mín nú í frystinum.

Sætkartöflu, kjúklingabauna og spínatkarrý – uppskrift fyrir 6  (lítillega breytt uppskrift frá Jamie Oliver)

  • 2 msk ólífuolía
  • 2 rauðlaukar, sneiddir
  • 3 msk karrýpaste (athugið að þau eru missterk, ég var með frá Blue Dragon)
  • 1 rautt chili, fínhakkað (takið fræin úr ef þið viljið ekki hafa réttinn sterkan)
  • 3 cm bútur af engifer, rifinn
  • handfylli af kóriander, laufin týnd af og stöngullinn hakkaður
  • 3 sætar kartöflur, skornar í 2 cm bita
  • 1 dós kjúklingabaunir (400 g), skolaðar
  • 1 dós hakkaðir tómatar (400 g)
  • 1 kjúklingateningur (eða grænmetisteningur)
  • 2 tsk fiskisósa
  • 1 dós létt kókosmjólk (400 g)
  • 400 g spínat (ég var með 200 g), skolað

Hitið ólífuolíu í stórum potti eða pönnu yfir miðlungsháum hita. Bætið rauðlauk og karrý saman við og steikið í 10 mínútur, þar til laukurinn er orðin mjúkur. Bætið chilí, engifer, kórianderstönglum, sætum kartöflum og kjúklingabaunum í pottinn og steikið í 5 mínútur. Bætið þá tómötum, kjúklingateningi og 2 dl af vatni út í og látið suðuna koma upp. Lækkið hitan og látið sjóða við vægan hita í 10-15 mínútur undir loki. Takið lokið af og sjóðið áfram í 15-20 mínútur, þar til kartöflurnar eru soðnar og sósan hefur þykknað. Hærið kókosmjólkinni og fiskisósunni út í og sjóðið áfram í nokkrar mínútur. Hrærið spínatinu út í og sjóðið í 2-3 mínútur. Stráið kórianderlaufunum yfir og berið fram með hrísgrjónum.

Ef þið ætlið að frysta réttinn þá er best að láta hann kólna í pönnunni áður en hann er settur í box og frystur. Rétturinn geymist í 3 mánuði í frysti.

Hvít pizza með tómötum, avokadó, pestó og basiliku

Þá er kominn nýr mánuður og ný vinnuvika. Sumarið (sem hefur þó varla verið neitt sumar hér á höfuðborgarsvæðinu) fer að verða hálfnað! Hér á heimilinu er enginn byrjaður í fríi en við strákarnir fórum í skemmtilega dagsferð á laugardaginn með vinnunni minni, þar sem við gengum upp á Stóra-Dímon og inn í Nauthúsagil og enduðum daginn síðan í grilli. Þetta er skemmtilegur hringur og passar vel fyrir dagsferðir, það er hægt að stoppa við Seljalandsfoss í leiðinni og enda daginn á einhverjum af fjölmörgum veitingastöðum á suðurlandinu.

Í gær var svo hefðbundinn sunnudagur með vikuinnkaupum og vikuundirbúningi. Ég setti myndir um helgina á Insta stories, meðal annars af gróðrastöð fyrir eldhúsið og hef sjaldan fengið jafn mörg skilaboð með fyrirspurnum. Ég held að ég sé búin að svara öllum en gróðrastöðin fæst í Eirberg (þar er útsala núna og 25% afsláttur af gróðrastöðum, þannig að það er um að gera að nýta sér það!) og ég bind miklar vonir við að geta nú loksins átt ferskar kryddjurtir í eldhúsinu. Hingað til hefur mér gengið illa að halda þeim á lífi en gróðrastöðin á að sjá um þetta fyrir mig. Hún veitir birtu og er með sjálvirku vökvunarkerfi. Ég sótti app í símann sem tengdist við gróðrastöðina, þar hakaði ég við þær kryddjurtir sem ég er með og þar með þarf ég varla að gera meira en að skipta um vatn annað slagið. Súpersniðugt!

Planið er síðan að planta þessum pipar í gróðrastöðina (þeir fást líka í Eirberg). Mér þykir það dálítið spennandi, það verður áhugavert að sjá hvað verður úr þessu. Ég er með millistærðina af gróðrastöðinni, þessa hér og setti tvær tegundir af basiliku (venjulega og rauða) og rósmarín í hana. Það er æðisleg lykt í eldhúsinu!

Við vorum búin að ákveða að vera með pizzur í kvöldmatinn í gær, þar sem ég átti mikið af skinku og salami sem ég vildi fara að losna við. Það fór þó svo að þegar basilikan var komin í eldhúsið fékk ég óstjórnlega löngun í tómatapizzu. Úr varð æðisleg pizza sem ég ákvað að skrifa strax niður svo ég geti endurtekið hana. Botninn er úr smiðju Ebbu Guðnýjar en Gunnari þykir þessi pizzabotn vera sá allra besti og velur hann alltaf fram yfir hefðbundinn hveitibotn.

Hvít pizza með tómötum, avokadó, pestó og basiliku

Botn:

  • 250 g lífrænt spelt
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft (má sleppa)
  • 1/2 – 1 tsk sjávarsalt
  • 1-2 tsk óreganó
  • 3 msk kaldpressuð ólífuolía (ég var með kaldpressaða hvítlauksólífuolíu)
  • 135-150 ml heitt vatn

Sjóðið vatnið. Blandið þurrefnum saman. Setjið olíu og vatn út í þurrefnin og hrærið saman í deig (tekur stutta stund, ekki hnoða of lengi). Þetta deig dugar í 4 þunnar pizzur og það er best að forbaka botnana í 4-5 mínútur við 180° (ég var þó með hærri hita á pönnupizzunni). Ég notaði helminginn af deiginu í pönnupizzuna.

Yfir pizzusuna:

  • 2 kúlur ferskur mozzarella
  • tómatar (ég var með litla)
  • 1/2 – 1 avokadó
  • handfylli af ferskri basiliku
  • grænt pestó
  • salt og pipar

Setjið helminginn af deiginu í 30 cm steypujárnspönnu (eða fletjið deigið út á ofnplötu) og bakið við 220° í 4-5 mínútur. Stráið þá rifnum ferskum mozzarella og tómötum yfir og bakið áfram þar til osturinn hefur bráðnað. Skerið avokadó í sneiðar og setjið yfir pizzuna ásamt ferskri basiliku og doppum af pestói. Sáldrið góðri hvítlauksolíu yfir, kryddið með sjávarsalti og svörtum pipar og berið fram.

Edamame baunir með dippsósu

Þegar ég var á Balí síðasta haust fékk ég æði fyrir edamame baunum. Síðan þá hef ég pantað mér baunirnar þegar ég sé þær á veitingastöðum en aldrei verið með þær hér heima. Það var svo um daginn þegar við buðum vinum okkar í mat að ég ákvað að prófa að bjóða upp á þær sem snarl með fordrykk (sem var svo góður að ég verð að setja uppskriftina inn fyrir helgina!). Í aðalrétt vorum við með grillaðar humarpizzur og í eftirrétt heita súkkulaðiköku með Dumle-fyllingu, hindberjum og ís (uppskriftin er líka væntanleg).

Ég fann uppskrift af edamame baunum sem mér leist vel á hjá Genius Kitchen. Svo einföld uppskrift og svo brjálæðislega góð! Baunirnar kláruðust á svipstundu og ég hefði eflaust mátt vera með tvo poka af þeim. Dippsósan er æði, ekki sleppa henni. Ég var búin að gera þetta tilbúið vel áður en gestirnir komu en mér þykir alltaf gott þegar hægt er að undirbúa með smá fyrirvara svo maður standi ekki á haus þegar gestirnir eru komnir. Þá vil ég frekar setjast niður með drykk og njóta!

Edamame baunir með dippsósu

  • 1/2 msk maldonsalt
  • 1 poki frosnar edamame baunir
  • klakavatn
  • 2 msk sojasósa
  • 2 msk hrísgrjónaedik
  • 1/2 tsk sesamolía
  • 1 tsk hunang
  • 1 hvítlauksrif, fínhakkað
  • 1 msk vorlaukur, hakkaður (ég sleppti vorlauknum því ég gleymdi að kaupa hann!)

Setjið saltið á litla þurra pönnu yfir miðlungsháum hita og steikið þar til það hefur fengið smá lit (tekur um 6-7 mínútur). Fylgist með saltinu og hristið pönnunna annað slagið. Takið af hitanum og leggið til hliðar.

Hitið vatn að suðu og setjið edamame baunirnar í pottinn. Látið sjóða í 4 mínútur (ekki láta þær sjóða of lengi því þær eiga ekki að verða mjúkar). Takið baunirnar úr pottinum og setjið í skál með klakavatni í, til að koma í veg fyrir að þær haldi áfram að eldast. Þurrkið baunirnar og blandið þeim saman við saltið.

Útbúið sósuna með því að hræra saman sojasósu, hrísgrjónaediki, sesam olíu, hunangi, hvítlauki og vorlauki.

Berið baunirnar fram með sósunni (í sér skál).

Grænmetisbaka með piparosti

Ég er að reyna að fjölga kjötlausu dögunum hér heima, bæði vegna þess að mér þykja grænmetisréttir vera svo léttir og góðir í maga en líka vegna þess að það er til svo mikið af spennandi grænmetisuppskriftum sem mér þykir gaman að prófa. Þetta framtak mitt fellur síður en svo í kramið hjá öllum fjölskyldumeðlimum en ég mun ekki gefa mig. Ég bara neita að trúa að það sé ekki hægt að verða saddur af grænmetisréttum eins og hörðustu mótmælendur reyna að halda fram.

Ég má samt til með að taka það fram að meirihlutinn við matarborðið dásamaði matinn og það varð sneið eftir sem ég tók með mér í nesti í dag. Ég bar bökuna fram með einföldu salati sem samanstóð af spínati, rauðlauki, kokteiltómötum, fetaosti og ristuðum kasjúhnetum. Síðan setti ég smá balsamikgljáa yfir. Súpergott!

Ég keypti tilbúið bökudeig úr heilhveiti sem var mjög þægilegt en ég linka hér fyrir neðan á uppskriftina sem ég er vön að nota þegar ég geri deigið sjálf.

Grænmetisbaka með piparosti (uppskrift fyrir 4-5)

  • bökubotn (hér er uppskrift en einnig er hægt að kaupa tilbúið deig)
  • 1 rauð paprika
  • 1 græn paprika
  • 1/2 púrrulaukur
  • 1 lítill spergilkálshaus
  • krydd, t.d. ítalskt salatskrydd
  • 5 kokteiltómatar
  • 3 egg
  • 2,5 dl rjómi
  • 1 box rifinn piparostur (100 g)
  • paprikukrydd
  • salt
  • pipar
  • rifinn ostur

Hitið ofn í 175°. Setjið bökudeigið í bökuform (eða smelluform), stingið aðeins yfir botninn með gaffli og forbakið í 10 mínútur.

Skerið paprikur, púrrulauk og spergilkál smátt og steikið á pönnu þar til hefur fengið fallegan lit og farið að mýkjast. Kryddið eftir smekk (ég notaði ítalskt salatskrydd). Setjið grænmetið yfir forbakaða bökuskelina. Skerið tómatana í tvennt og setjið yfir grænmetið.

Hrærið saman egg og rjóma. Bætið piparostinum saman við og kryddið með paprikukryddi, salti og pipar. Hellið blöndunni yfir grænmetið og setjið vel af rifnum osti yfir. Bakið við 175° í 35 mínútur.

Karrýgrýta með grænmeti og linsubaunu

Ég hef verið óvenju dugleg að elda grænmetisrétti upp á síðkastið, stráknum til mikillar mæðu. Þeir eru búnir að fá sig fullsadda af grænmetissælunni. Um daginn ætlaði ég að hafa þennan karrýrétt í kvöldmat en þeir mótmæltu svo harðlega að ég snarskipti um skoðun og hitaði kjötbollur sem ég átti í frystinum. Daginn eftir voru þeir ekki í mat og þá nýtti ég tækifærið og eldaði karrýréttinn. Þar sem uppskriftin er ágætlega stór og við vorum bara tvö í mat, varð góður afgangur af réttinum. Ég skipti því niður á nokkur nestisbox sem fóru í frysti og hafa komið sér vel sem nesti í vinnuna.

Ég bar réttinn fram með nanbrauði og ristuðum kasjúhnetum en þegar ég hef borðað hann í vinnunni hef ég bara tekið súrdeigsbrauðsneið með mér (ég á það oftast niðurskorið í frystinum). Ég kaupi súrdeigsbrauðið í Ikea (það er bæði gott og á góðu verði), sker niður í sneiðar þegar ég kem heim og set beint í frysti. Um helgar þykir mér gott að rista brauðið og setja stappað avokadó, sítrónusafa, maldonsalt og chili explosion yfir. Svo gott!

Karrýgrýta með grænmeti og linsubaunum (breytt uppskrift úr bókinni Nyfiken Grön)

  • 1 laukur
  • 3 hvítlauksrif
  • 1 sæt kartafla
  • 1/2 msk karrý
  • 2 dl rauðar linsubaunir
  • 2 dósir kókosmjólk (400 ml. hvor)
  • 2 grænmetisteningar
  • 3-5 dl vatn
  • 1 lítill blómkálshaus
  • steinselja eða kóriander (má sleppa)
  • salt og pipar
  • þurrristaðar kasjúhnetur til að setja yfir réttinn (má sleppa)

Afhýðið of hakkið lauk, hvítlauk og sætu kartöfluna. Mýkið í olíu ásamt karrý og linsubaunum í rúmgóðum potti. Hrærið vel í pottinum á meðan svo ekkert brennið við. Hellið kókosmjólk og vatni yfir og bætið grænmetisteningunum saman við. Látið sjóða undir loki í 10 mínútur. Skerið blómkálið í bita og bætið í pottinn. Látið sjóða áfram í um 5 mínútur. Smakkið til með salti og pipar. Stráið steinselju yfir áður en rétturinn er borinn fram.

 

Grænmetislasagna

Ég er að reyna að hætta sem styrktaraðili líkamsrætarstöðvar og er byrjuð að mæta í tíma þar. Það gengur svona og svona. Ég ætlaði að mæta tvisvar í síðustu viku en fékk svo hræðilegar harðsperrur strax eftir mánudagstímann að ég gat varla hreyft mig fyrr en undir lok vikunnar. Ég gat því gleymt því að mæta í annann tíma þá vikuna. Það sama var vikuna á undan, þá mætti ég bara í einn tíma. Í gær mætti ég aftur til leiks og hræddist svo að harðsperrufíaskó síðustu viku myndi endurtaka sig að ég þorði varla að taka á því. Það virðist hafa virkað því dagurinn í dag var alveg bærilegur.

Í þessu líkamsræktarátaki (…ef átak má kalla þegar mætt er einu sinni í viku og svo legið eins og skata það sem eftir er af vikunni) hef ég reynt að skipuleggja kvöldmatinn þannig að ég elda eitthvað fljótlegt þá daga sem ég fer í ræktina og gef mér meiri tíma í eldhúsinu hin kvöldin. Á sunnudaginn útbjó ég því grænmetislasagna sem átti bara eftir að fara í ofninn þegar ég kom heim úr ræktinni í gær. Uppskriftin varð svo stór að ég gat haft það aftur í matinn í kvöld og sett í nestisbox fyrir morgundaginn. Lasagnað var æðislega gott og ég gat ekki betur séð en að allir hafi verið ánægðir með að borða það aftur í kvöld.

Grænmetislasagna – uppskrift fyrir 8-10

Tómatsósan:

  • 2 gulir laukar
  • 1/2 rautt chili
  • 1 dl ólífuolía
  • 4 hvítlauksrif
  • 2 dósir hakkaðir tómatar
  • 2 dl vatn
  • 1,5 grænmetisteningur
  • 20 snúningar á piparkvörn
  • 1-2 msk sykur

Afhýðið og fínhakkið laukinn og fínhakkið chilíið (hafið fræin með). Hitið olíuna í þykkbotna potti og steikið lauk, chilí og hvítlauk í nokkrar mínútur. Laukurinn og hvítlaukurinn eiga að mýkjast án þess að brúnast. Bætið hökkuðum tómötum, vatni og grænmetisteningum út í og látið sjóða saman við lágan eins lengi og tími gefst. Kryddið með pipar og sykri.

Ostasósa

  • 75 g smjör
  • 1 ½ dl hveiti
  • 1 líter mjólk
  • 1 tsk salt
  • ½ – 1 tsk hvítur pipar
  • 1/8 tsk  múskat
  • 1/8 tsk cayenne pipar
  • 180 g krydd havarti

Bræðið smjörið í þykkbotna potti. Hrærið hveitinu saman við smjörið og hrærið síðan mjólkinni smátt og smátt saman við. Passið að hrærið allan tímann í pottinum svo brenni ekki við. Hrærið kryddum út í og látíð sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Takið pottinn af hitanum og hrærið rifnum ostinum út í.

Spínatfylling

  • 2 gulir laukar
  • 500 g spínat
  • 50 g smjör
  • ¼ tsk salt
  • 6 snúningar á piparkvörn
  • ½ tsk múskat

Afhýðið laukinn og skerið í hálfmána. Bræðið smjör á pönnu og steikið laukinn við vægan hita þar til hann er mjúkur. Kryddið. Bætið spínatinu á pönnuna og steikið áfram þar til spínatið er orðið mjúkt.

  • 2 kúrbítar
  • 250 g mozzarella
  • 100 g parmesan
  • 500 g ferskar lasagnaplötur (eða þurrkaðar)

Skerið kúrbítinn á lengdina með ostaskera í örþunnar sneiðar. Rífið mozzarellaostinn og fínrífið parmesanostinn.

Samsetning:

Smyrjið botn á stóru eldföstu móti með smá ólífuolíu. Setjið ¼ af ostasósu í botninn, leggið lasagnaplötur yfir, setjið helminginn af tómatsósunni yfir, síðan allan kúrbítinn (leggið sneiðarnar yfir hvora aðra), helminginn af mozzarellaostinum og helminginn af parmesanostinum, kryddið með svörtum pipar, setjið ¼ af ostasósunni yfir, lasagnaplötur, alla spínatblönduna, seinni helminginn af parmesanostinum, ¼ af ostasósunni, kryddið með svörtum pipar, lasagnaplötur, það sem eftir er af tómatsósunni og það sem eftir er af ostasósunni. Setjið í 175° heitann ofn í 20 mínútur, setjið þá það sem eftir var af mozzarellaostinum yfir og bakið áfram þar til osturinn er bráðnaður.

Ofnbökuð eggjakaka með grænmeti

Fyrir nokkrum vikum fékk ég uppskrift hjá vinkonu minni af svo frábæru nesti sem hún hafði gert sér og mér leist svo vel á. Ég er oftast með nesti með mér í vinnunni og finnst því gott að eiga í frystinum til að taka með mér.  Ég hef oft gert linsubaunasúpur og fryst í passlegum skömmtum en þessi eggjakaka er góð tilbreyting frá súpunum.

Þetta er í raun engin nákvæm uppskrift heldur er grænmeti sem þér þykir gott eða átt til steikt á pönnu og kryddað eftir smekk. Grænmetið er síðan sett í eldfast mót, nokkrum eggjum er hrært saman og svo hellt yfir grænmetið. Það er líka t.d. hægt að setja ost yfir eða fetaost í eggjahræruna. Þetta er síðan sett inn í ofn þar til eggjahræran er orðin passlega elduð.

Ég var með sæta kartöflu, papriku, brokkólí, sveppi og rauðlauk í minni eggjaköku og kryddaði grænmetið með ítalskri hvítlauksblöndu frá Pottagöldrum. Þegar eggjakakan kom úr ofninum skar ég hana í sneiðar og frysti. Á morgnanna tók ég svo bara eina sneið með mér sem ég hitaði aðeins í örbylgjuofninum áður en ég borðaði hana í hádeginu. Einfalt, hollt og gott!

 

Linsubaunasúpa

Eftir veisluhöld desembermánaðar og notalega byrjun á árinu er kannski kominn tími á aðeins hollari matarvenjur. Ég er vön að borða ágætlega yfir daginn og er oftast með nesti með mér í vinnunni. Það hentar mér best, bæði virðist ég ekki fá leið á að borða það sama dag eftir dag og síðan þykir mér þægilegt að þurfa ekki að fara út í hádeginu að kaupa mér mat. Sparar bæði tíma og pening.

Nestið mitt er sjaldan eitthvað til að hrópa húrra fyrir og samanstendur oftast af grænum safa og kaffi um morguninn og bollasúpu og hrökkbrauði í hádeginu. Það koma þó stundir sem ég elda fullan pott af súpu eða geri stórt eldfast mót með grænmetisfylltri eggjaköku, sem ég set í nestisbox og frysti. Ég hef stundum gert þessa frönsku linsubaunasúpu (hún er mjög góð!) en prófaði nýja uppskrift fyrir nokkru sem ég skildi eftir á hellunni á meðan ég skaust aðeins frá og þegar ég kom aftur heim þá var hún orðin að hálfgerðum pottrétti. Það kom þó ekki að sök, súpan er bæði matarmikil og fullkomin í nestisboxið.

Linsubaunasúpa

  • 2 tsk ólívuolía til að steikja í
  • 1 stór laukur, hakkaður
  • 1 dl gulrætur, hakkaðar
  • 1 dl sellerí, hakkað
  • 2 tsk salt
  • 3 dl linsubaunir
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • 7 – 8 dl vatn
  • 1 – 2 teningar grænmetiskraftur
  • 1 stórt handfylli ferskt kóriander
  • 1/2 tsk cumin (ath ekki sama og kúmen)
  • 1/2 tsk svartur pipar

Léttsteikið grænmetið í rúmgóðum potti. Bætið tómötum og kryddum saman við og steikið aðeins saman. Bætið vatni, grænmetiskrafti og linsubaunum í pottinn og látið sjóða þar til linsubaunirnar eru orðnar mjúkar. Smakkið til!.

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Baka með sætri kartöflu, spínati og fetaosti

Ég var greinilega ekki með fulle femm þegar ég skrifaði fyrir viku síðan að það væru tveir þriðjudagar eftir af mánuðinum. Mánuðurinn hefur liðið svo hratt að ég var viku á eftir! Í dag er vissulega síðasti þriðjudagur maímánaðar og þar með síðasta græna þriðjudagsfærslan. Í bili alla vega. Ég mun vonandi í framhaldinu vera duglegri í að setja grænmetisuppskriftir hingað inn.

Ég held að það sé óhætt að segja að ég hafi geymt það besta fram í lokin því þessi grænmetisbaka er brjálæðislega góð. Svo góð að ég mun eflaust þreyta fjölskylduna fljótlega með henni eins og ég gerði á sínum tíma með plokkfiskinn. Ég fékk feikna mikið æði fyrir plokkfiski hér um árið og eldaði hann svo oft að á endanum sögðu krakkarnir hingað og ekki lengra. Þau fá enn hroll við tilhugsunina um plokkfisk. Þetta gæti mögulega endurtekið sig með þessa böku því ég fæ ekki nóg af henni. Þið bara verðið að prófa!

Baka með sætri kartöflu, spínati og fetaosti

Botninn

  • 3 dl hveiti
  • 100 g smjör
  • 3 msk vatn

Hitið ofninn í 225°. Blandið hráefninu í botninn saman þannig að það myndi deigklump, fletjið hann út og fyllið út í bökumót (líka hægt að nota venjulegt kökuform). Forbakið í ca 10 mínútur.

Fylling:

  • 1 sæt kartafla (meðalstór)
  • krydd eftir smekk (ég var með Best á allt, Ítalska hvítlauksblöndu, salt og pipar)
  • 1 laukur
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 handfylli af spínati
  • 2 msk balsamik edik
  • 2 egg
  • 2 dl mjólk
  • 150 g fetakubbur, mulinn í bita
  • handfylli af cashew hnetum

Skerið sætu kartöfluna í teninga, veltið upp úr ólífuolíu og kryddið. Bakið við 180° í 20 mínútur.

Hakkið lauk og hvítlauk. Hitið pönnu yfir miðlungsháum hita, bræðið smjör á pönnunni og bætið svo lauk og hvítlauk á hana. Steikið þar til mjúkt. Bætið spínati á pönnuna og steikið áfram í um 2 mínútur. Bætið þá balsamik ediki saman við og kryddið með salti og pipar. Steikið allt saman í um 2 mínútur, takið svo af hitanum og látið standa aðeins.

Hrærið saman mjólk og egg.

Setjið helminginn af sætu kartöflunum í botnin á bökubotninn. Setjið lauk- og spínatblönduna, fetaost og cashew hneturnar yfir. Ef það er pláss, stingið þá fleiri sætum kartöflum í bökuna (ef það verður afgangur þá er um að gera að geyma restina t.d. út á salat eða til að eiga sem meðlæti). Hellið eggjablöndunni yfir. Bakið í 35-40 mínútur við 180°. Ef bakan fer að dökkna þá er gott að setja álpappír yfir hana.

Berið fram með góðu salati.

 

SaveSave