Á morgun byrja ég aftur að vinna eftir þriggja vikna sumarfrí. Ég á enn smá frí eftir sem ég ætla að eiga í vetur. Það bíður Londonferð í haust og útskrift sem þarf að undirbúa þannig að það verður gott að eiga frí inni. Ég ætlaði ekki að vera svona ódugleg hér á blogginu í fríinu en það gafst satt að segja ekki færi á að blogga þar sem ég fór bæði til Stokkhólms og stóð í framkvæmdum hér heima, sem tóku aðeins meiri tíma en ég gerði ráð fyrir. Núna er þó allt klárt og ég er svo þakklát fyrir það. Vil helst bara vera hér heima að dunda mér og fór varla út úr húsi alla helgina.
Ég borða nánast alltaf það sama í vinnunni, bollasúpu og hrökkbrauð með hummus. Ég fæ ekki leið á því en samt, hversu óspennandi?!? Inn á milli tek ég mig þó til og elda eitthvað hollara og betra, sem ég síðan frysti í nestisboxum þannig að ég geti gripið box með mér á morgnana. Þar sem grænmetisréttir vekja yfirleitt litla lukku hjá unglingunum mínum þá verða þeir oftast fyrir valinu í nestisboxin mín. Þennan rétt fann ég í gömlu Jamie Oliver-blaði og eldaði í gær. Það sem þó gerðist var að báðum stráknum mínum fannst rétturinn svo góður að þeir fengu sér sitthvora fulla skálina í morgunmat (vöknuðu vel eftir hádegi, þegar ég var búin að elda). Það er kannski von með þá og grænmetisrétti eftir allt! Það var nóg til og eftir að þeir voru búnir að borða fyllti ég 8 nestisbox sem bíða mín nú í frystinum.
Sætkartöflu, kjúklingabauna og spínatkarrý – uppskrift fyrir 6 (lítillega breytt uppskrift frá Jamie Oliver)
- 2 msk ólífuolía
- 2 rauðlaukar, sneiddir
- 3 msk karrýpaste (athugið að þau eru missterk, ég var með frá Blue Dragon)
- 1 rautt chili, fínhakkað (takið fræin úr ef þið viljið ekki hafa réttinn sterkan)
- 3 cm bútur af engifer, rifinn
- handfylli af kóriander, laufin týnd af og stöngullinn hakkaður
- 3 sætar kartöflur, skornar í 2 cm bita
- 1 dós kjúklingabaunir (400 g), skolaðar
- 1 dós hakkaðir tómatar (400 g)
- 1 kjúklingateningur (eða grænmetisteningur)
- 2 tsk fiskisósa
- 1 dós létt kókosmjólk (400 g)
- 400 g spínat (ég var með 200 g), skolað
Hitið ólífuolíu í stórum potti eða pönnu yfir miðlungsháum hita. Bætið rauðlauk og karrý saman við og steikið í 10 mínútur, þar til laukurinn er orðin mjúkur. Bætið chilí, engifer, kórianderstönglum, sætum kartöflum og kjúklingabaunum í pottinn og steikið í 5 mínútur. Bætið þá tómötum, kjúklingateningi og 2 dl af vatni út í og látið suðuna koma upp. Lækkið hitan og látið sjóða við vægan hita í 10-15 mínútur undir loki. Takið lokið af og sjóðið áfram í 15-20 mínútur, þar til kartöflurnar eru soðnar og sósan hefur þykknað. Hærið kókosmjólkinni og fiskisósunni út í og sjóðið áfram í nokkrar mínútur. Hrærið spínatinu út í og sjóðið í 2-3 mínútur. Stráið kórianderlaufunum yfir og berið fram með hrísgrjónum.
Ef þið ætlið að frysta réttinn þá er best að láta hann kólna í pönnunni áður en hann er settur í box og frystur. Rétturinn geymist í 3 mánuði í frysti.