Þessi fyrsta sumarfrísvika mín hefur boðið upp á æðislegt veður og þrátt fyrir að hafa lofað uppskrift af pizzastöngum hingað inn þá hef ég ekki getað setið inni við tölvuna þegar sólin loksins lét sjá sig.
Ég gerði pizzastangirnar fyrir úrslitaleik HM og fékk fjölmargar fyrirspurnir um uppskriftina eftir að ég setti mynd af þeim í Insta story. Ég gerði mér einfalt fyrir og keypti pizzadeigið tilbúið, þetta sem er upprúllað. Þá þurfti bara að rúlla því út, setja fyllinguna í og síðan notaði ég smjörpappírinn sem pizzadeigið kemur á, til að brjóta deigið saman. Þetta gekk allt mjög hratt fyrir sig og vakti mikla lukku yfir leiknum. Fullkomið föstudagssnarl!
Pizzastangir með pepperoni
- 1 rúlla pizzadeig
- 3-4 tsk ítölsk hvítlauksblanda
- 1/2 tsk red pepper flakes
- 6 msk rifinn parmesan
- 3 msk ólífuolía
- 1 bréf pepperoni (um 120 g)
- rúmlega 1/2 poki rifinn mozzarella (um 120 g)
Hitið ofninn í 200°.
Blandið ítalskri hvítlauksblöndu, red pepper flakes og rifnum parmesan saman í skál.
Rúllið deiginu út (eða fletjið það út í ferhyrning ef notað er heimagert) og stráið helmingnum af kryddblöndunni yfir deigið. Skerið pepperoni í fernt og dreifið yfir helminginn af deiginu. Brjótið helminginn sem er ekki með pepperoni yfir pepperoni-helminginn, þannig að fyllingin verði inn í. Skerið deigið í stangir og snúið hverri stöng í nokkra hringi. Penslið yfir brauðstangirnar með ólífuolíu og stráið kryddblöndu yfir. Færið brauðstangirnar yfir á bökunarplötu með bökunarpappír og snúið krydduðu hliðinni niður. Penslið með olíu og stráið kryddblöndu yfir (þannig að það er olía og krydd bæði undir og yfir brauðstöngunum) og bakið í 8-10 mínútur, eða þar til brauðstangirnar eru orðnar gylltar og fallegar.
Fullkomnar og mjög auðvelt að gera, strákarnir mínir í sæluvímu eftir þessar brauðstangir laugardaginn 😋😋😋😋😋😋😋
Hvar fæst þessi ítalska hvítlauksblanda? 🙂
Rifni mozzarellaosturinn sem er í talinn upp í listanum kemur hvergi fram í verklýsingunni. Hefurðu hann ekki með? Ég var búin að setja stangirnar í ofninn þegar ég mundi eftir honum og fannst þetta ljómandi gott án hans. En ekki fannst mér þetta samt mjög fljótlegt.