Ég er að reyna að fjölga kjötlausu dögunum hér heima, bæði vegna þess að mér þykja grænmetisréttir vera svo léttir og góðir í maga en líka vegna þess að það er til svo mikið af spennandi grænmetisuppskriftum sem mér þykir gaman að prófa. Þetta framtak mitt fellur síður en svo í kramið hjá öllum fjölskyldumeðlimum en ég mun ekki gefa mig. Ég bara neita að trúa að það sé ekki hægt að verða saddur af grænmetisréttum eins og hörðustu mótmælendur reyna að halda fram.
Ég má samt til með að taka það fram að meirihlutinn við matarborðið dásamaði matinn og það varð sneið eftir sem ég tók með mér í nesti í dag. Ég bar bökuna fram með einföldu salati sem samanstóð af spínati, rauðlauki, kokteiltómötum, fetaosti og ristuðum kasjúhnetum. Síðan setti ég smá balsamikgljáa yfir. Súpergott!
Ég keypti tilbúið bökudeig úr heilhveiti sem var mjög þægilegt en ég linka hér fyrir neðan á uppskriftina sem ég er vön að nota þegar ég geri deigið sjálf.
Grænmetisbaka með piparosti (uppskrift fyrir 4-5)
- bökubotn (hér er uppskrift en einnig er hægt að kaupa tilbúið deig)
- 1 rauð paprika
- 1 græn paprika
- 1/2 púrrulaukur
- 1 lítill spergilkálshaus
- krydd, t.d. ítalskt salatskrydd
- 5 kokteiltómatar
- 3 egg
- 2,5 dl rjómi
- 1 box rifinn piparostur (100 g)
- paprikukrydd
- salt
- pipar
- rifinn ostur
Hitið ofn í 175°. Setjið bökudeigið í bökuform (eða smelluform), stingið aðeins yfir botninn með gaffli og forbakið í 10 mínútur.
Skerið paprikur, púrrulauk og spergilkál smátt og steikið á pönnu þar til hefur fengið fallegan lit og farið að mýkjast. Kryddið eftir smekk (ég notaði ítalskt salatskrydd). Setjið grænmetið yfir forbakaða bökuskelina. Skerið tómatana í tvennt og setjið yfir grænmetið.
Hrærið saman egg og rjóma. Bætið piparostinum saman við og kryddið með paprikukryddi, salti og pipar. Hellið blöndunni yfir grænmetið og setjið vel af rifnum osti yfir. Bakið við 175° í 35 mínútur.
2 athugasemdir á “Grænmetisbaka með piparosti”