Mér þykir gaman að setja inn uppskriftir á fimmtudögum sem gætu hentað að elda yfir helgina. Á virkum dögum elda ég yfirleitt mat sem tekur stuttan tíma að gera og er kannski meiri hversdagsmatur. Um helgar vil ég hafa meiri stemningu í þessu og reyni að finna rétti sem hitta í mark hjá krökkunum. Mexíkóskur matur er alltaf vinsæll hér heima og um síðustu helgi prófaði ég að gera crunchwrap í fyrsta sinn. Svo gott!
Ég reyndi að mynda hvernig tortillan er brotin saman en veit ekki hvort það hafi tekist nógu vel. Þetta segir sig kannski bara sjálft?
Crunchwrap – uppskrift fyrir 5-6
- 4 kjúklingabringur (um 1 kg), skornar í strimla
- 1 msk olía
- safi af 1 lime
- 1 bréf fajita krydd
Blandið saman og látið marinerast í 1 klst.
- 1 laukur, sneiddur
- 1 rauð paprika, sneidd
- 1 græn paprika, sneidd
- 1 tsk salt
- 2 hvítlauksrif, pressuð
- 1 dl bjór (pilsner gengur líka)
- 10 tortillur
- rifinn ostur
Grænmetið er steikt á pönnu, saltað og pressuðum hvítlauki bætt við, og steikt aðeins áfram. Kjúklingnum er bætt á pönnuna og steiktur þar til nánast fulleldaður. Hellið bjór yfir og látið sjóða saman í nokkrar mínútur.
Rifinn ostur er settur á miðja tortillu, svo kjúklingablandan sett yfir, brotið saman og sett á ofnplötu með sárið niður. Rifinn ostur settur yfir og bakað við 180° í 15-20 mínútur.
Hlakka til að prófa þetta !
Eldaði svona í gær! Þetta fær toppeinkunn hjá okkur fjölskyldunni. Börnin mín(gikkirnir) elskuðu þetta og báðu um að þessi réttur yrði eldaður reglulega! Færð ekki betri meðmæli en það 😉