Það ætti ekki að koma neinum sem lesa hér á óvart að ég bæði geri og fylgi vikumatseðlum. Það hef ég gert síðan ég eignaðist tvíburana mína fyrir tæpum 14 árum og sá hag minn í því að fækka búðarferðum eins mikið og möguleiki var á. Ég plana því alltaf matarvikuna og í gærkvöldi stóð skýrum stöfum gúllas á matseðlinum, haustlegur matur sem ég ætlaði að láta malla á meðan ég færi í langan göngutúr. Ég sá fyrir mér að ég kæmi svöng heim, myndi sitja lengi við matarborðið og njóta kvöldverðarins.
Síðan komst ég að því að strákarnir yrðu ekki í mat og skömmu síðar þegar ég opnaði ísskápinn rak ég augun í fimm tegundir af ostum sem við keyptum í ostabúðinni um daginn. Malín og Oliver eru ekki mikið fyrir osta en voru fullkomlega sátt við að hita sér lasagna sem var til í frystinum og því fengum við hin okkur osta og rauðvínskvöldverð. Svo gott! Ég tók ostana snemma út og á meðan við fórum í göngutúr náðu þeir að standa í tvo tíma á borðinu. Það þykir mér best. Kaldir ostar beint úr ísskápnum þykja mér ekki spennandi og passa því alltaf að taka þá tímalega út.
Ég ætla þó ekki að birta hér myndir af rauðvíni og ostum heldur gefa uppskrift af Caesarböku sem ég gerði um daginn og var svo góð. Ég elska Caesar salat (hver gerir það ekki!) og á enn eftir að gefa hér uppskrift af lang besta Caesar salatinu. Ég þarf bara að fá leyfi hjá vinkonu minni sem gaf mér uppskriftina til að birta hana hér, já og auðvitað að elda það (sem ég geri reglulega) og mynda. En áður en það gerist kemur hér uppskrift af Caesarbökunni góðu. Það væri eflaust mjög gott að bera hana fram með Caesar dressingu, en ég átti hana ekki til og lét bökuna því duga svona. Það kom ekki að sök, hún var stórgóð!
Caesarbaka
Botn:
- 3 dl hveiti (180 g)
- 100 g smjör
- 2 msk vatn
Hitið ofninn í 225°. Blandið hveiti og smjöri saman (gott að nota matvinnsluvél ef hún er til). Bætið vatni saman við og vinnið snögglega saman í deig. Þrýstið deiginu í um 24 cm form með lausum botni. Stingið göt í botninn með gaffli og bakið í miðjum ofni í um 10 mínútur.
Fylling:
- 1 grillaður kjúklingur
- 1 púrrulaukur
- 2 hvítlauksrif
- 1 msk smjör
- smá salt og svartur pipar
- 3 egg
- 3 dl mjólk
- 2 +2 dl parmesan ostur, rifinn
Takið húðina af kjúklingnum og skerið kjötið í bita. Hreinsið og strimlið púrrulaukinn. Afhýðið og sneiðið hvítlaukinn. Steikið hvítlauk og púrrulauk í smjöri þar til mjúkt. Bætið kjúklingnum saman við og kryddið með salti og pipar. Setjið blönduna á forbakaða bökubotninn.
Hrærið saman egg, mjólk og 2 dl af parmesan ostinum. Hellið blöndunni yfir fyllinguna. Stráið 2 dl af parmesanosti yfir. Lækkið hitann á ofninum í 200°. Bakið í neðri hluta ofnsins í um 40 mínútur.
Yfir bökuna:
- um 150 g beikon
- romansalat (eða annað salat)
- 25 g parmesan ostur
Skerið beikonið í strimla og steikið þar til stökkt. Skerið salatið í strimla. Setjið beikon, salat og parmesanost í sneiðum yfir heita bökuna og berið strax fram.
3 athugasemdir á “Caesarbaka”