Gratínerað sveppabrauð

Eftir að ég byrjaði á grænu þriðjudagsfærslunum finnst mér alltaf vera þriðjudagur. Þetta er skemmtilegt verkefni sem gerir það að verkum að ég vel betur grænmetisréttina sem ég elda hér heima. Ég fæ ekki betur séð en að það falli vel í kramið hjá öllum fjölskyldumeðlimum. Það eru enn tveir þriðjudagar eftir í mánuðinum þannig að fjörið heldur áfram.

Ég les reglulega vefsíðuna Cup of Jo og það var einmitt þar sem ég datt niður á þessa uppskrift af gratíneruðu sveppabrauði. Uppskriftin kemur frá Deb sem heldur úti blogginu Smitten Kitchen og ég hafði gaman af að lesa það sem hún skrifar við færsluna, sérstaklega þar sem hún vísar til sveppabrauðsins á Buvette, sem er dásamlegur lítill staður sem ég borðaði morgunverð á í París sl. haust. Ég fékk mér þó ekki sveppabrauðið þar og get því lítið tjáð mig um gæði þess, en þetta gratíneraða sveppabrauð var hins vegar dásamlega gott og skammlaust hægt að bjóða upp á sem kvöldverð þar sem það er ansi matarmikið. Þeir sem vilja geta haft salat eða ofnbakaða sætkartöflubita með en við létum okkur brauðið duga eitt og sér. Stórgott!

Gratínerað sveppabrauð (uppskriftin gefur 4 stórar sneiðar)

Sósan:

 • 2 msk (30 g) smjör
 • 2 tsk (15 g) hveiti
 • 3/4 bolli (175 ml) mjólk
 • smá múskat
 • salt og pipar
 • 1 msk (15 g) Dijon sinnep

Hitið stóra pönnu við miðlungsháan hita. Bræðið smjör á pönnunni og hrærið hveiti saman við þar til blandan er kekkjalaus. Hrærið mjólkinni smátt og smátt saman við. Kryddið með múskat, salti og pipar og látið sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur. Blandan á að vera þykk. Setjið blönduna í skál og hrærið Dijon sinnepinu saman við.

Sveppirnir:

 • 680 g ferskir sveppir (ég var með blöndu af venjulegum og kastaníusveppum)
 • ólífuolía og smjör
 • 2 tsk hakkaðar ferskar kryddjurtir, t.d. rósmarín, timjan eða salvía (ég var líka með ítalska hvítlauksblöndu frá Pottagöldrum)
 • salt og pipar

Skerið sveppina í þunnar sneiðar. Notið pönnuna sem sósan var gerð í (þurrkið hana fyrst aðeins með eldhúspappír) og hitið ólífuolíu og smjör á henni. Þegar pannan er orðin vel heit er helmingurinn af sveppunum settur á hana ásamt kryddurtum og látið sveppina brúnast á annarri hliðinni í 2-3 mínútur. Hrærið þá í sveppunum og steikið áfram þar til þeir eru orðnir mjúkir og allur vökvi er horfinn af pönnunni. Kryddið vel með salti og pipar. Gerið eins við seinni helminginn af sveppunum.

Samsetning

 • Gott brauð, t.d. súrdeigsbrauð, skorið í um 2 cm þykkar sneiðar
 • 225 g grófrifinn ostur, t.d. gouda
 • steinselja til skrauts

Hitið ofninn í 200° og leggið brauðsneiðarnar á smjörpappírsklædda ofnplötu. Smyrjið vel af sósunni yfir brauðið (passið að smyrja þær alveg út í endana). Setjið vel af sveppum yfir og endið á að setja vel af rifnum osti yfir. Bakið í 5 – 10 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og byrjað að brúnast aðeins. Stráið steinselju yfir og berið strax fram.

 

Halloumi hamborgarar

Það gleður mig að sjá hvað margir eru ánægðir með grænu þriðjudagsfærslurnar. Það vita eflaust allir sem lesa hér reglulega að ég er ekki grænmetisæta og ég hef engin plön um að hætta að borða kjöt. Ég hef þó lengi reynt að hafa að minnsta kosti einn kjötlausan dag í viku (sem er náttúrlega ósköp lítið mál) og þegar það var óskað eftir fleiri grænmetisuppskriftum ákvað ég að lífga aðeins upp á þann uppskriftaflokk hér á síðunni. Það eru svo margir duglegir í grænmetisfæðinu og um daginn fékk ég póst frá einni sem var með kjötlaust heimili í fyrra sem sagðist oft hafa breytt kjötréttum af síðunni í grænmetisrétti, t.d. með því að nota nýrnabaunir í stað kjúklings í mexíkósku kjúklingasúpunni, svartar baunir eða pintóbaunir í tacolasagnað og grænmeti í aðrar lasagna uppskriftir. Mér þóttu þetta stórgóðar ábendingar og mátti til að koma þeim á framfæri.

Grænmetisuppskrift dagsins er ekki af verri endanum, halloumi hamborgari. Hann gefur hefðbundnum hamborgurum ekkert eftir!

 Halloumi hamborgarar (uppskriftin gefur 3 borgara)
 • 1 pakkning halloumi (250 g)
 • 250 g gulrætur
 • 1/2 tsk salt
 • 2 egg
 • 1 dl brauðraspur
 • chili explotion krydd

Rífið ostinn og gulræturnar og setjið í skál ásamt öllum hinum hráefnunum. Látið standa í 5 mínútur. Mótið 3 hamborgara og steikið í smjöri þar til komnir með góða steikingarhúð.

 

 

Pastasósa með linsubaunum og gulrótum

Mig grunar að flestir séu með hugann við eurovision í kvöld og fæstir, ef nokkur, að hugsa um grænmetisrétti. Ég get þó ekki annað en sett þessa uppskrift inn, bæði vegna þess að rétturinn er góður og líka vegna þess að ég var búin að lofa grænum uppskriftum á þriðjudögum út mánuðinn. Ekki vil ég svíkja það svona strax í upphafi!

Það eru margir kostir við þessa pastasósu. Hráefnið er ódýrt og hún er holl, einföld og góð. Það er upplagt að leyfa henni malla á sunnudegi og setja síðan í box í ísskáp til að eiga síðar í vikunni. Það er svo notalegt eftir langan dag að þurfa ekki að hafa meira fyrir kvöldverðinum en að sjóða pasta og hita upp sósuna. Það er bæði gott að setja fetaost eða rífa parmesan yfir réttinn og gott brauð eða hvítlauksbrauð fullkomnar máltíðina.  Síðan er líka hægt að nota sósuna með kotasælu í lasagna. Eða að hræra sósunni saman við soðið pasta og setja í eldfast mót með vel af rifnum osti yfir og baka í ofni þar til osturinn hefur bráðnað. Möguleikarnir eru endalausir!

Pastasósa með linsubaunum og gulrótum

 • 1 laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • ½ tsk kanil
 • 2 msk tómatpuré
 • 1 msk paprikukrydd
 • 1 dl balsamik edik
 • 2 dósir hakkaðir tómatar
 • 2 dl rauðar linsubaunir (eða blanda af rauðum og grænum)
 • 2 grænmetisteningar
 • vatn eftir þörfum (ca 3-4 dl)
 • 2 stórar gulrætur
 • salt og pipar

Fínhakkið lauk og hvítlauk. Bræðið smjör á pönnu og steikið lauk og hvítlauk við miðlungsháan hita þar til mjúkt. Bætið kanil, tómatpuré og paprikukryddi saman við og látið malla aðeins saman. Bætið balsamik ediki saman við. Bætið hökkuðum tómötum og linsubaunum á pönnuna og myljið grænmetisteningana út í. Látið nú sjóða saman við vægan hita þar til baunirnar eru orðnar mjúkar. Bætið vatni við eftir þörfum, linsubaunirnar sjúga í sig vel af vökvanum meðan þær sjóða. Rífið gulræturnar og blandið saman við undir lokin. Smakkið til með salti og pipar.

 

 

 

Ofnbökuð fetaostídýfa með kirsuberjatómötum

Ofnbökuð fetaostídýfa með kirsuberjatómötum

Ég viðurkenni fúslega að mér þykir ósköp ljúft að fá svona 4 daga vinnuvikur inn á milli. Páskafríið er nýbúið og strax að koma helgi aftur. Lúxus! Ég nýti hvert tækifæri sem gefst til að vera með plokkmat, eins og osta og góðar pylsur, í kvöldmat. Með góðu víni eru ostadiskar og plokkmatur með því besta sem ég veit.

Ofnbökuð fetaostídýfa með kirsuberjatómötum

Þar sem helgin nálgast óðum þá má ég til með að gefa hugmynd að æðislegri viðbót við plokkmatinn, ofnbökuð fetaostaídýfa með kirsuberjatómötum og tabaskó. Ídýfan er líka frábær sem forréttur eða í saumaklúbbinn. Uppskriftina fékk ég hjá stelpu sem vann með mér og ég hugsa alltaf hlýlega til hennar þegar ég ber þessa dásemd á borð. Einfalt og stórgott, alveg eins og ég við hafa það!

Ofnbökuð fetaostídýfa með kirsuberjatómötum

 

Ofnbökuð fetaostaídýfa með kirsuberjatómötum

Setjið heilan fetakubb í eldfast mót. Sáldrið smá ólífuolíu yfir og kryddið með oregano. Skerið kirsuberjatómata í tvennt og raðið yfir ostinn og í kringum hann ef það er pláss í eldfasta mótinu. Setjið að lokum smá tabaskó sósu yfir allt. Bakið við 180° í 20-30 mínútur, eða þar til ídýfan lítur vel út.

Grænmetisréttur með kínóa og sætum kartöflum

Grænmetisréttur með kínoa og sætum kartöflum

Þar sem ég er enn í hálfgerðri vímu eftir veisluhöld desembermánuðar ákvað ég um daginn að elda mér pott af grænmetisrétti til að eiga í nesti og að hafa með í vinnuna. Ég furða mig á því hvað ég elda súpur og grænmetisrétti sjaldan til að eiga í nesti. Það er jú svo gott að vera með nesti og þurfa ekki að fara út í hádeginu að kaupa eitthvað sem manni langar ekkert sérstaklega í.

Grænmetisréttur með kínoa og sætum kartöflum

Þessi réttur er í senn hollur og góður. Hann er líka léttur í maga og því frábær hádegisverður. Ég bakaði gróft speltbrauð í leiðinni sem ég skar í sneiðar og frysti. Grænmetisrétturinn fór í 6 nestisbox sem fóru öll í frysti. Á morgnana kippi ég bara einu boxi og brauðsneið með mér og ég slepp við að fara út í hádeginu í matarleiðangur. Ljómandi gott!

Grænmetisréttur með kínoa og sætum kartöflum

Grænmetisréttur með kínóa og sætum kartöflum (5-6 skammtar)

 • 3 litlar sætar kartöflur
 • 1 rauðlaukur
 • 4 hvítlauksrif
 • 2 tsk mexíkóskt chillíkrydd
 • 1/2 tsk paprikukrydd
 • 1/2 tsk cummin
 • 1/2 tsk maldon salt
 • 3 1/2 bolli vatn
 • 1 grænmetisteningur
 • 1 dós (400 g) svartar baunir (skolaðar)
 • 1 dós (400 g) hakkaðir tómatar í dós (ég notaði Hunt´s diced tomatos for chili)
 • 1/2 bolli kínóa
 • safi úr lime

Afhýðið og skerið sætu kartöflurnar í litla bita og hakkið rauðlaukinn. Hitið 1 msk af olíu í rúmgóðum potti og steikið kartöflur og rauðlauk við meðalháan hita í um 5 mínútur. Bætið öllum öðrum hráefnum, fyrir utan limesafa, í pottinn og látið sjóða við vægan hita í 25 mínútur. Hrærið annað slagið í pottinum á meðan. Setjið í skálar og kreistið limesafa yfir. Berið fram með góðu brauði.