Mig grunar að flestir séu með hugann við eurovision í kvöld og fæstir, ef nokkur, að hugsa um grænmetisrétti. Ég get þó ekki annað en sett þessa uppskrift inn, bæði vegna þess að rétturinn er góður og líka vegna þess að ég var búin að lofa grænum uppskriftum á þriðjudögum út mánuðinn. Ekki vil ég svíkja það svona strax í upphafi!
Það eru margir kostir við þessa pastasósu. Hráefnið er ódýrt og hún er holl, einföld og góð. Það er upplagt að leyfa henni malla á sunnudegi og setja síðan í box í ísskáp til að eiga síðar í vikunni. Það er svo notalegt eftir langan dag að þurfa ekki að hafa meira fyrir kvöldverðinum en að sjóða pasta og hita upp sósuna. Það er bæði gott að setja fetaost eða rífa parmesan yfir réttinn og gott brauð eða hvítlauksbrauð fullkomnar máltíðina. Síðan er líka hægt að nota sósuna með kotasælu í lasagna. Eða að hræra sósunni saman við soðið pasta og setja í eldfast mót með vel af rifnum osti yfir og baka í ofni þar til osturinn hefur bráðnað. Möguleikarnir eru endalausir!
Pastasósa með linsubaunum og gulrótum
- 1 laukur
- 2 hvítlauksrif
- ½ tsk kanil
- 2 msk tómatpuré
- 1 msk paprikukrydd
- 1 dl balsamik edik
- 2 dósir hakkaðir tómatar
- 2 dl rauðar linsubaunir (eða blanda af rauðum og grænum)
- 2 grænmetisteningar
- vatn eftir þörfum (ca 3-4 dl)
- 2 stórar gulrætur
- salt og pipar
Fínhakkið lauk og hvítlauk. Bræðið smjör á pönnu og steikið lauk og hvítlauk við miðlungsháan hita þar til mjúkt. Bætið kanil, tómatpuré og paprikukryddi saman við og látið malla aðeins saman. Bætið balsamik ediki saman við. Bætið hökkuðum tómötum og linsubaunum á pönnuna og myljið grænmetisteningana út í. Látið nú sjóða saman við vægan hita þar til baunirnar eru orðnar mjúkar. Bætið vatni við eftir þörfum, linsubaunirnar sjúga í sig vel af vökvanum meðan þær sjóða. Rífið gulræturnar og blandið saman við undir lokin. Smakkið til með salti og pipar.
Ein athugasemd á “Pastasósa með linsubaunum og gulrótum”