Síðan ég rakst á sænsku Paulúns vörurnar síðastliðið haust og fékk samstundis gífurlegt nostalgíukast, hef ég byrjað ófáa dagana með skál af AB-mjólk með Paulúns múslí eða granóla. Ég sé til þess að eiga alltaf kassa bæði hér heima og í vinnunni til að geta sett út á Ab-mjólk eða gríska jógúrt þegar ég er svöng. Mér þykir það fljótlegt og gott en bæði múslíið og granólað er það besta sem ég hef keypt. Ég held enn í vonina að sjá fleiri vörur frá Paulúns bætast í hillur verslanna.
Í veðurblíðunni sem var hér um síðustu helgi, og hvarf því miður jafn skjótt og hún kom, bjó ég til íspinna úr grískri jógúrt sem ég bætti granóla og bláberjum í. Þeir vöktu mikla lukku og voru fljótir að klárast. Íspinnarnir eru í raun frábær morgunverður og sniðugir sem millimál því múslíið er ekki með viðbættum sykri og því hægt að gefa krökkunum þá í morgunmat eða eftir skóla með góðri samvisku. Einfalt og súpergott!
Jógúrtís með granóla og berjum
- 2 dl grísk jógúrt
- ½ tsk vanillusykur eða vanilluduft
- 2 tsk hunang
- fersk ber, t.d. bláber eða hindber
- Paulúns granola með kakó og hindberjum
- ísform (fást t.d. fyrir lítinn pening í Ikea)
Blandið saman grískri jógúrt, vanillusykri og hunangi. Setjið á víxl í ísform jógúrtblönduna, granóla og ber. Sláið ísformunum nokkrum sinnum í borðið til að loftið fari úr þeim og setjið svo í frysti.