Það gleður mig að sjá hvað margir eru ánægðir með grænu þriðjudagsfærslurnar. Það vita eflaust allir sem lesa hér reglulega að ég er ekki grænmetisæta og ég hef engin plön um að hætta að borða kjöt. Ég hef þó lengi reynt að hafa að minnsta kosti einn kjötlausan dag í viku (sem er náttúrlega ósköp lítið mál) og þegar það var óskað eftir fleiri grænmetisuppskriftum ákvað ég að lífga aðeins upp á þann uppskriftaflokk hér á síðunni. Það eru svo margir duglegir í grænmetisfæðinu og um daginn fékk ég póst frá einni sem var með kjötlaust heimili í fyrra sem sagðist oft hafa breytt kjötréttum af síðunni í grænmetisrétti, t.d. með því að nota nýrnabaunir í stað kjúklings í mexíkósku kjúklingasúpunni, svartar baunir eða pintóbaunir í tacolasagnað og grænmeti í aðrar lasagna uppskriftir. Mér þóttu þetta stórgóðar ábendingar og mátti til að koma þeim á framfæri.
Grænmetisuppskrift dagsins er ekki af verri endanum, halloumi hamborgari. Hann gefur hefðbundnum hamborgurum ekkert eftir!
- 1 pakkning halloumi (250 g)
- 250 g gulrætur
- 1/2 tsk salt
- 2 egg
- 1 dl brauðraspur
- chili explotion krydd
Rífið ostinn og gulræturnar og setjið í skál ásamt öllum hinum hráefnunum. Látið standa í 5 mínútur. Mótið 3 hamborgara og steikið í smjöri þar til komnir með góða steikingarhúð.
Hvar fæst halloumi ? Er þetta ostur?
Já, þetta er ostur. Hann fæst í flestum matvöruverslunum, ég hef t.d. oft séð hann í Hagkaup. Ég sá hann líka nýlega í Nettó.
>
Girnilegt, hvernig sósu ertu með á honum ? og ekki eru sætkarföflurnar síðri, má ég spyrja hvað þú gerir við þær ? (ég er sjaldnast ánægð með mínar) 🙂
Sósan er Big Mac hamborgarasósan sem Mc Donalds gaf uppskriftina af síðasta sumar. Ég skal setja inn uppskriftina í kvöld. Sætkartöflufranskarnar eru bara keyptar frosnar og djúpsteiktar 🙂
Mjög góðir hamborgarar og sósan líka 🙂