Við erum loksins komin í langþráð sumarfrí. Á þriðjudaginn unnum við Öggi okkar síðasta vinnudag fyrir frí og í gær vann Malín sinn síðasta dag í unglingavinnunni og kláraði jafnframt hraðlestrarskólann sem hún ákvað af eigin frumkvæði að fórna sumrinu í. Við erum því öll komin í sumarfrí núna og ráðum okkur varla fyrir gleði.
Heppnin var með okkur í gær, á okkar fyrsta sumarfrísdegi, þegar sólin ákvað að glenna sig og við tókum snögga ákvörðun um að drífa okkur með strákana á Glym. Við höfum gengið á Glym síðustu sumur og krökkunum þykir það æðisleg ævintýraför.
Náttúrufegurðin þar er ólýsanleg og gönguleiðin skemmtileg. Þessar ferðir okkar hafa staðið svolítið upp úr eftir sumarið og strákarnir hafa beðið spenntir í sumar eftir að fara. Í gær var allt eins og það átti að vera, veðrið var fallegt, útsýnið stórbrotið og við snérum endurnærð heim.
Það var þéttsetið við eldhúsborðið um helgina þegar við vorum með matarboð tvö kvöld í röð. Við buðum mömmu til okkar annað kvöldið og ég prófaði nýja uppskrift af tacolasagna sem vakti mikla lukku og verður klárlega oftar á borðum hjá okkur í framtíðinni. Mér þykir svo mikill fjársjóður í svona uppskriftum, sem eru góðar en einfaldar, og því ekkert mál að blása til veislu með lítilli fyrirhöfn. Frábær föstudagsmatur sem ætti að falla vel í kramið hjá matargestum. Prófið!
Tacolasagna
- 1 poki nachos flögur (ég notaði ostanachos frá Santa María)
- 300 g nautahakk
- 1 hvítlauksrif
- 1 bréf tacokrydd
- 1 púrrulaukur
- 1 dl ólívur
- 225 g tacosósa
- 400 g niðursoðnir hakkaðir tómatar
- 2 dl sýrður rjómi
- 2 dl rifinn ostur
Hitið ofninn í 225°.
Setjið nachos í botn á eldföstu móti.
Brúnið nautahakk á pönnu og blandið pressuðu hvítlauksrifi og tacokryddi saman við.
Setjið nautahakkið yfir nachosið.
Skerið púrrulaukinn í sneiðar og ólívurnar í tvennt og stráið yfir nautahakkið.
Blandið tacosósu og niðursoðnum tómötum saman og setjið yfir púrrulaukinn og ólívurnar.
Hrærið sýrða rjómann svo hann þynnist aðeins (setjið jafnvel 1 msk af vatni saman við hann) og breiðið hann yfir tómatsósuna.
Endið á að strá rifnum osti yfir.
Bakið í miðjum ofni í 25-30 mínútur.
Berið fram með góðu salati og jafvel guacamole, sýrðum rjóma eða salsa.
Girnilegt! Þarna er föstudagsmaturinn kominn 🙂
takk fyrir mjög góðar uppskriftir, eldaði þessa í gær og bauð börnum og barnabörnum í mat, dóttursonur minn gaf matnum 5 stjörnur
Ótrúlega einfalt og gott mælið með þessari uppskrift eins og mörgum öðrum hjá þér.