Hamborgarar með pipar- og mexíkóosti

Það fór lítið fyrir grillkvöldunum hjá mér þetta sumarið og í raun var grillið skammarlega lítið notað. Það fær þó að standa frammi eitthvað áfram, enda svo sem engin ástæða til að ganga frá því strax. Ég er vön að rúlla grillinu inn í skúr þegar haustlægðirnar byrja að ganga yfir því ég er svo hrædd um að það fari á flakk annars. Veit ekki hversu oft ég hef hlupið út á pall á náttsloppnum til að koma grillinu í skjól á haustnóttum. Ég vona að mér takist að koma í veg fyrir slík ævintýri í ár.

Ein vinkona mín sagði mér frá svo góðum hamborgurum sem þau hjónin gera sér stundum og ég mátti til með að prófa þá. Ég veit að þau eru snjöll í eldhúsinu og hef nú þegar birt aðra æðislega uppskrift frá þeim hér á blogginu, sem ég mæli svo sannarlega með. Þegar þau eru búin að grilla hamborgara á annari hliðinni þá snúa þau honum við og raða piparosti og mexíkóosti yfir (skera þá í þunnar sneiðar og leggja þá hlið við hlið yfir borgarann), setja svo rifsberjahlaup yfir ostana og ost (t.d. Gouda) yfir rifsberjahlaupið. Þau loka svo grillinu og leyfa þessu að bráðna yfir hamborgarann. Hamborgarinn er svo borinn fram með hefðbundu meðlæti og það er sérlega gott að setja líka sterkt sinnep á borgarann. Klikkaðslega gott!

Hamborgarar í sætri kartöflu

Malín og Oliver hafa upp á síðkastið beðið um að fá að sjá um kvöldmatinn stöku kvöld hér heima og það er heldur betur auðsótt hjá þeim. Mér þykir algjör lúxus að fá hvíld frá eldhúsinu inn á milli og sérstaklega í hversdagsamstrinu, þegar ég er að koma seint heim og það bíða jafnvel mörg verkefni um kvöldið.

Um daginn var eitt af þeim kvöldum sem þau sáu um matinn og hann varð svo æðislega góður að ég má til með að deila uppskriftinni… eða réttara sagt hugmyndinni. Það er nefnilega alveg frábært að skipta hamborgarabrauði út fyrir sæta kartöflu, eins og þau gerðu. Þau skáru sætu kartöflurnar í þykkar sneiðar, pensluðu þær með olíu og krydduðu með maldonsalti, svörtum pipar og chili explosion. Kartöflurnar voru síðan bakaðar við 180° þar til mjúkar í gegn. Hamborgararnir voru síðan steiktir (líka gott að grillla þá!) og svo voru herlegheitin borin fram með hefðbundu meðlæti. Klikkgott!

Halloumi hamborgarar

Það gleður mig að sjá hvað margir eru ánægðir með grænu þriðjudagsfærslurnar. Það vita eflaust allir sem lesa hér reglulega að ég er ekki grænmetisæta og ég hef engin plön um að hætta að borða kjöt. Ég hef þó lengi reynt að hafa að minnsta kosti einn kjötlausan dag í viku (sem er náttúrlega ósköp lítið mál) og þegar það var óskað eftir fleiri grænmetisuppskriftum ákvað ég að lífga aðeins upp á þann uppskriftaflokk hér á síðunni. Það eru svo margir duglegir í grænmetisfæðinu og um daginn fékk ég póst frá einni sem var með kjötlaust heimili í fyrra sem sagðist oft hafa breytt kjötréttum af síðunni í grænmetisrétti, t.d. með því að nota nýrnabaunir í stað kjúklings í mexíkósku kjúklingasúpunni, svartar baunir eða pintóbaunir í tacolasagnað og grænmeti í aðrar lasagna uppskriftir. Mér þóttu þetta stórgóðar ábendingar og mátti til að koma þeim á framfæri.

Grænmetisuppskrift dagsins er ekki af verri endanum, halloumi hamborgari. Hann gefur hefðbundnum hamborgurum ekkert eftir!

 Halloumi hamborgarar (uppskriftin gefur 3 borgara)
 • 1 pakkning halloumi (250 g)
 • 250 g gulrætur
 • 1/2 tsk salt
 • 2 egg
 • 1 dl brauðraspur
 • chili explotion krydd

Rífið ostinn og gulræturnar og setjið í skál ásamt öllum hinum hráefnunum. Látið standa í 5 mínútur. Mótið 3 hamborgara og steikið í smjöri þar til komnir með góða steikingarhúð.

 

 

Nautahakkshamborgarar

Í kvöld fer lítið fyrir eldamennskunni hjá mér því ég er að fara í saumaklúbb. Áður en ég fer ætla ég þó að hendast í Hagkaup í Smáralindinni því ég sá að það er 20% afsláttur af snyrtivöru þar í kvöld út af konukvöldi. Tímasetningin gæti ekki verið heppilegri því ilmvatnið mitt er að klárast og augnblýanturinn er á síðustu metrunum. Síðan má alltaf á sig glossum bæta, sérstaklega þegar það er afsláttur. Áður en ég hleyp út má ég þó til með að setja inn uppskrift af nautahakkshamborgurum sem mér þykja passa svo vel á helgarmatseðilinn. Ég sá þá fyrir löngu á Pinterest og lét loksins verða af því að elda þá um daginn. Einfaldir og súpergóðir!

Nautahakkshamborgarar – lítillega breytt uppskrift frá Kevin & Amanda

 • 450 g nautahakk
 • 1 tsk salt
 • 1 tsk pepper
 • 1 tsk kúmin (ath. ekki kúmen)
 • 1 tsk sinnepsduft
 • 1/2 tsk reykt paprika
 • 2 bollar hakkaður laukur (ca 1 stór eða 2 litlir laukar)
 • 3-4 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 2 dl hakkaðir tómatar í dós með chili (ég var með frá Hunts)
 • 1 tsk sykur
 • 1 nautateningur
 • ostur (ég var með cheddar ost)
 • 6 hamborgarabrauð

Gljái

 • 1/2 bolli (8 msk) smjör
 • 2 msk púðursykur
 • 1 msk Worcestershire sósa
 • 1 msk sinnep
 • 1 msk sesamfræ

Hitið ofninn í 175° og smyrjið eldfast mót sem rúmar 6 hamborgarabrauð.

Hitið pönnu vel og setjið hakkið á pönnuna. Látið það brúnast vel og kryddið með salti, pipar, kúmin, sinnepsdufti og reyktri papriku. Bætið lauk og hvítlauk á pönnuna og steikið áfram þar til laukurinn er mjúkur. Hrærið hökkuðu tómötunum saman við og látið sjóða saman í smá stund.

Setjið neðri helmingana af hamborgarabrauðunum í eldfasta mótið. Setjið nautahakkið yfir og ost í sneiðum (gott að setja vel af honum). Setjið lokin af hamborgarabrauðunum yfir.

Setjið öll hráefnin í gljáann í pott og hitið þar til allt hefur blandast vel saman. Hellið yfir hamborgarana og setjið í ofninn í um 25 mínútur.

Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósu

 

Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósu

Páskafríið í ár hefur verið óvenju ljúft og við höfum lítið annað gert en að slappa af og borða. Við byrjuðum fríið á að bjóða mömmu og bróður mínum hingað í kjúklingaborgara sem voru bornir fram í smjörsteiktu brioche brauði, með æðislegri hvítlaukschilisósu, pækluðum rauðlauk og gúrku, avokadó og helling af kóriander. Súpergott!! Sem meðlæti djúpsteikti ég bæði venjulegar franskar og sætkartöflufranskar. Mamma sagðist aldrei hafa fengið jafn góða borgara og bróðir minn borðaði svo yfir sig að hann var enn saddur daginn eftir.

Kjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósuKjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósuKjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósuKjúklingaborgari með pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og hvítlaukschilisósu

Kjúklingaborgarar (uppskrift frá Matplatsen)

 • 4 brioche hamborgarabrauð
 • 4 kjúklingabringur (150 g hver)
 • 1 dl hveiti
 • 2 tsk chilikrydd
 • 2 tsk kúmín (ath. ekki kúmen)
 • 1 msk paprikukrydd
 • 1 tsk salt
 • 1-2 egg
 • 2-4 dl panko (japanskt rasp)
 • kóriander og avókadó til að bera kjúklingaborgarann fram með

Ef kjúklingabringurnar eru þykkar þá er byrjað á að skera þær í tvennt til að fá þær þynnri. Kjúklingabringurnar eru síðan barðar út t.d. með buffhamri.

Blandið hveiti og kryddum saman í grunna skál. Hrærið eggið aðeins upp og setjið í aðra skál. Setjið panko í þriðju skálina. Veltið kjúklingabringunum fyrst upp úr hveitiblöndunni, síðan egginu og að lokum panko. Djúpsteikið kjúklinginn við 160° þar til hann er gylltur og stökkur. Látið renna af honum á eldhúspappír.

Takið brioche hamborgarabrauðin í sundur og steikið í smjöri á pönnu við miðlungshita þar til þau hafa fengið fallegan lit.

Hvítlaukschilisósa:

 • 4 hvítlauksrif
 • hálft lime
 • 1 dl mæjónes
 • 1 dl sýrður rjómi
 • chilisósa eftir smekk (byrjið með 2 msk og smakkið ykkur áfram)

Pressið hvítlaukinn og safann úr lime og blandið með mæjónesi og sýrðum rjóma. Bætið chilisósunni saman við að lokum eftir smekk.

Hraðpækluð gúrka:

 • 1 agúrka
 • 1 msk borðsedik
 • 1 dl vatn
 • 2 msk sykur
 • salt og svartur pipar

Skerið gúrkuna í þunnar sneiðar með ostaskera. Blandið borðsediki, vatni og sykur saman og smakkið til með salti og pipar. Hellið yfir gúrkuna.

Pæklaður rauðlaukur:

 • 2 rauðlaukar
 • safinn úr 2 lime
 • 1/2 dl eplaedik
 • salt

Skerið rauðlaukinn í þunnar sneiðar og blandið saman við hin hráefnin. Látið standa í amk 15 mínútur áður en borið fram.

Setjið hamborgarana saman með sósu, djúpsteiktum kjúklingnum, avókadó, pækluðum rauðlauk, hraðpæklaðri gúrku og helling af kóriander.

Grillaðir BBQ hamborgarar

Grillaðir BBQ hamborgararSumarfríið mitt byrjar vel. Við höfum verið hér heima í rólegheitum, strákarnir mæta á fótboltaæfingar daglega og á kvöldin höfum við grillað og farið í kvöldgöngur. Í fyrrakvöld fórum við Elliðarárdalinn, hann svíkur aldrei með sinni veðursæld og náttúrufegurð og síðan hafa krakkarnir gaman af kanínunum þar. Í gærkvöldi gengum við síðan Reykjadalinn. Þangað ættu allir að fara. Að liggja þar í heitu náttúrulaugum á sumarkvöldum, það gerist varla dásamlegra. Ég setti pulsur í hitabrúsa, pakkaði pulsubrauðum, drykkjum og súkkulaði í bakpoka og bauð upp á í lauginni við miklar vinsældir.

Grillaðir BBQ hamborgarar

Ég veit að það hefur verið mikið um grillrétti hér upp á síðkastið en ég er bara svo ánægð með að vera komin með almennilegt grill að við slökkvum varla á því. Um helgina grilluðum við hamborgara sem voru svo brjálæðislega góðir að ég má til með að gefa uppskrift af þeim. Í kvöld grilluðum við kjúkling sem ég verð líka að gefa ykkur uppskrift af, en það verður að vera síðar.

Grillaðir BBQ hamborgarar

Ég las einhvern tímann hjá Jamie Oliver að það geri gæfumun að pensla hamborgara með blöndu af sinnepi og Tabasco á meðan þeir eru grillaðir. Það hefur reynst mér vel að fylgja því sem hann segir og  líkt og áður hafði hann rétt fyrir sér, hamborgararnir verða súpergóðir við þetta. Annað sem mér þykir gott að hafa á hamborgurum er  lauk sem hefur legið í ísköldu vatni. Við það að leggja laukinn í kalt vatn áður en hann er borinn fram verður hann svo stökkur og góður.

Grillaðir BBQ hamborgarar

Við fullkomna hamborgaraveisluna með djúpsteiktum frönskum úr nýja djúpsteikingarpottinum okkar. Ég veit að það er mikið smartara og meira í tísku að kaupa djúsvél en mig hefur langað í djúpsteikingarpott í þó nokkurn tíma og þegar ég sá að Hagkaup er með 20% afslátt af öllum rafvörum í júlí ákvað ég að slá til. Potturinn kostaði tæpar 5 þúsund krónur með afslættinum og ég er hæstánægð. Franskar kartöflur verða svo margfalt betri við djúpsteikingu en það sem ég er þó aðallega spennt fyrir er að djúpsteikja camembert. Það mun heldur betur poppa ostabakkan upp. Við djúpsteiktum líka chili cheese sem við keyptum frosið og var skemmtileg viðbót í hamborgaraveisluna.

Grillaðir BBQ hamborgarar (ég gerði 8 hamborgara sem voru um 150 g hver)

 • 1 kg nautahakk
 • 2 dl Hunt´s Orginal BBQ sauce
 • salt og pipar
 • 1/2 dl gult sinnep (yellow mustard, t.d. frá Hunt´s)
 • Tabasco
 • beikon
 • cheddar ostur

Hrærið öllu saman og mótið 8 hamborgara (um 150 g hver). Hrærið saman gulu sinnepi og tabasco (magn eftir smekk, ég set ca 1/4 úr teskeið). Setjið hamborgarana á grillið og grillið beikonið samhliða. Penslið sinnepinu yfir hamborgarana á meðan þeir grillast og þegar þið snúið þeim við. Þegar hamborgararnir eru nánast fullgrillaðir er cheddar ostur settur yfir ásamt beikoni. Setjið hamborgarabrauðin yfir hamborgarann (lokið ofan á hamborgarann og botninn ofan á lokið, sbr. myndina hér að neðan) og lokið grillinu í smá stund á meðan osturinn bráðnar og brauðið hitnar.

Grillaðir BBQ hamborgararGrillaðir BBQ hamborgararGrillaðir BBQ hamborgararGrillaðir BBQ hamborgararGrillaðir BBQ hamborgarar

BBQ-hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluosti

BBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluostiVið erum búin að eyða helginni á Akureyri í dásamlegri veðurblíðu. Hér er alltaf jafn yndislegt að vera og krakkarnir eru í skýjunum enda ekki annað hægt þegar farið er tvisvar á dag í Brynjuís og kvöldunum eytt í Eymundsson yfir heitu súkkulaði, tímaritum og brandarabókum (sjálf held ég mér við matreiðslubækurnar en nýt góðs af upplestri af bestu bröndurunum undir kítlandi hlátri bræðranna). Það er óhætt að segja að við njótum til hins ýtrasta að vera í fríi saman.

BBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluostiBBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluostiBBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluostiBBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluosti

Mér skilst að það eigi að vera fínasta veður víðsvegar um landið í dag en svo taki rigningin við á morgun. Það er því um að gera að draga grillið fram fyrir kvöldið og gera vel við sig. Ég mæli svo sannarlega með að þessir dásamlegu hamborgarar lendi á grillinu í kvöld. Þeir eru svo brjálæðislega góðir og bornir fram með þessum ofnbökuðum kartöfluhelmingum verður veislan seint toppuð.

BBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluostiBBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluosti

BBQ-hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluosti (5 hamborgarar)

 • 2 rauðlaukar
 • 2 msk smjör
 • 1 tsk púðursykur
 • 600 g nautahakk
 • ½ dl Hunt´s Honey Mustard BBQ Sauce
 • 1 msk estragon
 • salt
 • pipar
 • hvítmygluostur

Smjör er brætt á pönnu við miðlungsháan hita. Hökkuðum rauðlauk er bætt á pönnuna og látinn malla í smjörinu í 10 mínútur. Púðursykri er þá bætt á pönnuna og látið malla áfram í 10 mínútur. Á meðan er hrært reglulega í lauknum. Ef laukurinn dökknar of hratt þá er hitinn lækkaður.

Nautahakk, estragon, Hunt´s Honey Mustard BBQ Sauce, salt og pipar er blandað saman og mótaðir 5 hamborgarar. Hamborgararnir eru grillaðir á lokuðu grilli í um 3 mínútur, þá er þeim snúið við og ostasneiðar lagðar ofan á. Grillinu er lokað aftur og hamborgararnir grillaðir áfram í um 6 mínútur. Undir lokin eru hamborgarabrauðum bætt á grillið og þau hituð.

Hamborgararnir eru bornir fram með karamelluhúðaða rauðlauknum, salati, góðri hamborgarasósu og jafnvel líka beikoni og avokadó.

 

Heimagerðir BBQ-hamborgarar

Heimagerðir BBQ-hamborgarar

Við fengum æði fyrir grilluðum hamborgurum síðasta sumar og langt fram á vetur stóð Öggi við grillið. Yfir háveturinn tókum við kærkomna hvíld en nú erum við að komast aftur í grillstuð. Um síðustu helgi ákváðum við að það væri tími til kominn að setja borgara aftur á grillið og gerðum hamborgara sem voru svo góðir að ég má til með að setja þá hingað inn sem tillögu að mat fyrir kvöldið.

Heimagerðir BBQ-hamborgararÞað er glettilega einfalt að gera hamborgara og heimagerðir hamborgarar eru svo margfalt betri en keyptir. Það er varla hægt að líkja þeim saman. Hamborgararnir sem ég setti inn síðasta sumar (uppskriftin að þeim er hér) hafa verið í uppáhaldi en nú er ég hrædd um að það sé kominn hættulegur keppinautur.

Heimagerðir BBQ-hamborgarar

Við ætluðum að grilla borgarana en þegar til kastana kom vantaði gas á grillið. Grillpannan var því dregin fram og fékk að redda málunum.

Heimagerðir BBQ-hamborgarar

Í hamborgarana fóru bbq-sósa, rifinn cheddarostur og krydd sem gerðu þá bæði bragðmikla og safaríka. Ég var í byrjun smeyk um að Malín myndi fúlsa við þeim því hún er ekki mikið fyrir bbq-sósu en áhyggjurnar reyndust óþarfar. Borgararnir slóu í gegn hjá öllum og verða klárlega tíðir gestir á grillinu í sumar.

Heimagerðir BBQ-hamborgarar

BBQ-hamborgarar (ca 10 hamborgarar)

 • 900 g nautahakk
 • 1/2 bolli rifinn cheddar ostur
 • 1/4 bolli barbecue sósa
 • Lawry´s seasoned salt
 • svartur pipar
 • laukduft
 • 10 hamborgarabrauð

Heimagerðir BBQ-hamborgarar

Hrærið nautahakki, rifnum cheddar osti, barbecue sósu, salti, pipar og laukdufti saman og mótið hamborgara úr blöndunni. Mér þykir ágætt að vikta nautahakksblönduna áður en ég móta hamborgarana og miða þá við 90 g fyrir krakkana og 120+ g fyrir fullorðna. Hitið pönnu vel og látið þunnt lag af smjöri á hana. Lækkið hitann í miðlungsháan og steikið hamborgarann í 4-6 mínútur, snúið honum þá við og steikið þar til hann er tilbúinn.

Sósa

 • 3/4 bolli mæjónes
 • 1/4 bolli tómatsósa
 • 1/4 bolli relish
 • 2 msk worcestershire sósa
 • Lawry´s seasoned salt

Hrærið öllu vel saman og smakkið til. Geymið í kæli þar til sósan er borin fram.

Heimagerðir hamborgarar

Það væsir ekki um okkur þessa dagana. Nýja vöfflujárnið er í stöðugri notkun og í dag langaði strákunum aftur í vöfflur þannig að ég skellti í deig á meðan þeir hlupu út í búð eftir rjóma. Þegar heim var komið þeyttu strákarnir rjómann undir dyggri leiðsögn Malínar á meðan hún náði í suðusúkkulaði upp í skáp og hakkaði niður. Vöfflur dagsins voru því hefðbundnar með sultu og rjóma fyrir utan þær spariklæddu sem fengu vænan skammt af súkkulaði yfir sig. Það eru allir voða glaðir með vöffluæðið þessa dagana og við skiljum ekki hvernig við gátum verið vöfflujárnslaus síðasta árið.

Ég átti leið í Kost í dag. Mér finnst alltaf svo gaman að komast í nýtt vöruúrval en í dag komst ég í það allra besta, uppáhalds Ameríska tímaritið mitt, Fine Cooking. Þegar ég hef farið til Bandaríkjana hefur það verið mitt fyrsta verk að ná mér í það blað því það hefur ekki fengist hér á landi. En núna fékkst það í Kosti og ég vona að það sé komið til að vera. Við ákváðum að prófa strax uppskrift úr blaðinu og grilluðum heimagerða hamborgara sem voru algjört æði.

Hamborgarar

 • 2 msk smjör
 • 2 miðlungsstórir laukar, hakkaðir
 • ca 850 gr nautahakk (2 bakkar)
 • 2 msk estragon (helst ferskt en ég var með þurrkað)
 • 2 msk dijon sinnep (ég notaði 1 msk af dijon sinnepi og eina af þessu)
 • 2 msk Worcestershire sauce
 • gráðostur (ég notaði mjúkan hvítmygluost sem heitir Auður)
 • hamborgarabrauð

Bræðið smjörið á pönnu við miðlungs hita og setjið laukinn á pönnuna. Látið laukinn malla í smjörinu í ca 20 mínútur og hrærið reglulega í honum. Ef ykkur finnst laukurinn vera að dökkna of hratt lækkið þá hitann.

Blandið nautahakki, estragoni, sinnepi og Worcestershire sósu vel saman í höndunum og mótið 5-6 hamborgara. Grillið hamborgarana í lokuðu grilli í ca 3 mínútur, snúið þeim og leggið gráðostasneiðar ofan á. Lokið grillinu aftur og grillið í ca 6 mínútur eða þar til hamborgarnir eru tilbúnir. Síðustu mínúturnar eru hamborgarabrauðin sett á grillið og hituð. Berið hamborgarana fram með karamelluhúðaða lauknum, káli og góðri hamborgarasósu eða hverju því sem hugurinn girnist.