Við erum búin að eyða helginni á Akureyri í dásamlegri veðurblíðu. Hér er alltaf jafn yndislegt að vera og krakkarnir eru í skýjunum enda ekki annað hægt þegar farið er tvisvar á dag í Brynjuís og kvöldunum eytt í Eymundsson yfir heitu súkkulaði, tímaritum og brandarabókum (sjálf held ég mér við matreiðslubækurnar en nýt góðs af upplestri af bestu bröndurunum undir kítlandi hlátri bræðranna). Það er óhætt að segja að við njótum til hins ýtrasta að vera í fríi saman.
Mér skilst að það eigi að vera fínasta veður víðsvegar um landið í dag en svo taki rigningin við á morgun. Það er því um að gera að draga grillið fram fyrir kvöldið og gera vel við sig. Ég mæli svo sannarlega með að þessir dásamlegu hamborgarar lendi á grillinu í kvöld. Þeir eru svo brjálæðislega góðir og bornir fram með þessum ofnbökuðum kartöfluhelmingum verður veislan seint toppuð.
BBQ-hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluosti (5 hamborgarar)
- 2 rauðlaukar
- 2 msk smjör
- 1 tsk púðursykur
- 600 g nautahakk
- ½ dl Hunt´s Honey Mustard BBQ Sauce
- 1 msk estragon
- salt
- pipar
- hvítmygluostur
Smjör er brætt á pönnu við miðlungsháan hita. Hökkuðum rauðlauk er bætt á pönnuna og látinn malla í smjörinu í 10 mínútur. Púðursykri er þá bætt á pönnuna og látið malla áfram í 10 mínútur. Á meðan er hrært reglulega í lauknum. Ef laukurinn dökknar of hratt þá er hitinn lækkaður.
Nautahakk, estragon, Hunt´s Honey Mustard BBQ Sauce, salt og pipar er blandað saman og mótaðir 5 hamborgarar. Hamborgararnir eru grillaðir á lokuðu grilli í um 3 mínútur, þá er þeim snúið við og ostasneiðar lagðar ofan á. Grillinu er lokað aftur og hamborgararnir grillaðir áfram í um 6 mínútur. Undir lokin eru hamborgarabrauðum bætt á grillið og þau hituð.
Hamborgararnir eru bornir fram með karamelluhúðaða rauðlauknum, salati, góðri hamborgarasósu og jafnvel líka beikoni og avokadó.
2 athugasemdir á “BBQ-hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluosti”