Við erum enn á Akureyri og njótum þess til hins ýtrasta. Í morgun fóru strákarnir með nágrannakrökkunum í sund og þegar þeir komu heim keyrðum við á Kaffi Kú sem er hér í Eyjafirðinum. Ef þið eigið leið hér framhjá með krakka þá mæli ég hiklaust með viðkomu þar. Kaffihúsið er staðsett yfir fjósi og á meðan við gæddum okkur á nýbökuðum vöfflum og heitu súkkulaði var hægt að fylgjast með því sem gerðist í fjósinu. Eftir kaffið fórum við síðan niður í fjósið þar sem strákarnir hefðu vel getað eytt því sem eftir er af sumrinu.
Mér datt í hug að setja hér hugmynd að fljótlegri máltíð sem ég gríp stundum til þegar strákarnir eru svangir og allt þarf að gerast í einum hvelli. Nú er ég ekki að koma með neina spennandi uppskrift heldur einfaldlega að minna á það sem flestir hafa eflaust gert, steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum. Þetta er alltaf jafn gott og krakkarnir fá ekki nóg af þessu. Frábært að grípa til hvort sem er í hádegisverð eða þegar enginn hefur tíma til að elda kvöldverð.
Steikt brauð með eggi, tómatsósu og bökuðum baunum
- samlokubrauðsneiðar
- egg
- bakaðar baunir
Hitið smjör á pönnu. Skerið hring sem er á stærð við eggjarauðu úr miðju brauðsneiðarinnar. Setjið brauðsneiðina á pönnuna og brjótið eggið yfir þannig að eggjarauðan lendi í holunni. Steikið á báðum hliðum og berið fram með tómatsósu og bökuðum baunum (ég hita þær alltaf aðeins í örbylgjuofninum).
Takk fyrir góða áminningu! Ég er einmitt ein heima þessa vikuna og vantaði hugmyndir að einhverju sem er þægilegt að elda fyrir einn. Ekki skemmir hvað þessi einfaldi og fljótlegi réttur er góður og ódýr.
Sonur minn elskaði þetta 🙂 Heima hjá mér heitir þetta egg í holu 🙂