BBQ-hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluosti

BBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluostiVið erum búin að eyða helginni á Akureyri í dásamlegri veðurblíðu. Hér er alltaf jafn yndislegt að vera og krakkarnir eru í skýjunum enda ekki annað hægt þegar farið er tvisvar á dag í Brynjuís og kvöldunum eytt í Eymundsson yfir heitu súkkulaði, tímaritum og brandarabókum (sjálf held ég mér við matreiðslubækurnar en nýt góðs af upplestri af bestu bröndurunum undir kítlandi hlátri bræðranna). Það er óhætt að segja að við njótum til hins ýtrasta að vera í fríi saman.

BBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluostiBBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluostiBBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluostiBBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluosti

Mér skilst að það eigi að vera fínasta veður víðsvegar um landið í dag en svo taki rigningin við á morgun. Það er því um að gera að draga grillið fram fyrir kvöldið og gera vel við sig. Ég mæli svo sannarlega með að þessir dásamlegu hamborgarar lendi á grillinu í kvöld. Þeir eru svo brjálæðislega góðir og bornir fram með þessum ofnbökuðum kartöfluhelmingum verður veislan seint toppuð.

BBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluostiBBQ-Hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluosti

BBQ-hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluosti (5 hamborgarar)

 • 2 rauðlaukar
 • 2 msk smjör
 • 1 tsk púðursykur
 • 600 g nautahakk
 • ½ dl Hunt´s Honey Mustard BBQ Sauce
 • 1 msk estragon
 • salt
 • pipar
 • hvítmygluostur

Smjör er brætt á pönnu við miðlungsháan hita. Hökkuðum rauðlauk er bætt á pönnuna og látinn malla í smjörinu í 10 mínútur. Púðursykri er þá bætt á pönnuna og látið malla áfram í 10 mínútur. Á meðan er hrært reglulega í lauknum. Ef laukurinn dökknar of hratt þá er hitinn lækkaður.

Nautahakk, estragon, Hunt´s Honey Mustard BBQ Sauce, salt og pipar er blandað saman og mótaðir 5 hamborgarar. Hamborgararnir eru grillaðir á lokuðu grilli í um 3 mínútur, þá er þeim snúið við og ostasneiðar lagðar ofan á. Grillinu er lokað aftur og hamborgararnir grillaðir áfram í um 6 mínútur. Undir lokin eru hamborgarabrauðum bætt á grillið og þau hituð.

Hamborgararnir eru bornir fram með karamelluhúðaða rauðlauknum, salati, góðri hamborgarasósu og jafnvel líka beikoni og avokadó.

 

Heimagerðir BBQ-hamborgarar

Heimagerðir BBQ-hamborgarar

Við fengum æði fyrir grilluðum hamborgurum síðasta sumar og langt fram á vetur stóð Öggi við grillið. Yfir háveturinn tókum við kærkomna hvíld en nú erum við að komast aftur í grillstuð. Um síðustu helgi ákváðum við að það væri tími til kominn að setja borgara aftur á grillið og gerðum hamborgara sem voru svo góðir að ég má til með að setja þá hingað inn sem tillögu að mat fyrir kvöldið.

Heimagerðir BBQ-hamborgararÞað er glettilega einfalt að gera hamborgara og heimagerðir hamborgarar eru svo margfalt betri en keyptir. Það er varla hægt að líkja þeim saman. Hamborgararnir sem ég setti inn síðasta sumar (uppskriftin að þeim er hér) hafa verið í uppáhaldi en nú er ég hrædd um að það sé kominn hættulegur keppinautur.

Heimagerðir BBQ-hamborgarar

Við ætluðum að grilla borgarana en þegar til kastana kom vantaði gas á grillið. Grillpannan var því dregin fram og fékk að redda málunum.

Heimagerðir BBQ-hamborgarar

Í hamborgarana fóru bbq-sósa, rifinn cheddarostur og krydd sem gerðu þá bæði bragðmikla og safaríka. Ég var í byrjun smeyk um að Malín myndi fúlsa við þeim því hún er ekki mikið fyrir bbq-sósu en áhyggjurnar reyndust óþarfar. Borgararnir slóu í gegn hjá öllum og verða klárlega tíðir gestir á grillinu í sumar.

Heimagerðir BBQ-hamborgarar

BBQ-hamborgarar (ca 10 hamborgarar)

 • 900 g nautahakk
 • 1/2 bolli rifinn cheddar ostur
 • 1/4 bolli barbecue sósa
 • Lawry´s seasoned salt
 • svartur pipar
 • laukduft
 • 10 hamborgarabrauð

Heimagerðir BBQ-hamborgarar

Hrærið nautahakki, rifnum cheddar osti, barbecue sósu, salti, pipar og laukdufti saman og mótið hamborgara úr blöndunni. Mér þykir ágætt að vikta nautahakksblönduna áður en ég móta hamborgarana og miða þá við 90 g fyrir krakkana og 120+ g fyrir fullorðna. Hitið pönnu vel og látið þunnt lag af smjöri á hana. Lækkið hitann í miðlungsháan og steikið hamborgarann í 4-6 mínútur, snúið honum þá við og steikið þar til hann er tilbúinn.

Sósa

 • 3/4 bolli mæjónes
 • 1/4 bolli tómatsósa
 • 1/4 bolli relish
 • 2 msk worcestershire sósa
 • Lawry´s seasoned salt

Hrærið öllu vel saman og smakkið til. Geymið í kæli þar til sósan er borin fram.

Heimagerðir hamborgarar

Það væsir ekki um okkur þessa dagana. Nýja vöfflujárnið er í stöðugri notkun og í dag langaði strákunum aftur í vöfflur þannig að ég skellti í deig á meðan þeir hlupu út í búð eftir rjóma. Þegar heim var komið þeyttu strákarnir rjómann undir dyggri leiðsögn Malínar á meðan hún náði í suðusúkkulaði upp í skáp og hakkaði niður. Vöfflur dagsins voru því hefðbundnar með sultu og rjóma fyrir utan þær spariklæddu sem fengu vænan skammt af súkkulaði yfir sig. Það eru allir voða glaðir með vöffluæðið þessa dagana og við skiljum ekki hvernig við gátum verið vöfflujárnslaus síðasta árið.

Ég átti leið í Kost í dag. Mér finnst alltaf svo gaman að komast í nýtt vöruúrval en í dag komst ég í það allra besta, uppáhalds Ameríska tímaritið mitt, Fine Cooking. Þegar ég hef farið til Bandaríkjana hefur það verið mitt fyrsta verk að ná mér í það blað því það hefur ekki fengist hér á landi. En núna fékkst það í Kosti og ég vona að það sé komið til að vera. Við ákváðum að prófa strax uppskrift úr blaðinu og grilluðum heimagerða hamborgara sem voru algjört æði.

Hamborgarar

 • 2 msk smjör
 • 2 miðlungsstórir laukar, hakkaðir
 • ca 850 gr nautahakk (2 bakkar)
 • 2 msk estragon (helst ferskt en ég var með þurrkað)
 • 2 msk dijon sinnep (ég notaði 1 msk af dijon sinnepi og eina af þessu)
 • 2 msk Worcestershire sauce
 • gráðostur (ég notaði mjúkan hvítmygluost sem heitir Auður)
 • hamborgarabrauð

Bræðið smjörið á pönnu við miðlungs hita og setjið laukinn á pönnuna. Látið laukinn malla í smjörinu í ca 20 mínútur og hrærið reglulega í honum. Ef ykkur finnst laukurinn vera að dökkna of hratt lækkið þá hitann.

Blandið nautahakki, estragoni, sinnepi og Worcestershire sósu vel saman í höndunum og mótið 5-6 hamborgara. Grillið hamborgarana í lokuðu grilli í ca 3 mínútur, snúið þeim og leggið gráðostasneiðar ofan á. Lokið grillinu aftur og grillið í ca 6 mínútur eða þar til hamborgarnir eru tilbúnir. Síðustu mínúturnar eru hamborgarabrauðin sett á grillið og hituð. Berið hamborgarana fram með karamelluhúðaða lauknum, káli og góðri hamborgarasósu eða hverju því sem hugurinn girnist.