Það væsir ekki um okkur þessa dagana. Nýja vöfflujárnið er í stöðugri notkun og í dag langaði strákunum aftur í vöfflur þannig að ég skellti í deig á meðan þeir hlupu út í búð eftir rjóma. Þegar heim var komið þeyttu strákarnir rjómann undir dyggri leiðsögn Malínar á meðan hún náði í suðusúkkulaði upp í skáp og hakkaði niður. Vöfflur dagsins voru því hefðbundnar með sultu og rjóma fyrir utan þær spariklæddu sem fengu vænan skammt af súkkulaði yfir sig. Það eru allir voða glaðir með vöffluæðið þessa dagana og við skiljum ekki hvernig við gátum verið vöfflujárnslaus síðasta árið.
Ég átti leið í Kost í dag. Mér finnst alltaf svo gaman að komast í nýtt vöruúrval en í dag komst ég í það allra besta, uppáhalds Ameríska tímaritið mitt, Fine Cooking. Þegar ég hef farið til Bandaríkjana hefur það verið mitt fyrsta verk að ná mér í það blað því það hefur ekki fengist hér á landi. En núna fékkst það í Kosti og ég vona að það sé komið til að vera. Við ákváðum að prófa strax uppskrift úr blaðinu og grilluðum heimagerða hamborgara sem voru algjört æði.
Hamborgarar
- 2 msk smjör
- 2 miðlungsstórir laukar, hakkaðir
- ca 850 gr nautahakk (2 bakkar)
- 2 msk estragon (helst ferskt en ég var með þurrkað)
- 2 msk dijon sinnep (ég notaði 1 msk af dijon sinnepi og eina af þessu)
- 2 msk Worcestershire sauce
- gráðostur (ég notaði mjúkan hvítmygluost sem heitir Auður)
- hamborgarabrauð
Bræðið smjörið á pönnu við miðlungs hita og setjið laukinn á pönnuna. Látið laukinn malla í smjörinu í ca 20 mínútur og hrærið reglulega í honum. Ef ykkur finnst laukurinn vera að dökkna of hratt lækkið þá hitann.
Blandið nautahakki, estragoni, sinnepi og Worcestershire sósu vel saman í höndunum og mótið 5-6 hamborgara. Grillið hamborgarana í lokuðu grilli í ca 3 mínútur, snúið þeim og leggið gráðostasneiðar ofan á. Lokið grillinu aftur og grillið í ca 6 mínútur eða þar til hamborgarnir eru tilbúnir. Síðustu mínúturnar eru hamborgarabrauðin sett á grillið og hituð. Berið hamborgarana fram með karamelluhúðaða lauknum, káli og góðri hamborgarasósu eða hverju því sem hugurinn girnist.
Þetta líst mér vel á.
Hef notað steiktann lauk í stað þess að steikja sjálfur. Það hefur komið ágætlega út.