Mikið erum við hamingjusöm yfir veðurblíðunni. Í dag tókum við vanillusnúða úr frystinum og pökkuðum niður ásamt drykkjum og hjóluðum í Elliðarárdalinn. Þar var algjör paradís, glampandi sól og umhverfið svo fallegt. Við Malín vorum síðan búnar að ákveða að fara í bíó í kvöld þannig að ég var með fljótlegan en mjög vinsælan rétt í matinn, gratinerað taco með nachos og salati.
Gratinerað taco
- 800 gr blandað hakk (eða nautahakk)
- 2 öskjur Philadelfia ostar með lauk og papriku
- 1 rauðlaukur
- 1 stór gul paprika
- 2,5 dl sýrður rjómi
- 1 dós maísbaunir
- 2 pokar taco-krydd
- 1 poki Nachos með ostabragði
Hitið ofninn í 200°. Hakkið rauðlaukinn og skerið paprikuna smátt. Steikið hakkið á pönnu og þegar það er ekki lengur rautt þá er taco-kryddinu bætt við og blandað vel saman. Leyfið að malla um stund og takið svo pönnuna af hitanum. Bætið rauðlauk, papriku og maísbaunum á pönnuna og blandð vel saman. Ef pannan er grunn er hægt að gera þetta í stórri skál.
Smyrjið Philadelfia ostinum í botninn á eldföstu móti og smyrjið síðan sýrða rjómanum yfir Philadelfia ostinn. Breiðið hakkblönduna yfir sýrða rjómann og stingið nachos flögum í þannig að þær standi hálfar upp úr. Í dag átti ég cheddar ost sem ég reif yfir hakkið áður en ég stakk nachos flögunum í. Hitið í ofninum í 6-10 mínútur.
Sem meðlæti hef ég alltaf ferskt salat, nachos, salsa, sýrðan rjóma og guacamole. Ég var með iceberg kál í salatinu í dag og til að hafa það sem stökkast þá sker ég það niður og læt það liggja í ísköldu vatni á meðan ég geri matinn. Prófið, það verður mikið betra.
Snillingur.
Vá, en flott! Svo óravegu frá því, sem mér dettur nokkru sinni í hug. Annars gerði ég súpuna þína um daginn og hún var rosa góð. Átti bara ekki nógu stórar skálar, en öll fór súpan ofan í okkur og með öllu innvolsinu. Namm, namm.
Knús, Malín
Var að elda þennan, hann vakti mikla lukku í Lindarhvamminum og verður pottþétt gerður aftur. Frábært að kíkja hingað inn og fá flottar hugmyndir.
kv Unnur
Ég gerði þennan í gær og það vakti sérstaklega mikla lukku hjá 2. ára dótturinni að hjálpa mér við að stinga nachos flögunum í kjötið. 🙂 Rétturinn var mjög góður en frekar „rich“ svo ég mun framvegis gera hann um helgi, svona spari.
Æðislegar uppskriftir hjá þér og hlakka mikið til að prófa fleiri…
Kv. Drífa
Þetta er svo sjúklega gott… 🙂
Uppáhalds hakkrétturinn minn núna… hef ekki tölu á því hvað ég er búin að gera hann oft síðan að þú póstaðir honum hér!