Mikið erum við hamingjusöm yfir veðurblíðunni. Í dag tókum við vanillusnúða úr frystinum og pökkuðum niður ásamt drykkjum og hjóluðum í Elliðarárdalinn. Þar var algjör paradís, glampandi sól og umhverfið svo fallegt. Við Malín vorum síðan búnar að ákveða að fara í bíó í kvöld þannig að ég var með fljótlegan en mjög vinsælan rétt í matinn, gratinerað taco með nachos og salati.
Gratinerað taco
- 800 gr blandað hakk (eða nautahakk)
- 2 öskjur Philadelfia ostar með lauk og papriku
- 1 rauðlaukur
- 1 stór gul paprika
- 2,5 dl sýrður rjómi
- 1 dós maísbaunir
- 2 pokar taco-krydd
- 1 poki Nachos með ostabragði
Hitið ofninn í 200°. Hakkið rauðlaukinn og skerið paprikuna smátt. Steikið hakkið á pönnu og þegar það er ekki lengur rautt þá er taco-kryddinu bætt við og blandað vel saman. Leyfið að malla um stund og takið svo pönnuna af hitanum. Bætið rauðlauk, papriku og maísbaunum á pönnuna og blandð vel saman. Ef pannan er grunn er hægt að gera þetta í stórri skál.
Smyrjið Philadelfia ostinum í botninn á eldföstu móti og smyrjið síðan sýrða rjómanum yfir Philadelfia ostinn. Breiðið hakkblönduna yfir sýrða rjómann og stingið nachos flögum í þannig að þær standi hálfar upp úr. Í dag átti ég cheddar ost sem ég reif yfir hakkið áður en ég stakk nachos flögunum í. Hitið í ofninum í 6-10 mínútur.
Sem meðlæti hef ég alltaf ferskt salat, nachos, salsa, sýrðan rjóma og guacamole. Ég var með iceberg kál í salatinu í dag og til að hafa það sem stökkast þá sker ég það niður og læt það liggja í ísköldu vatni á meðan ég geri matinn. Prófið, það verður mikið betra.