Spaghetti bolognese

Þá er hversdagsleikinn tekinn aftur við og viðeigandi að bjóða upp á hversdagslegan rétt, spaghetti bolognese. Þetta er einn af þeim réttum sem ég elda hvað oftast og við fáum ekki leið á honum. Rétturinn breytist reglulega en þessi útgáfa hefur fengið að hanga með lengi og er sú sem ég nota oftast. Hér áður fyrr setti ég alltaf sveppi, zuccini, papriku og lauk út í hakkið og hellti síðan pastasósu yfir en krökkunum fannst ekki gott að hafa allt þetta grænmeti í sósunni. Ég ákvað því að hætta því og byrjaði að breyta aðeins uppskriftinni. Við erum öll sammála um að finnast rétturinn bara betri fyrir vikið.

Mér finnst lykilatriðið við góða bolognese sósu vera að bæta sýrðum rjóma út í hana ásamt smá hunangi. Síðan þykir mér Chili Explosion kryddið frá Santa Maria ómissandi. Þó að það hljómi sem hræðilega strerkt krydd þá er það frekar milt og það er ekki hægt að nota of mikið af því. Rjómasletta finnst mér alltaf til bóta og hika ekki við að nota ef ég á til.

Ég geri bolognese sósuna aldrei eftir nákvæmum málum (gerir það einhver?) en svona er hún nokkurn veginn.

Spaghetti bolognese

  • ca 500 gr nautahakk (einn bakki)
  • 1 laukur
  • 1 rauð paprika
  • 1 krukka Dolmio pastasósa með extra hvítlauk (fæst m.a. í Bónus og Nettó)
  • 1 dós sýrður rjómi (ef ég á venjulegan rjóma þá nota ég hálfa dós af sýrðum rjóma og rjóma á móti)
  • 1/2 – 1 grænmetisteningur
  • ca 2-3 msk fljótandi hunang
  • smá sinnep (má sleppa)
  • chili explosion krydd frá Santa Maria
  • salt, pipar og paprikukrydd

Steikið hakkið á pönnu og þegar það byrjar að brúnast er lauknum bætt á pönnuna. Steikið áfram þar til laukurinn verður mjúkur og ef ég á papriku þá sker ég hana smátt og bæti á pönnuna í lokin. Kryddið aðeins með Kød og grill kryddi eða Lawrey´s seasoned salt og piprið. Bætið Dolmio pastasósunni á pönnuna ásamt sýrða rjómanum og rjómanum (ef þið eigið hann), 1/2 grænmetisteningi, hunangi, smá sinnepi og vel af chilli explosion kryddinu (ekki vera hrædd við það).  Leyfið að sjóða um stund og smakkið til, bætið jafnvel meiri krafti út í eða meira af chilli explosion kryddinu. Mér þykir líka gott að krydda aðeins með paprikukryddi. Ef sósan er of sterk bæti ég meiri rjóma eða sýrðum rjóma út í.

Sjóðið spaghetti samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Þegar það er soðið er vatninu hellt af, spaghettiið sett í skál og væn smjörklípa látin bráðna yfir það.

Berið bolognes sósuna fram með spaghetti, ferskum parmesan osti og hvítlauksbrauði. Okkur finnst líka æðislega gott að hafa kartöflumús með en ætli ítalskar ömmur myndu ekki snúa sér við í gröfinni ef þær fréttu það.

Gratinerað taco

Mikið erum við hamingjusöm yfir veðurblíðunni. Í dag tókum við vanillusnúða úr frystinum og pökkuðum niður ásamt drykkjum og hjóluðum í Elliðarárdalinn. Þar var algjör paradís, glampandi sól og umhverfið svo fallegt. Við Malín vorum síðan búnar að ákveða að fara í bíó í kvöld þannig að ég var með fljótlegan en mjög vinsælan rétt í matinn, gratinerað taco með nachos og salati.

Gratinerað taco

  • 800 gr blandað hakk (eða nautahakk)
  • 2 öskjur Philadelfia ostar með lauk og papriku
  • 1 rauðlaukur
  • 1 stór gul paprika
  • 2,5 dl sýrður rjómi
  • 1 dós maísbaunir
  • 2 pokar taco-krydd
  • 1 poki Nachos með ostabragði

Hitið ofninn í 200°. Hakkið rauðlaukinn og skerið paprikuna smátt. Steikið hakkið á pönnu og þegar það er ekki lengur rautt þá er taco-kryddinu bætt við og blandað vel saman. Leyfið að malla um stund og takið svo pönnuna af hitanum. Bætið rauðlauk, papriku og maísbaunum á pönnuna og blandð vel saman. Ef pannan er grunn er hægt að gera þetta í stórri skál.

Smyrjið Philadelfia ostinum í botninn á eldföstu móti og smyrjið síðan sýrða rjómanum yfir Philadelfia ostinn. Breiðið hakkblönduna yfir sýrða rjómann og stingið nachos flögum í þannig að þær standi hálfar upp úr. Í dag átti ég cheddar ost sem ég reif yfir hakkið áður en ég stakk nachos flögunum í. Hitið í ofninum í 6-10 mínútur.

Sem meðlæti hef ég alltaf ferskt salat, nachos, salsa, sýrðan rjóma og guacamole. Ég var með iceberg kál í salatinu í dag og til að hafa það sem stökkast þá sker ég það niður og læt það liggja í ísköldu vatni á meðan ég geri matinn. Prófið, það verður mikið betra.

Hakkabuff í rjómasósu

Í kvöld ákváðum við að fara í bíó að sjá frönsku myndina, Intouchables, og var því hálfgerður skyndibiti hér á borðum. Það kom þó ekki að sök því hér eru allir sáttir við hakkabuff og mér finnst þetta vera fínasti hversdagsmatur. Uppskriftin er ekki heilög og breytist eftir veðri og vindum. Það sama á við um meðlætið. Hvort sem það er sulta, tómatsósa, sinnep, grænar baunir, rauðkál, ferskt salat eða hrásalat, það breytir engu. Þetta er alltaf gott.

Hakkabuff

  • 800 gr. blandað hakk (ég nota yfirleitt einn bakka af nautahakki og einn af svínahakki sem ég blanda saman)
  • 1 dl vatn
  • 1 egg
  • 1 msk kartöflumjöl
  • 2 tsk þurrkað timjan
  • 1 tsk þurrkað rósmarín
  • salt
  • pipar
Rjómasósa
  • 3 dl kjötkraftur (vatn og teningur eða fljótandi kraftur)
  • 3 dl rjómi
  • 1 msk rifsberjahlaup
  • sojasósa
  • salt
  • pipar
  • Maizena-sósuþykkir

Blandið hráefninu í hakkabuffið vel saman og mótið stóran bolta úr buffinu. Hitið olíu á pönnu, setjið buffið á pönnuna og fletjið það út. Skiptið buffinu í sneiðar og steikið á báðum hliðum. Buffið þarf ekki að vera steikt í gegn því það mun sjóða í sósunni. Blandið hráefninu í sósuna og bætið því á pönnuna. Leyfið að sjóða við vægan hita í 10 mínútur. Smakkið sósuna til, bætið ef til vill meiri sojasósu, sultu eða setjið smá kraft út í. Þykkið sósuna með Maizena.

Lasagna með rjómakremi

Í gær fengum við óvæntan matargest þegar Eyþór bróðir kom til að horfa á leikinn hjá okkur. Ég var ekki í vandræðum með að ákveða hvað ég ætti að elda því mig er búið að langa í þetta lasagna í nokkurn tíma. Ég prófaði þessa uppskrift fyrst fyrir nokkrum vikum og er búin að hugsa um hana síðan. Mér fannst því kjörið tækifæri að draga uppskriftina aftur fram og bjóða Eyþóri upp á.

Það sem gerir þetta lasagna frábrugðið því lasagna sem ég geri hvað oftast er balsamik edikið sem fer ákaflega vel með nautakjötinu og tómötunum. Það er heldur ekki notuð klassísk béchamel sósa eða kotasæla heldur er þeytt saman rjóma og sýrðum rjóma í þykkt krem sem er bragðbætt með góðu jurtasalti. Ég hef stundum búið til jurtasalt sjálf og finnst það langbest en það dugar vel að nota gott jurtasalt sem fæst í búðinni.

  • 600 gr nautahakk
  • 1 stór gulur laukur
  • 1 kúrbítur
  • 1 dl balsamik edik
  • 1 dós hakkaðir tómatar
  • jurtasalt
  • pipar
  • smá sykur
  • oregano, timjan og marjoram
  • 3 dl sýrður rjómi
  • 2 dl rjómi
  • jurtasalt
  • 2 dl rifinn ostur
  • lasagneplötur

Hitið ofninn í 200°. Afhýðið og fínhakkið laukinn, skerið kúrbítinn í litla bita og mýkið á pönnu. Takið af pönnunni og steikið nautahakkið.  Þegar nautahakkið er tilbúið þá er kúrbítnum og lauknum bætt aftur pönnuna ásamt balsamik edik, tómötum, jurtasalti, pipar, sykri og kryddjurtum og leyft að sjóða um stund.

Hrærið saman sýrða rjómanum, rjómanum og jurtasaltinu þar til það verður að þykku kremi.

Takið eldfast mót og setjið til skiptist lag af kjötsósunni og lasagna plötur. Endið á kjötsósunni og hellið rjómakreminu yfir. Setjið að lokum rifinn ost yfir og bakið neðarlega í ofninum í ca 30 mínútur.

Berið fram með góðu salati og hvítlauksbrauði.