Í kvöld ákváðum við að fara í bíó að sjá frönsku myndina, Intouchables, og var því hálfgerður skyndibiti hér á borðum. Það kom þó ekki að sök því hér eru allir sáttir við hakkabuff og mér finnst þetta vera fínasti hversdagsmatur. Uppskriftin er ekki heilög og breytist eftir veðri og vindum. Það sama á við um meðlætið. Hvort sem það er sulta, tómatsósa, sinnep, grænar baunir, rauðkál, ferskt salat eða hrásalat, það breytir engu. Þetta er alltaf gott.
Hakkabuff
- 800 gr. blandað hakk (ég nota yfirleitt einn bakka af nautahakki og einn af svínahakki sem ég blanda saman)
- 1 dl vatn
- 1 egg
- 1 msk kartöflumjöl
- 2 tsk þurrkað timjan
- 1 tsk þurrkað rósmarín
- salt
- pipar
- 3 dl kjötkraftur (vatn og teningur eða fljótandi kraftur)
- 3 dl rjómi
- 1 msk rifsberjahlaup
- sojasósa
- salt
- pipar
- Maizena-sósuþykkir
Blandið hráefninu í hakkabuffið vel saman og mótið stóran bolta úr buffinu. Hitið olíu á pönnu, setjið buffið á pönnuna og fletjið það út. Skiptið buffinu í sneiðar og steikið á báðum hliðum. Buffið þarf ekki að vera steikt í gegn því það mun sjóða í sósunni. Blandið hráefninu í sósuna og bætið því á pönnuna. Leyfið að sjóða við vægan hita í 10 mínútur. Smakkið sósuna til, bætið ef til vill meiri sojasósu, sultu eða setjið smá kraft út í. Þykkið sósuna með Maizena.
Ég var að gera þennan. Hann er einfaldur fljótlegur og ógó góður…sósan er brjálæðislega góð 🙂
Takk fyrir okkur.
Mmmmmm !!! Geggjað gott ! Krakkarnir bókstaflega ELSKUÐU þetta ! Takk fyrir okkur segi ég nú bara ! 😀
Vóhó ! Einfalt og þægilegt namm namm !