Hakkabuff með parmesan í raspi

Hakkabuff með parmesan í raspi

Ég er búin að vera með pannerað hakkabuff á heilanum síðan ég las komment hér á síðunni frá Halldóri Tjörva. Til að fá hugarró kom ég við í búð á leiðinni heim í gær og keypti nautahakk. Þegar heim var komið reyndist lítið til af meðlæti á heimilinu, enda kom hakkabuff alveg óvænt inn á vikumatseðilinn, en það má alltaf tína eitthvað til. Það kom á daginn að kartöflur, hrásalat, sveppasósa og sulta fór ljómandi vel með buffinu, þó að rauðbeður og lauksósa hefðu eflaust ekki skemmt fyrir.

Það er langt síðan ég komst að því að mér þykir allt í raspi gott en hamingjan hjálpi mér hvað mér þótti þetta góður matur. Ég sendi Halldóri Tjörva mínar bestu þakkir fyrir kommentið sem varð til þess að þessi ljúffengu buff enduðu á diskunum okkar.

Hakkabuff með parmesan í raspi

Hakkabuff með parmesan í raspi

 • 500 g nautahakk
 • 100 g rifinn parmesan ostur
 • 1 laukur, fínhakkaður (ég mauka hann með töfrasprota)
 • 1 hvítlauskrif
 • 2 egg
 • 2 msk Dijon sinnep
 • 1 tsk salt
 • 1/2 tsk pipar

Hitið ofninn í 175° og sjóðið kartöflur.

Hakkabuff með parmesan í raspi

Blandið nautahakki, parmesan osti, lauki, pressuðu hvítlauskrifi, sinnepi, eggjum, salti og pipar saman. Mótið 8 buff og leggið til hliðar.

Takið 3 skálar og setjið hveiti í eina, upphrært egg í eina og rasp í eina.

Veltið buffinu fyrst upp úr hveiti, síðan eggi og að lokum raspi. Steikið upp úr vel af smjöri og olíu og færið svo yfir í eldfast mót. Þegar öll buffin hafa verið steikt eru þau sett í ofninn í ca 10 mínútur.

Hakkabuff með parmesan í raspi

Hakkabuff í rjómasósu

Í kvöld ákváðum við að fara í bíó að sjá frönsku myndina, Intouchables, og var því hálfgerður skyndibiti hér á borðum. Það kom þó ekki að sök því hér eru allir sáttir við hakkabuff og mér finnst þetta vera fínasti hversdagsmatur. Uppskriftin er ekki heilög og breytist eftir veðri og vindum. Það sama á við um meðlætið. Hvort sem það er sulta, tómatsósa, sinnep, grænar baunir, rauðkál, ferskt salat eða hrásalat, það breytir engu. Þetta er alltaf gott.

Hakkabuff

 • 800 gr. blandað hakk (ég nota yfirleitt einn bakka af nautahakki og einn af svínahakki sem ég blanda saman)
 • 1 dl vatn
 • 1 egg
 • 1 msk kartöflumjöl
 • 2 tsk þurrkað timjan
 • 1 tsk þurrkað rósmarín
 • salt
 • pipar
Rjómasósa
 • 3 dl kjötkraftur (vatn og teningur eða fljótandi kraftur)
 • 3 dl rjómi
 • 1 msk rifsberjahlaup
 • sojasósa
 • salt
 • pipar
 • Maizena-sósuþykkir

Blandið hráefninu í hakkabuffið vel saman og mótið stóran bolta úr buffinu. Hitið olíu á pönnu, setjið buffið á pönnuna og fletjið það út. Skiptið buffinu í sneiðar og steikið á báðum hliðum. Buffið þarf ekki að vera steikt í gegn því það mun sjóða í sósunni. Blandið hráefninu í sósuna og bætið því á pönnuna. Leyfið að sjóða við vægan hita í 10 mínútur. Smakkið sósuna til, bætið ef til vill meiri sojasósu, sultu eða setjið smá kraft út í. Þykkið sósuna með Maizena.