Í lok júlí fór Jakob í vikuferð til Finnlands í sumarbúðir. Á meðan var ég eins og vængbrotinn fugl hér heima en hann upplifði bestu daga lífs síns. Það sem hann skemmti sér vel og þrátt fyrir að við settum ferðafrelsi á símann hans heyrðist varla frá honum þessa vikuna. Eftir langa viku sóttum við Gunnar hann á Leifsstöð þar sem við fengum að bíða í klukkutíma áður en hann lét sjá sig.
Jakob kom færandi hendi, með gjafir handa öllum. Ég fékk nýjan mumminbolla í safnið sem ég elska og varð strax uppáhalds bollinn minn!
Í fjarveru Jakobs nýttum við Gunnar góðviðrið einn seinnipartinn í göngu í Esjunni. Vissuð þið að ef farið er út fyrir stígana og ekki hefðbundna leið upp að steini þá má finna vilt jarðaber og hindber? Við höfðum ekki gengið lengi þegar við sáum lítil en bragðgóð jarðaber sem við týndum upp í okkur.
Þegar við komum niður rákumst við á þennan fallega hund sem býr á svæðinu. Okkur langaði að eiga hann.
Það er orðið þónokkuð langt síðan ég setti inn vikumatseðil og þar sem margir eru að detta í vinnu aftur eftir sumarfrí þá getur verið gott að skipuleggja matarvikuna og gera stórinnkaup, því hver nennir í búðina eftir vinnudaginn þegar manni langar mest til að vera heima í sumarfríi? Ekki ég. Hér kemur því sumarlegur matseðill sem gefur veislu alla vikuna!
Vikumatseðill
Mánudagur: Pönnusteiktur þorskur með sætum kartöflubátum og basilikumajónesi
Þriðjudagur: Grilluð BBQ-pizza
Miðvikudagur: Japanskt kjúklingasalat
Fimmtudagur: Parmesanbaka með spínati og kirsuberjatómötum
Föstudagur: BBQ-hamborgarar með karamelluhúðuðum rauðlauk og hvítmygluosti
Með helgarkaffinu: Torta di Pernilla